Gerir upp húsgögn og íbúðir og skreytir fyrir páskana

Anna Lísa Rasmussen er búsett ásamt fjölskyldu sinni í Þorlákshöfn en á rætur að rekja til miðborgar Reykjavíkur. Hún er ótrúlega opin, listræn og skemmtileg kona sem er óhrædd við að gera bara það sem hana langar í lífinu.

„Ég er skapandi og uppátækjasöm og læt vanalega vaða í það sem mér dettur í hug. Ég er oft með nokkrar hálfkláraðar hugmyndir um húsið eða í skúrnum því ég fæ iðulega nýja hugmyndir í miðju verkefni og hoppa þá stax í það. Ég hef alla tíð verið að skapa og breyta hlutum. Ég hef verið að gera upp húsgögn og spreyja nánast allt sem á vegi mínum verður. Ég hef tekið mér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina, sem dæmi silfursmíði, steypumót, vinnu með gips og leir og kertagerð. Ég hef einnig verið að gera upp húsgögn og íbúðir eða bara það sem mér dettur í hug hverju sinni.“

Myndlist á hug hennar allan

Ástríða Önnu Lísu í dag er að mála náttúruna eins og hún sér hana og fer stór hluti tímans í það, sem og að skreyta heima og gera huggulegt í kringum fjölskylduna.

„Í dag á myndlist hug minn allan og ég er að selja eftirprent af myndunum mínum á Hönnun art-síðunni minni en það styttist í að fleiri listmunir eftir mig bætist við. Ég mála myndirnar með bleki og blandaðri tækni.“

Hvað getur þú sagt mér um páskana?

„Við fjölskyldan komum saman og borðum góðan mat eins og flestir Íslendingar gera.

Annars fara páskarnir yfirleitt í afslöppun, göngutúra í náttúrunni, sjónvarpsgláp og bara það sem okkur dettur í hug hverju sinni.“

Á skírdag er sofið út

Hvað gerið þið á hátíðisdögum páskanna?

„Á skírdag sefur fjölskyldan út og slakar á saman. Svo förum við í göngutúra og golf ef veður leyfir. Á föstudaginn langa og á páskasunnudag hittumst við öll fjölskyldan og borðum góðan mat saman og stundum höfum við spilakvöld, en aðalmálið er að njóta samverunnar saman.“

Heimili Önnu Lísu er einstaklega páskalegt og fallegt á þessum árstíma.

„Heimilið skiptir ekki beint um lit, þar sem ég skreyti ekki mikið með hefðbundnum páskagulum lit, heldur set ég upp páskaskraut með mínum hætti sem passar inn á heimilið. Stundum kaupi ég litlar páskaliljur og set þær saman í stóran pott ásamt öðru skrauti.“

Föndrar mestallt páskaskrautið sjálf

Anna Lísa er dugleg að skoða tímarit og netið þar sem hún leitar að nýjum hugmyndum sem hún svo útfærir á sinn hátt.

„Dæmi um þetta eru krossarnir sem ég geri úr gipsi. Þeir hæfa páskunum og eru fallegir árið um kring. Eins næ ég mér alltaf í greinar í garðinum, þær gera svo mikið fyrir heimilið þegar maður skreytir þær með fallegum eggjum eða fjöðrum. Strá eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér og skreyti ég mikið með þeim allt árið. Ég fer einnig reglulega í göngutúra í Skötubótina sem er ein af fallegustu ströndum Íslands að mínu mati. Á sumrin tíni ég melgresi sem er fallegt að skreyta með og í gegnum tíðina hef ég fundið ýmislegt fallegt á ströndinni sem ég hef nýtt fyrir heimilið eða pallinn.“

Það er ýmislegt á heimilinu sem ekki finnst í búðum, sem Anna Lísa hefur búið til sjálf.

Sem dæmi um þetta er falleg svört kanína úr leir sem hún bjó eitt sinn til fyrir páskana.

„Ég málaði leirinn svartan og skreytti svo með fjöðrum og eggi en það er hægt að útfæra kanínuna á marga vegu. Ég gerði líka sérvíettuhringa úr fimó-leir sem maður mótar og bakar í ofni. Það er ekki auðvelt að finna fallega servíettuhringi á Íslandi og þá gerir maður þá bara sjálfur.“

Sumt skrautið fær að hanga árið um kring

Anna Lísa er alltaf með hvíta túlípana heima á páskunum, en það eru uppáhaldsblómin hennar.

