Skrúðgarðmeistarinn gefur góð klippiráð

Ása Jóhannsdóttir.
Ása Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Hákon Pálsson

Ása Jóhannsdóttir skrúðgarðyrkjufræðingur bendir á mikilvægi þess að sérfræðingar komi að málum þegar runnar eru klipptir til, því ekki er gott að klippa í kúlu þá runna sem blómstra á sumrin. Hún útskrifaðist úr Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1992. Náminu var þannig háttað að nemendur voru tvö ár í skólanum og síðan á samningi í átján mánuði.

„Á samningstímanum mínum vann ég hjá Borgargörðum í Laugardalnum þar sem ég tók þátt í allri uppbyggingu á svæðinu. Meðal annars að gera Húsdýragarðinn sem var opnaður árið 1990. Á þessum tíma voru Skrúðgarðurinn, Grasagarðurinn og Ræktunarstöðin en restin var bara tún. Ég er ákaflega stolt af þeim verkefnum sem ég kom að á þessum tíma. Meðal annars því að setja niður aspirnar í aspagöngunum sem vafalaust allir Reykvíkingar þekkja,“ segir Ása þegar hún er beðin að rifja upp gamla tíma.

Ljósmynd/Hákon Pálsson

Margt breyst með hækkandi hita

Að ýmsu þarf að huga þegar kemur að garðrækt og eitt er víst að tímarnir breytast og garðarnir með.

„Já, það hefur margt breyst með árunum. Sem dæmi má nú finna margar trjátegundir sem ekki þrifust hér almennilega fyrr en nú vegna veðurs. Töfratré sem dæmi eru mjög falleg tré sem fóru að gefa ber með árunum. Þessi ber eru baneitruð. Það þarf ekki mörg ber til að drepa fólk en nú má finna þau í öllum görðum með svona trjám í. Ef börn eru nálægt þarf að tína fræin strax af og ekki leyfa berjunum að þroskast. Þetta eru ofboðslega falleg tré sem bera falleg fræ en ég man eftir einu barni sem stakk upp í sig lúku af berjum, skyrpti þeim svo út úr sér en varð mjög mikið veikt. Barnið jafnaði sig blessunarlega. En þetta var fyrir mörgum árum og þá var vitneskjan ekki eins og hún er nú. Það er ýmislegt sem gerist með hækkandi hitastigi í landinu sem við trjágrúskarar viljum vita og skilja.“

Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson

Ekki nóg að vera góður í að klippa

„Fólk vill náttúrlega hafa lítið fyrir garðinum sínum en hafa hann flottan. Pallarnir hafa stækkað og grasið minnkað. Það er minna um stór tré og aspir ekki eins vinsælar nú og áður var.“

Hvað skiptir máli að fólk viti þegar á að klippa runna?

„Það er orðið rosalega mikið um að stór fyrirtæki sjái um garðana hjá fólki og að í slíkum fyrirtækjum séu fáir faglærðir sem þekkja hvernig á að klippa runna.

Þetta geta verið flinkir klipparar, sem kunna að búa til kúlur og fleira, en það eru margar tegundir sem ekki hentar að kippa í kúlur. Plöntukunnáttan verður að vera fyrir hendi því það er ekki æskilegt að klippa blómstrandi runna í kúlur. Margir runnar blómstra á fyrra árs greinum. Sem þýðir að greinin myndar blómin árið á undan. Þegar klippt er í kúlu um vorið, þá er öll blómgunin klippt í burtu og þá nær greinin ekki að blómstra og þá er helsta skraut plöntunnar klippt í burtu. Sem dæmi blómstra nær allir berjarunnar á fyrra árs greinum. Flestir kaupa þessa runna til að fá ber og ef þeir eru rangt klipptir þá verður uppskeran lítil sem engin.“

Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson

Best að setja sér raunhæf markmið

Ása segir taka allt upp í fjögur ár fyrir runna að jafna sig sem hafa verið klipptir til á rangan hátt og að sérfræðingar eins og hún komi oft að slíkum málum í görðum hjá fólki sem vill fá meiri blóm og hafa garðinn í náttúrulegra formi.

„Ég get orðið rosalega hneyksluð stundum. Ég viðurkenni það. Það hentar að kúluklippa blátopp og í raun marga toppa. Limgerðisplöntur henta einnig í svona klippingar því við ræktum þær ekki vegna blóma.

Það sem ég segi við alla er að það liggur ekkert á þegar kemur að garðinum. Það þarf ekki að gera hann einn, tveir og þrír. Best er að taka garðinn hægt og rólega í gegn. Sér í lagi garð sem er í órækt.

Það tekur tíma að ná svæðum góðum og ég mæli með að velja lítil svæði í garðinum og gera þau falleg í stað þess að ráðast á allan garðinn í einu. Það er eins með garðinn og ræktina. Ef þú ákveður að fara í ræktina alla daga vikunnar og mætir svo bara þrisvar þá er þér að mistakast. Við þurfum að njóta okkar í görðunum og skilja út á hvað garðrækt gengur. Ef fólk þarf aðstoð eða hjálp þá ætti það heldur ekki að hika við að fá fagfólk með sér í lið. Við Íslendingar eigum nóg af þannig sérfræðingum sem hafa unun af því að fylgja görðunum eftir í einhvern tíma,“ segir Ása.

Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Ljósmynd/Hákon Pálsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál