„Ég skil ekki hvernig við fórum að þessu“

Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður er mjög hrifinn af strigaveggfóðri. Á dögunum var hann og unnusta hans, Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússstjóri, heimsótt í þættinum Heimilislífi. Heimir segir frá því í þættinum hvernig hann pantaði strigaveggfóður sem þau notuðu á nokkra veggi í húsinu. Það hafi passað vel að hafa strigaveggfóður því það passi við byggingartíma hússins.

„Þetta er bara þetta tímabil. Þetta var mikið notað á árunum 1950, '60 og '70. Ég fann fyrirtæki í Bretlandi sem framleiðir þetta ennþá. Hönnun þeirra hefur ekkert breyst í 50 ár,“ segir Heimir.

„Við vorum í brjáluðu stressi,“ segir hann en frá því þau fengu húsið afhent og þangað til þau fluttu inn liðu um tveir mánuðir. 

„Ég skil ekki hvernig við fórum að þessu,“ segir Heimir en draumurinn var að geta flutt inn fyrir jól og opnað jólapakka á heimilinu. Ótrúlegt en satt þá tókst það.

mbl.is