Mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið

Bjarni Herrera.
Bjarni Herrera.

Bjarni Herrera forstöðumaður sjálfbærni hjá KPMG segir leigumarkaðinn og markað fyrir fyrstu kaup erfiðan á Íslandi. Það eina sem geti leyst það sé samhent átak allra hagaðila til að fjölga íbúðum í umferð. 

Hann leiðir hóp sérfræðinga í sjálfbærnimálum innan KPMG. Þeir sem kaupa þjónustu hans eru fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, sveitarfélög, stofnanir og ríkið.

„Það er áhugavert að vera með puttann á púlsinum hvað viðkemur nýjustu þekkingu á sviði sjálfbærni. Í sjálfbærnihugtakinu felast nokkur atriði og ýmislegt hægt að skoða undir hverju þeirra þegar fasteignir fólks eru annars vegar.“

Það hvort fasteignir eru grænvottaðar eða ekki fellur undir umhverfis- og loftslagsmál. Vottanir sem íbúðir geta haft eru sem dæmi BREEAM eða Svansvottun.

„Enn í dag er lítið um íbúðarhúsnæði í þessum flokki en það eykst vonandi eftir því sem fólk óskar eftir því. Ef fasteignir eru grænvottaðar þá er hugað að efnisvali í bygginguna, loftgæðum og fleiri þáttum. Ef ekki er hægt að kaupa grænvottað húsnæði geta kaupendur og eigendur þó hugað að því að minnka notkun rafmagns og vatns, þessu er sem dæmi hægt að ná fram með orkustýringarkerfum og með því að skipta ljósaperum í LED og fleira.

Að mörgu að gæta þegar velja skal húsnæði

Í einhverjum tilvikum getur val á staðsetningu húsnæðis skipt máli með tilliti til umhverfismála.

„Sem dæmi er áætlað að vatnsborð muni hækka á næstu árum og áratugum og húsnæði við sjóinn gæti lent í vandræðum á sumum stöðum. Þá sér maður að það er ekki sjálfsagt í nýbyggingum að þeim fylgi bílastæði, þar sem ekki er sjálfsagt að fólk kjósi endilega að eiga bíl heldur notist við aðra ferðamáta. Þá er aðgengi að hjólastígum og almenningssamgöngum lykilatriði. Á veraldarvefnum eru til ýmsar reiknivélar sem hjálpa fólki að skilja og ná utan um losun gróðurhúsalofttegunda af byggingu og rekstri fasteigna, sem getur verið gaman fyrir fólk að glöggva sig á.“

Bjarni segir félagslegu þættina ekki síður áhugaverða og má þar nefna mannréttindi, heilsu, öryggi, launamun kynjanna og fleira í þeim dúr.

„Að þessu er hægt að huga við byggingu fasteigna sem og í öllu viðhaldi. Að verktakar greiði sínu fólki góð laun og fólk njóti réttinda. Að greitt sé eftir kjarasamningum, svo ekki sé minnst á alla umræðuna um sveppamyndum í húsum, sem flokkast undir umhverfismál, enda getur það haft gríðarlega neikvæð áhrif á vellíðan fólks. Fólki þarf að líða vel í húsnæðinu sínu og ekki veikjast við að búa í því.“

Hefur áhuga á grænvottuðu húsnæði

Almenn hagsæld er Bjarna einnig hugleikin.

„Með því að kaupa þjónustu af aðilum í nærsamfélaginu, sem eru fagaðilar og selja sína þjónustu ekki svart, er verið að stuðla að hagsæld samfélagsins alls. Þá er verið að greiða skatta og gjöld og stuðla að atvinnu.“

Bjarni bendir á að mikið sé að gerast hjá iðnaðarfólki um þessar mundir og blessunarlega hafi bæst í þá flóru erlendir sérfræðingar.

„Það hefur sýnt sig að samfélög með meiri hagsæld búa yfir meiri fjölbreytni.“

Hvað viðkemur eigin húsnæði gat Bjarni því miður, að eigin sögn, ekki keypt sér grænvottað húsnæði á sínum tíma.

