Manfreðshús Styrmis selt

Manfreðshús Styrmis Gunnarssonar heitins við Marbakkabraut í Kópavogi hefur verið selt. Hann starfaði lengst af sem ritstjóri Morgunblaðsins en féll frá á síðasta ári. Húsið er einstök hönnunarperla og var byggt 1978. Guðbjartur Örn Gunnarsson og Rakel Sara Höskuldsdóttir eru nýir eigendur. 

Húsið er 225 fm að stærð og býr yfir útsýni án hliðstæðu. Manfreð Vilhjálmsson hannaði húsið í heild sinni og einnig innréttingar hússins. Stórir gluggar og gott skipulag einkenna húsið. Það er töluvert ólíkt fyrri verkum Manfreðs þar sem það er með bröttu risþaki. 

„Staðsetn­ing­in er ein­stök og er leitun að öðru húsi sem býður upp á jafn áhrifa­mik­il tengsl við fjör­una og hafið. Njóta má út­sýn­is út yfir Foss­vog og Skerja­fjörð á báðum hæðum húss­ins í gegn­um vand­lega staðsett glugga­op, stór og smá. Inn­an við steypta út­vegg­ina og óháð þeim er svartlituð burðargrind úr timbri sem gólf og milli­vegg­ir efri hæðar hvíla á og mynda nokk­urs kon­ar „hús“ inni í hús­inu,“ seg­ir Pét­ur H. Ármanns­son arki­tekt um húsið. 

„Í miðju íbúðar­inn­ar er opið á milli hæða. Þvert yfir opið geng­ur brú sem mynd­ar göngu­leið að tveim­ur svefn­her­bergj­um og baðher­bergi á efri hæð.
Brú­in yfir opið teng­ist létt­byggðum stiga sem Man­freð hannaði líkt og aðrar vegg­fast­ar inn­rétt­ing­ar. Rými húss­ins eru hóf­leg í stærðum og öllu hag­an­lega fyr­ir komið með til­liti til þarfa fjöl­skyldu. Aringryfja við vest­urgafl skipt­ir stofu­rým­inu í af­mörkuð setu- og vinnusvæði,“ seg­ir hann jafn­framt. 

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is