„Ekkert gaman að hafa líflausan drullupoll“

Þorsteinn Magni Björnsson garðyrkjufræðingur.
Þorsteinn Magni Björnsson garðyrkjufræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Magni Björnsson er garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg. Hann hefur yfirumsjón með Hljómskálagarðinum sem hefur að mati margra sjaldan litið betur út. Listaverk meistara á borð við Van Gogh og Finn Jónsson hafa veitt Þorsteini Magna innblástur við garðyrkjuna hvað litaval, form og samsetningu varðar. Þorsteinn segir garðyrkjuna ákaflega gefandi og skapandi grein, að fólk ætti að vera óhrætt við að prófa sig áfram og forðast að líta á garðvinnuna sem kvöð. s

Þorsteinn Magni hefur starfað sem garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg í 19 ár en hann útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum á Reykjum árið 2000 af umhverfis- og skógræktarbraut. Þó að garðyrkjuáhuginn hafi alltaf blundað í honum tók það hann smá tíma að átta sig á því að þar lægi ástríðan.

„Ég var búinn að vera að þreifa mig áfram með háskólanám. Ég byrjaði í læknisfræði en fann mig ekki þar og ætlaði svo í sagnfræði en hætti líka við það. Loks ákvað ég að heillavænlegast væri að hugsa frekar um plöntur en fólk. Það hefur ekki eins slæmar afleiðingar,“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég hafði að einhverju leyti alltaf haft áhuga á garðyrkju. Ég er alinn upp í sveit, á bænum Syðri-Hömrum II í Ásahreppi, og þaðan kemur græna tengingin. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á umhverfismálum, þegar ég var 14 ára bað ég um bókina „Bjargið jörðinni“ eftir Jonathan Porrit. Þar lýsti höfundur þáverandi stöðu og hvernig ástandið yrði í framtíðinni. Staðan í dag er miklu verri en hann spáði,“ segir Þorsteinn.

Úti í öllum veðrum

„Garðvinnan er mjög gefandi. Það er gott að vera meira og minna alltaf úti, í öllum veðrum allan ársins hring, yfirleitt er bærilegt veður. Þá hefur áhuginn bara aukist með árunum. Ég held ég hafi aldrei verið eins sáttur í starfi og nú,“ segir Þorsteinn. „Það eru mikil forréttindi að fá að vinna hér í Hljómskálagarðinum en hér má finna skemmtilegt samspil á milli náttúru og skrúðgarðs. Við tókum til dæmis þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að hætta að slá í kringum tjarnirnar til þess að skapa náttúrulegra umhverfi fyrir fuglana þar. Þá hef ég einnig lagt áherslu á að fjölga fjölæringum þar í kring, runnum og trjám. Það hefur tekist mjög vel til, þarna er orðið skjólsælla fyrir fuglana og okkur og almennt meira líf. Það er ekkert gaman að hafa líflausan drullupoll. Ég setti einnig stórar trjágreinar út í tjörn, til að skapa hreiðurstæði fyrir flórgoða, en þeir verpa í flothreiður.“

Prófar sig áfram með vatnaliljur

Þorsteinn fær að hafa nokkuð frjálsar hendur hvað útlit Hljómskálagarðsins varðar. „Þetta er mjög skapandi starf og maður er alltaf að prófa sig áfram. Það er ekki gaman að vera alltaf að gera sama hlutinn heldur þarf stundum að ögra sjálfum sér og prófa eitthvað nýtt. Hér þarf að huga að því hvað þrífst vel og hvað ekki. Ég reyni að velja plöntur eftir því hversu harðgerðar þær eru en svo er einnig nauðsynlegt að vera duglegur að gera tilraunir með eitthvað sem er á mörkunum að þrífast eða hefur ekki verið reynt áður.“ Með þetta að leiðarljósi hefur Þorsteinn Magni til að mynda verið að prófa sig áfram með vatnaliljur í tjörninni. „Það hefur reynst vel í Seljatjörn og væri gaman að sjá hvort það tekst hér. Við gróðursettum fimm vatnaliljur, þær eru reyndar ekki farnar að láta sjá sig en ég ætla ekki að gefast upp. Ég prófa þá bara aftur núna í byrjun sumars. Það er gaman að gera tilraunir og ekki bara byggja á einhverju gamalreyndu og öruggu.“

Sérfræðingur að störfum.
Sérfræðingur að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sumarblómin úr frægum listaverkum

Þorsteinn Magni hefur á síðustu árum vakið athygli fyrir frumlegar og listrænar áherslur í framsetningu sumarblóma í Hljómskálagarðinum og við Hringbraut og er útlit beðanna ákveðið langt fram í tímann. „Undanfarin ár hef ég verið að velja ákveðnar litapallettur fyrir sumarblómin. Árið 2018 fékk ég innblástur úr listaverki eftir Finn Jónsson sem heitir Óður til mánans. Þá dreg ég fram ákveðna litasamsetningu og form sem ég einfalda. Síðasta sumar tók ég stílfæringu af Stjörnunótt (Starry Night) eftir Vincent Van Gogh þar sem bláu og gulu litirnir voru allsráðandi, en ég er mjög hrifinn af hreinum og sterkum litum. Ég er minna fyrir pastelliti,“ segir Þorsteinn og segir að fólk ætti að vera óhrætt við að leita innblásturs í listina. „Vatnslitaverk Monets væru til dæmis vel til þess fallin. Þar eru mjúkir litir ráðandi.“

Reynitegundir í uppáhaldi

„Ég hef mikinn áhuga á hvers konar trjá- og runnagróðri og þá heilla sérstaklega þær tegundir sem bera aðra liti en grænan eins og til dæmis blóðbeyki, sem er með purpuralituð laufblöð, og seljureynir, sem hefur grásilfruð laufblöð. Reynitegundir hafa einnig verið í uppáhaldi hjá mér en þeir fá oft skemmtilega haustliti, nefna má sem dæmi að silfurreynir, fjallareynir og dodongreynir fá rauðleita haustliti og alpareynir og gráreynir eru afar duglegir og harðgerðir og þola vind og seltu. Þá eru fjölæringarnir alltaf að vekja meiri áhuga hjá mér. Brúskurnar/hosturnar eru til dæmis afar skemmtilegar en þær eru til í ótrúlega fjölbreyttum litum og stærðum. Loks má nefna fjölæringa á borð við garðahálmgresi, gult háliðagras og írisa. Hér eru til dæmis skrautgrös mikið notuð eins og til dæmis silkibygg sem tengir við náttúruna og gefur eilítið villt yfirbragð og mýkir ásýndina,“ segir Þorsteinn.

Á að hugsa um sig sjálft

Þorsteinn vekur athygli á að samspil tegundanna skiptir líka máli og gott sé að líkja sem mest eftir náttúrunni. „Maður sér það í skógum að innst eru háu trén, svo minni tré og runnar og loks fjölæringar sem loka öllu. Með þetta að leiðarljósi kemst á ákveðið jafnvægi sem maður vill hafa; að jörð sé ekki auð, heldur þakin gróðri. Það er það jafnvægi sem jörðin leitar að, þess vegna kemur illgresið, að reyna að græða sárin. Sé jafnvægið fyrir hendi þarf oft lítið að gera fyrir gróðurinn. Þetta á í raun að hugsa um sig sjálft þótt auðvitað þurfi maður alltaf að hreinsa eitthvað til. Ég er alltaf með bak við eyrað ákveðna uppskrift þar sem ég blanda tegundum saman en ég mætti kannski hafa stærri grúppur af hverri tegund. En það má svo alltaf laga það til síðar meir. Það jákvæða við garðyrkjuna er að þar er aldrei neinn endapunktur heldur getur maður alltaf breytt og bætt.“

Fyrstu árin skipta máli

Fyrir garðeigendur bendir Þorsteinn á að fyrstu ár nýrra beða skipta öllu máli, vilji maður vanda til verks. „Fyrir ný beð skipta fyrstu þrjú til fimm árin mestu máli. Séu beðin hreinsuð vel á þeim tíma nær illgresið ekki að festa sig í plöntunum, inni í runnunum og fjölæringunum. Sé það ekki gert er þetta svolítið búið spil. Þá þarf að kippa plöntunum upp, hrista moldina og plokka illgresið út, sem er mjög seingert. Það er alltaf betra að vera forsjáll og spara sér þessa miklu vinnu í framtíðinni með því að vera duglegur að hreinsa illgresið.“

Úr vinnunni í eigin garð

Sjálfur á Þorsteinn gróðursælan garð sem hann leggur mikla rækt við og eru áherslur hans þar keimlíkar þeim sem sjá má í Hljómskálagarðinum. „Sumir dagar eru þannig að maður fer beint úr vinnunni í eigin garð og vinnur þar ef orkan er fyrir hendi. Þar set ég m.a. niður plöntur sem ég hef ekki reynslu af og ef aðstæður eru ekki nógu góðar hjá mér hef ég gefið plöntunum framhaldslíf hér í Hljómskálagarðinum. Bogadregnar línur heilla mig mjög; ég hef oft gert grín að sjálfum mér fyrir að geta ekki gert beinar línur en þetta er bara ég. Þá gefa öll þessi innskot og útskot tækifæri til þess að draga fram plöntur sem annars myndu týnast ef allt væri bara í beinni línu.“

Ekki flækja hlutina

Þorsteinn hvetur fólk til að nálgast garðvinnu með jákvæðum hætti. „Best er að líta ekki á þetta sem kvöð heldur reyna að finna gleðina í þessu. Maður þarf að finna það sem maður hefur áhuga á og kveikir einhvern neista. Þá er líka nauðsynlegt að sníða stakk eftir vexti og gera eins og þú getur. Það er óþarfi að flækja hlutina því í raun getur góður garður bara verið eitt tré með smá gróðri í kring og svo gras. Það er ekkert síðra en hvað annað. Fólk á bara að gera það sem það vill – nema saga ofan af trjám. Það er bannað! Það er hægfara dauði þeirra og trén rotna að innan,“ segir Þorsteinn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál