Manfreðshús Styrmis Gunnarssonar komið á sölu

Styrmir Gunnarsson heitinn, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, byggði einstakt hús við …
Styrmir Gunnarsson heitinn, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, byggði einstakt hús við Marbakkabraut í Kópavogi. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Styrmir Gunnarsson heitinn, sem starfaði lengst af sem ritstjóri Morgunblaðsins, reisti eitt af áhugaverðustu húsunum í Kópavogi ásamt eiginkonu sinni heitinni, Sigrúnu Finnbogadóttur. Húsið var byggt 1978 en fjölskyldan flutti inn í húsið það ár á Þorláksmessu. 

Húsið var teiknað af Manfreð Vilhjálmssyni arkitekt sem hefur alltaf haft sterkan persónulegan stíl. Hann hannaði einnig allar innréttingar í húsið. Húsið er 225 fm að stærð og býr yfir útsýni án hliðstæðu. Hús Styrmis og Sigrúnar er eitt af síðustu húsunum sem Manfreð teiknaði fyrir einkaaðila. Það er með bröttu risþaki og því nokkuð ólíkt þeim módernísku húsum sem Manfreð er hvað kunnastur fyrir. Þess má geta að húsið var byggt áður en göturnar í kring voru skipulagðar. 

Stórir gluggar snúa út að Fossvoginum en fyrir neðan húsið er göngustígur. 

„Staðsetningin er einstök og er leit að öðru húsi sem býður upp á jafn áhrifamikil tengsl við fjöruna og hafið. Njóta má útsýnis út yfir Fossvog og Skerjafjörð á báðum hæðum hússins í gegnum vandlega staðsett gluggaop, stór og smá. Innan við steypta útveggina og óháð þeim er svartlituð burðargrind úr timbri sem gólf og milliveggir efri hæðar hvíla á og mynda nokkurs konar „hús“ inni í húsinu,“ segir Pétur H. Ármannsson arkitekt um húsið. 

„Í miðju íbúðarinnar er opið á milli hæða. Þvert yfir opið gengur brú sem myndar gönguleið að tveimur svefnherbergjum og baðherbergi á efri hæð.
Brúin yfir opið tengist léttbyggðum stiga sem Manfreð hannaði líkt og aðrar veggfastar innréttingar. Rými hússins eru hófleg í stærðum og öllu haganlegu fyrir komið með tilliti til þarfa fjölskyldu. Aringryfja við vesturgafl skiptir stofurýminu í afmörkuð setu- og vinnusvæði,“ segir hann jafnframt. 

Eins og sjá má á myndunum er um einstakt hús að ræða. 

Af fasteignavef mbl.is: Marbakkabraut 26 og Marbakkabraut 26

mbl.is