Óttar og Ingibjörg féllu fyrir einu krúttlegasta húsi landsins

Óttar Guðjónsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir.
Óttar Guðjónsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitafélaga og Ingibjörg Guðmundsdóttir fyrrverandi skólastjóri Lýðsskólans á Flateyri hafa sett eitt krúttlegasta hús landsins á sölu. Um er að ræða 68 fm hús sem byggt var 1905. Síðan þau festu kaup á húsinu hafa þau nostrað við það. 

Nú er griðastaður ykkur á Flateyri kominn á sölu. Eruð þið að yfirgefa svæðið?

„Nei, alls ekki. Við festum kaup á stærra húsi sem við ætlum að gera að griðastað fyrir alla fjölskylduna. Við erum að fá þrjú ný barnabörn á sex mánuðum, eigum fyrir þrjú og við viljum því hafa pláss fyrir fleiri í gistingu. Við viljum hafa gott pláss fyrir allt okkar fólk,“ segir Óttar. 

Hvað var það við þetta hús sem þið félluð fyrir á sínum tíma?

„Við féllum fyrir 110 ára gamla hluta hússins og 60 ára gömlu innréttingunni. Svo er húsið frábærlega staðsett, við hliðina á leikskólanum sem eru bestu nágrannar í heimi! og minna en 100 metrar á Vagninn,“ segir hann. 

Þið þurftuð að lyfta grettistaki til þess að koma húsinu í það horf sem það er í í dag. Segið mér nánar frá því?

„Nýi hluti hússins var forskalaður frá um 1960. Það sem var áveðurs og óvarið var orðið ónýtt. Við byggðum því hluta af útveggjum upp á nýtt og klæddum allt húsið og einangruðum að utan. Það fóru margir klukkutímar á hnjánum að gera upp gólfið í stofunni en þar eru upprunalegar 110 ára gólffjalir. Við settum svo nýtt baðherbergi, nýja milliveggi, nýjar vatnslagnir í allt húsið, gerðum upp eldhúsinnréttinguna, settum nýtt gólf í þvottahúsið og nýja fagurbláa útihurð,“ segir hann. 

Hvernig er að eiga griðastað úti á landi í litlu plássi eins og Flateyri eftir að hafa búið lengi í Reykjavík?

„Okkur líður mjög vel með að eiga griðastað á Flateyri. Okkur hefur verið tekið opnum örmum af fólkinu á staðnum. Inga var skólastjóri í Lýðskólanum í 2 ár og við sjáum fram á að við munum alltaf vilja eiga hús á Flateyri, við höfum bara ekki not fyrir tvö hús,“ segir hann.

Hvernig breytist tilveran við að búa úti á landi?

„Lífið úti á landi er bara öðru vísi en lífið í borginni, erfitt að lýsa því en tengingin við náttúruna er önnur og nálægðin við lífsbaráttuna miklu áþreifanlegri. Hér eru svo miklir og skemmtilegir möguleikar á útivist, bæði á sumrin og veturnir, lognið hér er svo magnað og loftið svo hreint. Og svo verður allt meira persónulegt, allir þekkja alla, fólkið hér lætur sér annt um aðra og svo er hér bara svo skemmtilegt fólk.“

Hvers munið þið sakna úr húsinu?

„Við munum sakna bestu nágrannanna á Flateyri, barnanna á leikskólanum. Það er svo örstutt á Vagninn og Gunnukaffi og í Skúrina sem er skrifstofuhótel okkar Flateyringa. Það eru engar vegalengdir langar á Flateyri en sumt er bara svo þægilega örstutt. Þar að auki er bara svo hlýlegt þegar húsið er komið hálft á kaf í snjó en hlýtt inni að heyra í veðrinu úti.“

Af fasteignavef mbl.is: Vallargata 5 

mbl.is