Ian Rankin býr í gömlum spítala

Metsöluhöfundurinn Ian Rankin er nú staddur hér á landi.
Metsöluhöfundurinn Ian Rankin er nú staddur hér á landi.

Glæpasagnahöfundurinn Ian Rankin er gestur íslensku bókahátíðarinnar Iceland Noir í ár og stendur nú yfir. Í viðtali við Sunday Times lýsir hann heimili sínu í Edinborg en hann á tvær íbúðir hlið við hlið. Eina til þess að búa í og aðra til þess að vinna í. 

„Fyrir tveimur árum fluttum við úr átta svefnherbergja húsinu okkar fyrir þriggja svefnherbergja íbúð í Quartermile hverfinu í Edinborg. Við búum í gömlum spítala sem búið er að breyta í íbúðarhús og útsýnið þaðan er frábært.“

Stutt í vinnuna

„Heimili mitt er á efstu hæð og hefur tvo átthyrnda smáturna. Í öðrum þeirra er sjónvarpsherbergið en í hinum er eldhúsið. Við hækkuðum gólfið í eldhúsinu til þess að njóta útsýnisins betur. Við eigum líka íbúð við hliðina á þar sem skrifstofan mín er. Það tekur því aðeins um 45 sekúndur fyrir mig að fara í vinnuna,“ segir Rankin í Sunday Times.

Bækur uppi um alla veggi

Aðspurður um hvernig hann myndi lýsa stíl sínum segir Rankin:

„Það eru bækur uppi um alla veggi í stofunni og frammi á gangi. Ég geymi eintak af hverri bók eftir mig á öllum tungumálum. Þá söfnum við líka skoskri list. Þegar ég byrjaði að fá inn reglulegar tekjur af bókum mínum sagði endurskoðandi minn: „Ef þig langar að kaupa list, keyptu þá list. Þá ertu að minnsta kosti að horfa á peningana þína.“ 

„Þá hefur konan mín áhuga á vefnaði og það eru textílverk uppi á veggjum sem eru stór og litrík. Hún hjó eftir því að það voru engin verðlaun veitt fyrir vefnað en Edinborg á marga færa listamenn á því sviði. Við stofnuðum því Cordis-verðlaunin til þess að vinna að framgöngu þessarar listgreinar. Verðlaunin hafa nú hlotið viðurkenningu á alþjóðavísu.“

Hreinsandi að minnka við sig

Rankin segir það hafa verið hreinsandi að þurfa að minnka við sig. „Það tók okkur næstum ár að fara í gegnum allt. Sem betur fer tók landsbókasafnið við öllum handritum mínum og glósum.“

Um samkomubannið segir Rankin það hafi verið ánægjulegur tími fyrir sig. „Mér leiðist að segja það en þetta var frábært. Ég gat ekki farið á bókahátíðir þannig að ég sat bara við skriftir. Sumir rithöfundar eiga erfitt með að einbeita sér en mér fannst það léttir að skrifa. Þetta var eins og flóttaleið frá faraldrinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál