Ef þarf að grisja er best að gera það í áföngum

Inga Rut Gylfadóttir landslagsarkitekt.
Inga Rut Gylfadóttir landslagsarkitekt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar gróinn garður er endurhannaður er gott að leyfa gömlum trjám og runnum að halda sér. Inga Rut Gylfadóttir segir oft þurfa að hafa samráð við nágrannann um hvað er gert á lóðamörkunum. 

Þegar kemur að því að hanna fallegan garð þarf að huga að ótal hlutum og getur margborgað sig að fá aðstoð fagmanns. Minniháttar mistök geta nefnilega orðið að heljarinnar hausverk, rýrt notagildi garðsins, flækt allt viðhald og umhirðu og jafnvel spillt friðnum á milli nágranna.

Inga Rut Gylfadottir er landslagsarkitekt og einn af eigendum stofunnar Landslags ehf. á Skólavörðustíg. Þegar hún er fengin til að hanna garð er fyrsta skrefið að koma á staðinn og skoða hvaða skorður þarf að vinna með og hvaða möguleika lóðin býður upp á: „Mjög mikilvægt er að skoða lóð, hús og umhverfi í samhengi og reyni ég að hafa það fyrir reglu að nýta sem mest af því sem fyrir er í garðinum. Erum við oft fengin til að endurhanna gamla og gróna garða þar sem fyrir eru tré og runnar sem geta bæði skapað skjól, rými og næði og að mínu mati eru þessi tré og runnar mjög dýrmæt og gefa garðinum svo mikinn sjarma. Fólk þarf að muna að það hefur tekið þennan gróður mörg ár að koma til ásamt því að það tekur tíma að koma upp nýjum gróðri og er mjög kostnaðarsamt. Ef það þarf að fara í grisjun þá er oft gott að gera það í áföngum og planta nýjum gróðri með þeim gamla.“

Viðskiptavinir Ingu Rutar eru yfirleitt með ákveðnar hugmyndir um hvernig þeir vilja hafa garðinn sinn. Suma dreymir um stóran pall til að grilla og skemmta gestum, aðrir vilja endilega fá heitan pott og útisturtu, gott leiksvæði fyrir börnin eða reit til að rækta matjurtir. „Með þessar óskir til hliðsjónar geri ég nokkrar einfaldar skissur – jafnvel tvær eða þrjár – að tilteknum rýmum og að heildarskipulagi garðsins,“ útskýrir Inga Rut og bætir við að í hönnunarferlinu komi oft áhugaverðir nýir möguleikar í ljós sem fólk hafi kannski ekki verið búið að sjá og gott ráðrúm gefst til að breyta og bæta og vinna í sameiningu að heildarlausn.

Viljum skjól og sól

Meðal þess sem Inga Rut þarf að taka með í reikninginn er ríkjandi vindátt og hvernig sólin skín á garðinn. „Ef fólk hefur búið í húsinu í einhvern tíma þá er það oft búið að uppgötva hvar í garðinum er best að vera og hefur jafnvel veitt því eftirtekt að eftir því úr hvaða átt sólin skín geta verið nokkrir góðir staðir í garðinum þar sem njóta má skjóls og birtu.“

Þá þarf að staðsetja runna, tré og skjólveggi þannig að loki ekki á fallegt útsýni fyrir utan garðinn og út úr húsinu. Eins verður, eftir atvikum, að hanna garðinn þannig að skapi næði fyrir íbúa. „Mörgum þykir nefnilega ómetanlegt að geta byrjað daginn á að rölta út á pall á sloppnum með morgunbollann sinn og fá orkuskot með hressandi útisturtu, og gott að geta þá athafnað sig í næði,“ segir Inga Rut. „Þá vill fólk líka geta látið fara vel um sig á kvöldin, kúra undir teppi fyrir framan eldstæði og horfa á sólsetrið.

Samspil innra og ytra rýmis skiptir einnig máli og segir Inga Rut að það komi yfirleitt vel út ef garðurinn myndar nokkurs konar framlengingu af húsinu. „Svo er nauðsynlegt að vera með fallega lágstemmda lýsingu í garðinum, m.a. svo að hann njóti sín vel yfir vetrarmánuðina, tengla fyrir ljósaseríur o.fl. Það er ekkert gaman að horfa út um stofugluggann og sjá bara niðamyrkur, og mun huggulegra að hafa smekklega lýsingu sem leyfir íbúum að njóta umhverfis hússins út um gluggann á myrkum kvöldum og morgnum.“

Vilja landsmenn greinilega nota garðinn sem mest og segir Inga Rut að margir viðskiptavinir hennar leggi t.d. ríka áherslu á að hafa bæði heitan og kaldan pott í garðinum og útisturtu að auki. „Svo þarf að gera ráð fyrir hitalampa eða eldstæði, og ekki bara grilli heldur útieldhúsi og jafnvel pítsuofni.“

Má ekki gera hvað sem er

Byggingarreglugerð og reglur sveitarfélaga setja ákveðnar skorður hvað viðkemur garðahönnun og segir Inga Rut að skjólgirðingar megi t.d. ekki verra hærri en 180 cm. „Á lóðamörkunum þarf alltaf að hafa samráð við nágrannann og þurfa báðir aðilar að vera samþykkir því ef á t.d. að reisa þar girðingu. Vilji fólk ómögulega ráðfæra sig við nágrannann þá er reglan sú að girðing má ekki vera hærri en sem nemur fjarlægð girðingar frá lóðamörkum. Ef t.d. á að reisa grindverk sem er metri á hæð þá verður grindverkið að vera a.m.k. metra frá næstu lóð.“

Ef samkomulag er á milli nágranna um að t.d. reisa skjólgirðingu á lóðamörkunum segir Inga Rut að það sé góð regla að leggja teikningar inn til byggingarfulltrúa. „Það þýðir að ef einhver annar flytur inn í næsta hús þá getur sá hinn sami ekki farið að fetta fingur út í það sem þegar hefur verið gert í garðinum.“

Háir runnar og tré geta flækt málið og segir Inga Rut mjög óheppilegt ef stórt tré á næstu lóð varpar skugga á garðinn og rýrir notagildi hans. „Er þá fyrsta skrefið að ræða við nágrannann og alltaf best að það sé gott samband milli nágranna svo þeir geti komið sér saman um lausn. En gangi viðærðurnar illa má sækja um það hjá sveitarfélaginu að tréð verði fellt og fer þá málið í ferli.“

Sem dæmi um sérstakar kvaðir um hönnun og útlit garða nefnir Inga Rut Vogabyggð í Reykjavík en í fyrra fjölluðu fjölmiðlar um ósáttan íbúa á jarðhæð í fjölbýli sem uppgötvaði að skiplagsyfirvöld höfðu gert þá kröfu að garðpallur á sérafnotareit mátti ekki fylla út í allan reitinn og skylda að hafa bæði gras og berjarunna á reitnum. „Við sjáum það æ oftar að deiliskipulag fyrir hverfi kveður skýrt á um ásýnd garða og opinna svæða og er jafnvel tiltekið að girðingar verði að vera með tilteknum hætti, í tilteknum lit, og hvers konar gróður eigi að vera í görðum fólks.“

Garðurinn hæfi húsinu

Eitt er að skipuleggja garðinn vel og annað að velja honum heppilegt útlit. Segir Inga Rut að það verði að taka mið af hönnun hússins og láta ekki garð og hús stangast á: rómantískt smáhús kalli á annars konar garð en nútímaleg einbýlishús. „Þar með er ekki sagt að það sé útilokað að hafa garðinn við nýja einbýlishúsið rómantískan, eða ómögulegt að hanna naumhyggjulegan garð við gamla húsið,“ útskýrir Inga Rut og bendir á að möguleikarnir séu óþrjótandi. „Í dag eru rómantísk áhrif að koma sterk inn í garðahönnun og fólk hefur vaknað til vitundar um hve miklu notalegra það er að vera innan um gróður frekar en að vera umkringdur steyptum veggjum og gólfum. Það þarf ekki allt að vera klippt, skorið og óaðfinnanlega skipulagt, og kemur vel út að hafa smá óskipulag á skipulaginu og leyfa garðinum að hafa náttúrulegt yfirbragð.“

Þarf líka að huga að því því við hönnun garðsins að hann sé fallegur á öllum árstímum og að það útheimti ekki of mikla vinnu að halda garðinum í horfinu. Er það ákveðin kúnst að velja plöntur sem laufgast og blómstra á ólíkum tímum og gefi garðinum lit og líf bæði á vorin, sumrin og haustin, og einnig að ganga þannig frá að garðverkin séu sem auðveldust. „Ein leið til að létta garðstörfin er að setja eins og fimm sentimetra þykkt lag af holtasandi í beðin og hjálpar það til að halda arfanum í skefjum. Það hefur líka reynst vel að hafa hluta af grasflötinni blómaengi, þar sem blómum er leyft að vaxa innan um grasið. Þessi engi hafa á sér skemmtilegt og rómantískt yfirbragð og óþarfi að slá þann hluta grasflatarinnar á meðan blómin blómstra.“

Gæðastundir í gróðurhúsi

Áhugi landsmanna á matjurtarækt virðist aukast ár frá ári og segir Inga Rut að hún sé jafnan beðin að hanna garða með tilliti til þess að á tilteknum reit megi rækta grænmeti, kryddjurtir og jafnvel ávexti. „Þetta skýrist m.a. af því að landsmönnum er mjög umhugað um sjálfbærni og heilnæmt mataræði. Með því að rækta eigið grænmeti veit fólk upp á hár hvað það er að innbyrða og getur verið þess fullvisst að óæskilegum efnum hafi ekki verið sprautað á það sem það eldar ofan í sig og sína. Að rækta grænmeti heima er líka skemmtileg leið til að hafa meira grænt á diskinum og getur uppskeran verið furðumikil ef tekst að rækta nokkrar tegundir af salati, grænmeti, jarðarberjaplöntu eða gjöfulan berjarunna.“

Svo er nýjasta æðið að hafa gróðurhús í garðinum til þess einmitt að taka matjurtaræktina skrefinu lengra. „En gróðurhúsin eru líka yndislegur íverustaður og lengja sumarið, og eru líka tilvalin til að halda matarboð, spilakvöld og almennt að hafa það huggulegt með kaffibollann eða vínglasið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál