Ákvað að svara Hreiðari á skjánum

Björgvin Þór Rúnarsson fasteignsali.
Björgvin Þór Rúnarsson fasteignsali.

Björgvin Þór Rúnarsson fasteignasali ákvað að stríða vini sínum Hreiðari Levý Guðmundssyni og búa til skemmtilega fasteignaauglýsingu sem birtist á milli leikja handboltalandsliðsins. Eyjamaðurinn Björgvin er gömul handboltakempa og segir gaman að vera í EM stemningunni heima í stofu og á skjánum á milli leikja.

„Ástæðan er mjög einföld ég er búin að starfa við þetta í átta ár og mér finnst fasteignaauglýsingar vera frekar þurrar. Svo sá ég að góður vinur minn Hreiðar Levý fyrrverandi landsliðsmarkvörður setti flotta auglýsingu og mig langaði að vera með og svara þessu,“ segir Björgvin.

„Björgvin Rúnars hefur aldrei farið á ólympíuleikana en hann vinnur gull fyrir þig með frábærri þjónustu,“ segir í nýrri auglýsingu Björgvins. Skýtur hann þar í góðu gríni á Hreiðar sem stærir sig á því að hafa unnið silfur á ólympíuleikum. „Hann byrjaði í fyrstu leikjunum. Ég sá þetta, mér fannst þetta alveg brilljant hjá honum. Ég var búinn að hugsa um þetta í nokkra daga og ákvað bara að svara honum,“ segir Björgvin. 

„Ég hef fengið stórkostleg viðbrögð út á þetta og ég veit að Hreiðar hafði mjög gaman af þessu. Markmiðið var auðvitað að koma sér á framfæri en líka létta lund þjóðarinnar eins og landsliðið er búið að gera. „Ég býst við að fá fullt af kúnnum út á þetta en grunnurinn er bara að hafa gaman. Ég hef alltaf verið frekar léttur, ég lít á lífið þannig að það eigi að vera skemmtilegt.“

Auglýsing Rúnars hefur vakið lukku.
Auglýsing Rúnars hefur vakið lukku.

Björgvin og Hreiðar eru báðir fasteignasalar en leiðir þeirra tveggja hafa leigið saman lengi þar sem Björgvin spilaði í úrvalsdeildinni í handbolta í 23 ár og lék með öllum landsliðum Íslands. Hann þjálfaði einnig í Noregi og þjálfar í dag hjá Haukum. Hann fylgist spenntur með landsliðinu með fjölskyldunni sinni og segir landsliðið búið að halda lífinu í þjóðinni í janúar.

„Við verðum að átta okkur á því að það sem landsliðið okkar er búið að ganga í gegnum á þessu móti er bara algjörlega ótrúlegt. Að það muni einu marki að við komumst í undanúrslit á sterkasta handboltamóti í heimi sýnir bara hvað við erum ótrúlega sterkir. Danaleikurinn í gær er sér kapítuli fyrir sig. Ég get alveg viðurkennt það að það var mikið svekkelsi á mínu heimili, það var eins og Ísland væri að spila, það varð allt vitlaust. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu og ég er ótrúlega stoltur að tengjast handboltanum á Íslandi. Mér finnst þetta stórkostleg íþrótt,“ segir Björgvin sem er handviss um að við vinnum Noreg á morgun og segir auglýsinguna verða á sínum stað. 

mbl.is