„Ég hef ákveðið að huga að því við næstu kaup. Það sem ég hafði hins vegar í huga var aðgengi að almenningssamgöngum, að ég sé í göngufæri við helstu þjónustu, eins huga ég að orku- og vatnsnotkun og hef það sem viðmið að ég kaupi sem minnst nýtt inn í húsnæðið. Ef ég kaupi eitthvað er það helst notað eða mjög gott svo endingin verði meiri. Ég reyni einnig eftir fremsta megni að kaupa þjónustu við fasteignina í nærsamfélaginu.“

Hvað gerirðu daglega sem sýnir viðleitni þína til að iðka það sem þú kennir?

„Mitt helsta framlag til sjálfbærni er sennilega í gegnum starf mitt; að hjálpa ríkinu, fyrirtækjum og sveitarfélögum á sinni vegferð. Í einkalífinu hef ég mest tekið til í neyslunni og þá með því að draga úr henni eins og mögulegt er.“

Markaður fyrir fyrstu kaup erfiður

Hvaða leiðir mælir þú með að þeir sem eru að safna fyrir íbúð fari?

„Í grunninn eru mannréttindi að allir hafi aðgang að mannsæmandi húsnæði. Ég veit að á Íslandi er skortur á húsnæði og því er leigumarkaðurinn og markaður fyrir fyrstu kaup erfiður um þessar mundir. Það þarf samhent átak allra hagaðila til að rétta það ástand við og fjölga íbúðum í umferð. Fyrir það fólk sem nær að safna um hver mánaðamót er gott að huga að því.“

Er hægt að huga að peningamálum út frá hugmyndum um sjálfbærni?

„Já, það er hægt, ekki spurning. Nú hafa sem dæmi bankarnir, fasteignafélög og sveitarfélög gefið út það sem kallast græn skuldabréf þar sem þau gefa út skuldabréf til að fjármagna rekstur sinn og nýta það fjármagn meðal annars í grænt húsnæði. Einstaklingar geta svo tekið þátt í þessum skuldabréfum með því að fjárfesta í sjálfbærum skuldabréfasjóðum hjá stóru sjóðastýringarfyritækjunum.“

Hver er uppáhaldshagfræðireglan þín?

„Ég hef reynt að hugsa mikið um fórnarkostnað í mínu daglega lífi. Með því að velja eitt er maður að fórna öðru, hvort sem það eru peningar, tími, vellíðan eða eitthvað annað.“

Hvert er besta sparnaðarráð sem þú hefur heyrt um?

„Hvað varðar fasteignir og íbúðarkaup, þá er ég mjög hrifinn af þeirri hugmynd að greiða niður íbúðalánin, og í raun öll lán, hraðar en maður hefur gert samning um. Ef við greiðum alltaf umfram greiðsluseðilinn, hver mánaðamót, þótt það séu einungis nokkrir þúsundkallar, þá getur það haft mikil áhrif til lengdar enda fylgir því mikið frelsi að losna við hvert lán fyrir sig úr bókhaldinu. Því fyrr sem þau greiðast niður því fyrr losnar um greiðslubyrði fólks í hverjum mánuði og þá má setja umframpeninga í fjárfestingar fyrir framtíðina.“

Umhverfisvottuð húsgögn má finna víða

Hvert er versta sparnaðarráð sem þú hefur heyrt um?

„Að kaupa eignir með lánum sem eru ekki tekjuberandi, svo sem þegar keyptir eru bílar eða peningar eru notaðir í annars konar neyslu.“

Bjarni segir að sem betur fer séu möguleikar á umhverfisvottuðum húsgögnum að aukast en svo megi fara ýmsar leiðir þegar kemur að húsgögnum út frá umhverfissjónarmiði.

„Ég hugsa alltaf hvort það sé ekki eitthvað notað til sem hægt væri að nýta. Ég auglýsi einnig notuð húsgögn og muni sjálfur, og hefur mér gengið mjög vel að losna við það sem ekki er í nýtingu hverju sinni, til fólks sem ég þekki í gegnum Facebook eða Instagram. Það er alltaf ánægjulegt að sjá hlutina eignast nýtt líf á nýjum stöðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál