Aðalbjörg og Gunnar gerðu upp gamlan sirkusvagn

Aðal­björg Kara Kristjáns­dótt­ir og Gunn­ar Már Pét­urs­son gerðu upp sirkusvagn …
Aðal­björg Kara Kristjáns­dótt­ir og Gunn­ar Már Pét­urs­son gerðu upp sirkusvagn í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Aðal­björg Kara Kristjáns­dótt­ir meist­ara­nemi í mat­væla­ör­veru­fræði og Gunn­ar Már Pét­urs­son hús­gagna­smiður búa í Dan­mörku. Þau keyptu gaml­an sirkusvagn í Dan­mörku sem þau eru smám sam­an að inn­rétta. Draum­ur­inn er að búa í vagn­in­um sem flokk­ast sem smá­hýsi. 

Kara og Gunnsi, eins og parið er kallað, fluttu til Dan­merk­ur árið 2016 til þess að fara í nám en þau langaði að prófa að búa í öðru landi en Íslandi. „Okk­ur fannst mik­il­vægt að fá mennt­un án þess að safna upp háum skuld­um þannig að Dan­mörk varð fyr­ir val­inu þar sem maður get­ur fengið styrk frá rík­inu til að lifa meðan maður er í námi ef maður vinn­ur smá með skóla,“ segja þau. 

Smáhýsi oftast minni en 37 fermetrar

Svo­kölluð smá­hýsi (e. Tiny Hou­se) er sam­kvæmt skil­grein­ingu allt að 37 fer­metra stór hús. Gunnsi og Kara búa eins og er í lít­illi íbúð í Kaup­manna­höfn sem pass­ar í raun­inni inn í skil­grein­ing­una þar sem aðeins eru 24 fer­metr­ar af not­hæfu gólfplássi í íbúðinni. Smá­hýsi er þó öðru­vísi í eðli sínu en litl­ar íbúðir að sögn Köru og Gunna. 

„Oft eru smá­hýsi á hjól­um svo að hægt sé að flytja þau á milli staða. Þá eru þau oft­ast minni en 37 fer­metr­ar því þau þurfa að upp­fylla sér­stak­ar regl­ur til at geta keyrt á veg­um. Okk­ar smá­hýsi er gam­all sirkusvagn frá sirk­us Ar­ena og var eld­hús fyr­ir sirk­us­inn. Vagn­inn er á hjól­um og upp­fyll­ir kröf­ur til að geta keyrt á veg­um með flutningabíl eða traktor eða gerði það alla­vega þegar við keypt­um hann. Fyr­ir okk­ur var mik­il­vægt að geta flutt húsið frá A til B,“ segja þau. Þrátt fyr­ir að vilja hafa þann mögu­leika að geta skipt um staðsetn­ingu hugsa þau um smá­hýsið sem kyrr­stætt hús til að búa í. Húsið býr þó yfir þeim kosti að þau geta flutt það með sér ef þau vilja flytja til Íslands eða eitt­hvert annað. 

Sirkusvagninn er flottur eftir breytingar.
Sirkusvagninn er flottur eftir breytingar. Ljósmynd/Aðsend

Hvað fannst fjöl­skyldu og vin­um um að þið ætluðuð að flytja í smá­hýsi?

„For­eldr­ar og vin­ir eru vön því að við ger­um undarlega hluti þannig að það kom þeim svo sem ekki það mikið á óvart. Flest­ir voru mjög spennt­ir fyr­ir verk­efn­inu og þeir sem voru skeptísk­ir til at byrja með hafa al­gjör­lega hoppað með á vagn­inn eft­ir að hafa séð hversu vel þetta hef­ur gengið hjá okk­ur.“

Allt á sinn stað í smáhýsinu.
Allt á sinn stað í smáhýsinu. Ljósmynd/Aðsend

Vilja vinna minna og nýta frítíma

Það voru marg­ar ástæður fyr­ir því að smá­hýsi heilluðu Gunnsa og Köru. Um­hverf­is­sjón­ar­mið og þörf fyr­ir að vera nær nátt­úr­unni spiluðu stór­an þátt. Einnig langaði þau að læra nýja hluti eins og að smíða en þegar þau keyptu vagn­inn var Gunn­ar ekki byrjaður í námi í hús­gagna­smíði. 

„Við vilj­um geta lifað þannig að við þurf­um ekki á háum tekj­um að halda til þess að halda okk­ur á floti. Við vilj­um ekki vera háð því að þurfa að vinna 100 pró­sent vinnu til þess eins að geta haft þak yfir höfuðið. Draum­ur­inn væri að geta haft aðra for­gangs­röðun á líf­inu og vinna minna og geta notað frí­tím­ann í allt hitt sem lífið hef­ur að bjóða. Okk­ur lang­ar að rækta eigið græn­meti og geta sinnt okk­ar ótelj­andi áhuga­mál­um al­menni­lega. Okk­ur lang­ar líka helst að búa með öðrum sem eru á sama plani og við. Það að búa í smá­hýsi er full­komið til að deila svæði á milli fleira fólks þar sem að maður hef­ur sitt eigið svæði en get­ur svo deilt sam­eig­in­lega svæðinu með hinum.“

Það er mjög notalegt í smáhýsinu.
Það er mjög notalegt í smáhýsinu. Ljósmynd/Aðsend

Eru svona hús al­geng er­lend­is?

„Það er kannski ekki hægt að segja að þau séu al­geng en þau finn­ast al­veg. Hús­bát­ar eru þá kannski al­geng­ari í Kaup­manna­höfn en það eru allskon­ar „tiny hou­se“ sam­fé­lög ann­arsstaðar í Dan­mörku. Hvað varðar önn­ur Norður­lönd þá þekkj­um við það ekki svo vel. Við vit­um að þetta er mjög vin­sælt í Banda­ríkj­un­um og Kan­ada þar sem fólk vill losna und­an him­in­há­um skuld­um. Það er alla­vega mest áber­andi á Youtu­be og svona. Þetta er þó að verða vin­sælla og vin­sælla og reglu­gerðir eru að breyt­ast aft­ur og aft­ur til að leyfa svona hí­býli út um allt þar sem reglu­gerðir leyfðu þetta ekki áður fyrr.“

Fyrir breytingar.
Fyrir breytingar. Ljósmynd/Aðsend

Þurftu að rífa allt út

Gunnsi og Kara fundu vagn­inn á sölusíðunni DBA sem þau segja vera danska út­gáfu af bland.is sem Íslend­ing­ar þekkja vel. „Sirk­us Ar­ena var að selja alla vagn­ana sína sem höfðu áður verið notaðir á túr­um um Evr­ópu. Okk­ar var til dæm­is eld­hús­vagn fyr­ir sirk­us­inn og er 17 fer­metra vagn frá sirka 1970. Þar sem hann er gam­all þurfti að gera ansi mikið til að gera hann upp. Við þurft­um að rífa allt út, veggi, ein­angr­un og meira að segja nokkra stoðbita þar sem þeir voru of skemmd­ir eft­ir vatnsskaða. Við höf­um eytt mikl­um tíma í að setja nýja glugga, hurð, laga veggi, ein­angra og alls konar fleira. Gunnsi smíðaði svo eld­hús innréttinguna, eldhúsborðið, gestarúmmið og flest annað inn í vagninn.

Hvernig er að inn­rétta svona lítið hús? 

„Það er eig­in­lega auðveld­ara en maður held­ur. Það er frá­bært að geta hannað allt eft­ir sínu höfði. Við vor­um til dæm­is orðin mjög þreytt á pínu­litl­um eld­hús­um með engu borðplássi í þeim stúd­enta­í­búðum sem við höf­um búið í. Við gát­um þarna ákveðið sjálf að hafa stórt eld­hús miðað við rest­ina af vagn­in­um. Það var líka mik­il­vægt að geta haft gesti. Við höf­um tekið á móti ótal­mörg­um ferðalöng­um frá „couchs­urf­ing“ og álíka vefsíðum og okk­ur fannst að það yrði að vera hægt að fá fjöl­skyldu og vini í heim­sókn. Við gát­um þá hannað okk­ar eig­in leið til að gera það smart svo að það tæki ekki of mikið pláss.

Þar sem vagn­inn er ennþá í vinnslu höf­um við ekki prófað að búa í hon­um og koma öllu fyr­ir en við höf­um gert ráð fyr­ir miklu geymsluplássi. Við mynd­um ör­ugg­lega þurfa að losa okk­ur við eitt­hvað af hús­gögn­un­um sem við erum núna með í íbúðinni okk­ar í Kaup­manna­höfn en sem bet­ur fer er það allt sam­an eitt­hvað sem annað fólk hef­ur hent og við fundið. Ef við höf­um keypt eða smíðað hús­gögn að þá höf­um við gert ráð fyr­ir þeim í vagn­in­um. Við höf­um alltaf verið frek­ar sam­mála um hvernig við vilj­um hafa hönn­un­ina á vagn­in­um þannig að það ferli hef­ur gengið frek­ar smurt fyr­ir sig.“

Sirkusvagninn var áður eldhúsvagn fyrir sirkusinn.
Sirkusvagninn var áður eldhúsvagn fyrir sirkusinn. Ljósmynd/Aðsend

Einbýlishús ekki fyrir þau

Hvernig líður ykk­ur í smá­hýs­inu þegar þið dveljið þar?

„Ég get eig­in­lega ekki lýst því hvað mér finnst það geggjað að vera í sirkusvagn­in­um. Ég myndi í al­vör­unni vilja búa þar en það er erfiðara en að segja það að finna stað nógu ná­lægt Kaup­manna­höfn til at geta búið þar. Núna á meðan ég er í námi verður það alla­vega að bíða og svo sjá­um við hvað við ger­um. Maður er svo ná­lægt nátt­úr­unni með því að vera í svona litlu rými. Það er al­gjör­lega meiri ró! Bæði innra með mér og úti. Mér líður oft eins og fugl í búri þegar við erum í íbúðinni okk­ar í Kaup­manna­höfn þar sem það er svo langt í nátt­úru og ró,“ seg­ir Kara. 

Parið málaði sirkusinn.
Parið málaði sirkusinn. Ljósmynd/Aðsend

Fái þið ekk­ert nóg af hvort öðru í svona fáum fer­metr­um?

„Nei alls ekki. Við höf­um verið bestu vin­ir frá því löngu áður en við byrjuðum sam­an og elsk­um að eyða tíma sam­an. Við tengj­umst hvort öðru þegar við erum að vinna að ein­hverju verk­efni sam­an. Sirkusvagns­verk­efnið er al­gjör­lega dæmi um full­komna leið til að tengj­ast.“

Hvað finnst ykk­ur um stór ein­býl­is­hús? 

„Stór ein­býl­is­hús eru alla vega ekki eitthvað sem að okkur dreymir um nema þá að við mynd­um deila því með öðrum. Vin­kona okk­ar hér í Dan­mörku býr til dæm­is á bónda­bæ með alla­vega átta öðrum og þar mynd­um við vilja búa. Þar er hún með mong­ólska Yurt, annar í smá­hýsi og tveir að smíða eigið smá­hýsi frá grunni. Húsið sjálft er stórt og þau skipta her­bergj­un­um bara á milli sín og deila svo sameiginlegu rými eins og eldhúsi, baðherbergi og stofu.“

mbl.is