„Þar sem ekki er hægt að fá þá allt árið, þá nældi ég mér bara í gerviblóm í þeim anda.“

Inni á heimilinu eru einnig sæt kanínuhjón sem eru trékúlur sem hún límdi saman með límbyssu og setti strá á, sem eyru.

„Fjaðrahringinn er ég með uppi árið um kring, en hann bjó ég til með því að vefja fjaðralengju á standinn. Ég elska fjaðrir.

Á páskunum skreyti ég einnig með eggjabikar með hvítu eggi úr fimó-leir, sem ég mótaði kanínueyru á með vír. Doppóttu kanínueyrun eru hárteygja, sem kemur skemmtilega á óvart sem páskaskraut. Mér finnst gaman að gera dagatal fyrir aprílmánuð og nota ég það sem páskaskraut á borðstofuborðinu. Ég hef gert það fyrir nokkra vini og vandamenn líka.“

Hver er sagan á bak við eggin í franska kristal „dome“-plattanum?

„Eggin eru úr plasti sem ég málaði með akrýlmálningu og blandaði ég aðeins af matarsóda í málninguna til að fá grófa áferð á hana. Það eru göt á eggjunum þannig að það var tilvalið að stinga grillpinnum í gegnum þau. Ég boraði göt á plattann, bara öðrum megin þannig að ég get alltaf snúið honum við ef ég vil ekki láta sjást í götin. Grillpinnarnir stingast svo í götin. Ég er stundum með melgresi og sting ég þeim í götin, sem kemur mjög vel út að mínu mati.

Á jólunum sný ég plattanum við og er með eitthvert fallegt jólaskraut í honum. Hann er vel nýttur þessi elska.“

Páskaskrautið þarf ekki að kosta mikið

Anna Lísa byrjar vanalega að skreyta rúmri viku fyrir páska, því henni finnst páskarnir stuttir og gaman að gera aðeins meira með þá.

„Páskaskraut þarf ekki að vera flókið, dýrt eða taka mikinn tíma. Sem dæmi mæli ég með því fyrir alla að fara bara út í garð eða að fá að klippa nokkrar greinar hjá vinum eða vandamönnum, stinga í vasa og hengja egg eða fjaðrir á þær. Ég er alltaf með skrautið mitt í merktum plastkössum þannig að það er auðvelt að finna það og ganga frá því aftur. Ég hef sankað að mér ýmsu fallegu páskaskrauti í gegnum tíðina og reyni að velja sígilt skraut sem endist betur.“

Ef Anna Lísa fær góða hugmynd, þá vanalega framkvæmir hún hana.

„Dæmi um þetta er þegar ég stofnaði tískusýningasamtök ásamt vinum mínum þegar ég var 17 ára og sýndum við út um allan bæ, meðal annars á Lækjartorgi. Ég stofnaði síðuna Hugmyndir fyrir heimilið á Facebook, ásamt vinkonu, sem varð mjög vinsæl. Seinna breyttum við henni í Good Ideas for you og skrifuðum á ensku og vorum með yfir 30.000 heimsóknir á dag. Ég skellti mér í Wipe out svona upp úr þurru 43 ára og það var ógleymanlegt ævintýri þó að það hafi verið langt í verðlaunapallinn. Svo það má segja að ég sé óhrædd við að prófa nýja hluti og lifa lífinu á mínum forsendum.“

Mikilvægt að prófa sig áfram

Hvað ertu með í matinn á páskunum?

„Á páskadag erum við með hamborgarhrygg en aðra daga hátíðarinnar höfum við það sem okkur dettur í hug og langar í þann daginn. Það er þó regla að hafa heimagerða hamborgara í það minnsta einu sinni yfir páskana.“

Áttu ráð fyrir þá sem hafa ekki skreytt heimilið sitt áður á þessum árstíma og vilja prófa sig áfram?

„Já, ég vil hvetja alla til að leyfa sköpunarkraftinum að brjótast fram og bara að prófa sig áfram. Það er alltaf best að útfæra hlutina að okkar eigin stíl. Það versta sem getur gerst er að þeir fari þá bara í tunnuna. Lífið er alltof stutt til að taka það of alvarlega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »