Listunnendur á Seltjarnarnesi

Melabraut 12 Margrét Dagbjört fasteignaviðtal
Melabraut 12 Margrét Dagbjört fasteignaviðtal Árni Sæberg

Margrét Dagbjört Flygenring Pétursdóttir býr ásamt manni sínum og sonum í bjartri og fallegri íbúð á Melabraut á Seltjarnarnesi í húsi sem byggt var árið 2020. Stíllinn á heimilinu er bæði stílhreinn og hlýlegur. Margrét hefur alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og leggur mikið upp úr því að hönnun, notagildi og persónulegur stíll fari saman. 

„Við fluttum inn síðastliðið vor en húsið var byggt árið 2020. Það heillaði okkur mikið að komast í nýbyggingu í grónu hverfi. Við erum lítið framkvæmdafólk og því hentaði ansi vel að allt var nýtt og ekkert viðhald eða breytingar fram undan. Helsti kostur íbúðarinnar er að hún er mjög vel skipulögð og hentar okkur fjölskyldunni vel. Öll herbergi eru björt og lítið um rými sem nýtast illa,“ segir Margrét.

Ekkert sem þurfti að gera

„Þar sem þetta er nýbygging var í raun ekkert sem þurfti að gera. Við fengum að hafa puttana í vali á innréttingum, flísum og gólfefnum svo okkar stíll nær vel í gegn. Sem dæmi má nefna að búið var að ákveða hvítt eldhús og fataskápa og klassísk hvít og grá baðherbergi. Ég fékk tækifæri til að breyta því öllu og erum við til dæmis með svartar innréttingar og gestabaðið er allt svart, líka klósettið, sem kemur sumum gestum skemmtilega á óvart. Það heppnaðist fullkomlega að mínu mati og er alveg eins og ég sá það fyrir mér. Það var því allt klárt þegar við fluttum inn, sem var mjög þægilegt. Okkar verkefni var bara að gera þetta heimilislegt og kósí,“ segir Margrét. Spurð um ókostina nefnir Margrét „lognið“ á Nesinu. „Lognið ferðast oftar en ekki hratt um á Nesinu og því nýtast svalirnar færri daga á ári en maður myndi annars vilja. Þær stækka þó stofuna og setja mikinn svip á efri hæðina. Þá daga sem veðurguðirnir eru góðir við okkur eru þær algjörlega geggjaðar og við munum sakna þeirra mikið þegar við flytjum,“ segir Margrét en fjölskyldan ætlar að stækka við sig og hefur fjárfest í raðhúsi annars staðar á Seltjarnarnesi.

Gaman að halda veislur

Á efri hæðinni eru stofan og eldhúsið í einu opnu rými. Þar safnast allir saman að loknum vinnudegi og eiga sínar bestu stundir. „Efri hæðin er í miklu uppáhaldi og þá sérstaklega eldhúseyjan. Okkur finnst gaman að halda góðar veislur og ég elska að stofan og eldhúsið séu eitt opið rými. Þannig er lítið mál að vera að stússa í eldhúsinu á meðan maður spjallar við gestina eða græja matinn á meðan strákarnir sitja hjá manni. Eyjan er klárlega best nýtta svæði heimilisins.“

Hafa fest rætur á Nesinu

Fjölskyldan hefur tekið miklu ástfóstri við Seltjarnarnesið. „Staðsetningin er frábær og í raun fullkomin fyrir okkur fjölskylduna sem höfum fest rætur á Nesinu og viljum hvergi annars staðar vera. Hér erum við örstutt frá skóla, leikskóla og íþróttahúsinu, sem hentar vel fyrir krakkana. Við erum með opin svæði og fjöruna í nokkurra mínútna fjarlægð, sem gerir mjög mikið fyrir okkur. Það er líka eitthvað ólýsanlegt við það að hafa allt þetta útsýni, vera nálægt sjónum og sjá Bessastaði, Gróttuvitann, Snæfellsjökul og Esjuna alla daga.“

Hrifin af klassískri hönnun

Margrét og Jóhann hafa náð að skapa hlýlegt heimili sem er á sama tíma afar stílhreint. Hver hlutur hefur sitt hlutverk og lítið er um óþarfa muni.

„Við erum með frekar svipaðan smekk. Erum bæði hrifin af klassískum húsgögnum sem auðvelt er að poppa upp með smáhlutum, listaverkum, blómum og öðru slíku. Hlutirnir á heimilinu hafa flestir sitt hlutverk eða notagildi en við erum lítið að hlaða inn dóti að óþörfu. Mér finnst gaman að skoða fallegar hönnunarvörur, spá í innanhússhönnun, og hef gert frá því ég var lítil stelpa. Það er þó fátt sem heillar mig minna en heimili sem hafa engan persónulegan stíl. Fallegir hönnunarmunir einir og sér eru ekki nóg að mínu mati,“ segir Margrét en hún mælir með að fólk fylgi sínum persónulega stíl og hugsi um hvort hlutirnir henti heimilisfólkinu.

Safna listaverkum

Ljóst er að heimilismenn eru afar listelskir enda falleg listaverk áberandi á heimilinu. „Ég elska falleg málverk enda alin upp af listmálara og miklum fagurkerum. Mér finnst til dæmis fossamyndin eftir pabba alltaf jafn falleg en hana fékk maðurinn minn í útskriftargjöf fyrir mörgum árum. Svo get ég ekki hætt að dást að myndunum eftir Rakel Tomas sem maðurinn minn gaf mér í afmælisgjöf í nóvember. Ég ætlaði mér alltaf að eignast verk eftir hana eftir að við fórum á sýninguna hennar síðasta haust og var ítrekað að senda henni skilaboð. Maðurinn minn var þá búinn að sérpanta þessi verk og bað hana vinsamlegast að vera ekkert að svara mér. Þau setja sinn svip á stofuna og vekja athygli allra sem koma í heimsókn. Við höfum svo á undanförnum árum verið að kaupa okkur nokkur skemmtileg listaverk eftir íslenska unga listamenn sem poppa upp heimilið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál