Margir hafa dottið niður um eldhúsgólfið

Aðalheiður Ingadóttir.
Aðalheiður Ingadóttir. mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Aðalheiður Ingadóttir býr í 117 ára gömlu krútthúsi í miðbæ Akureyrar. Húsið er sérstakt fyrir margra hluta sakir, meðal annars vegna stórhættulegs hlera á eldhúsgólfinu. Þá er þar ýmsa skemmtilega muni að finna sem húsráðandi hefur dröslað með sér heim úr ferðalögum um heiminn. 

Þetta hús var upphaflega byggt í óleyfi á milli tveggja gatna og þess vegna var lengi vel kvöð á því þess efnis að ef húsið myndi brenna þá mætti ekki endurbyggja það. Húsið tilheyrir Oddagötu en inngangurinn er þó frá Gilsbakkavegi, því var í raun troðið niður hér á milli húsa,“ segir Aðalheiður, spurð út í sögu hússins hennar, Oddagötu 3b á Akureyri. Þeir sem ekki þekkja til geta átt í vandræðum með að finna húsið. Þá skiluðu dagblöð og póstur sér lengi vel afar illa til Aðalheiðar, sem segir mikið um hina furðulegu staðsetningu þess.

Hættulegur hleri

Húsið, sem er um 100 fm að stærð, var byggt árið 1905 en sjálf hefur Aðalheiður búið í húsinu í um 25 ár. Áður átti hún íbúð í næsta húsi, Oddagötu 3, og hafði lengi dáðst að því. Þegar það svo kom á sölu var hún fljót að stökkva til enda húsið nánast í bakgarðinum hjá henni. „Staðsetningin er náttúrulega æðisleg, það er allt í göngufæri hérna, sundlaugin, heilsugæslan og miðbærinn. Svo heillaðist ég líka af því hvað húsið var krúttlegt og þá heillaði garðurinn ekki síður, en mig hafði lengi langað til að eignast garð sem ég gæti ræktað í, segir Aðalheiður sem hefur komið sér upp gróðurhúsi á lóðinni og ræktar líka jarðarber, kartöflur, grænkál og fleira í beðum.

Húsið er kjallari, hæð og ris og þó Aðalheiður hafi gert ýmislegt fyrir húsið á meðan hún hefur búið þar, eins og að skipta um ofnalagnir, þak og glugga, þá hefur hún samt ekki breytt skipulaginu innandyra. Salernið er því enn í kjallaranum en til að komast þangað þarf að opna hlera á eldhúsgólfinu og fara þar niður. Aðalheiður viðurkennir að hlerinn sé varasamur og afar mikilvægt að loka honum alltaf á eftir sér, enda hafi margir dottið niður um gatið, sérstaklega hér á árum áður þegar hún hélt lífleg partí í húsinu.

„Ég hef stundum lánað húsið í íbúðaskipti og þá hefur komið fyrir að gestir sem eru við það að míga í sig hringi í mig því þeir finna ekki klósettið. Einu sinni komu hingað hjón í íbúðaskipti og ég fór á meðan í þeirra hús í Berlín. Þau gátu hins vegar ekki verið í mínu húsi því konan var hreinlega of feit fyrir hlerann og var auk þess nýlega komin úr einhverri aðgerð. Það var frekar leiðinlegt. Börnum finnst hlerinn líka alltaf mjög spennandi og ef þau koma hingað þá þurfa þau stanslaust á klósettið. Það er ekki stundarfriður.“

Rétt er þó að benda á að hægt er að komast á salernið eftir annarri leið ef mikið liggur við en þá er gengið út og inn um lágar dyr á austurhlið hússins. „Ég hef oft sett mottu ofan á hlerann og látið fólk nota kjallaradyrnar ef ég hef t.d. verið með stóran gleðskap,“ segir Aðalheiður. Kjallaradyrnar eru þó ekki í fullri stærð enda kallar Aðalheiður þær dvergahurðina. Í ljós kemur að inngangurinn var á sínum tíma notaður til þess að moka kolum inn í kjallarann. Þá er að sögn Aðalheiðar snjóléttara austan megin við húsið og því er líka alltaf hægt að nota kjallarainnganginn sem neyðarútgang ef það hefur snjóað fyrir aðalinnganginn, sem gerðist víst oft hjá fyrrverandi eigendum á snjóþungum vetrum.

Eitt inn, annað út

Húsið hefur lengst af verið ljósgult á litinn en var málað svart í fyrra. „Ég leyfði einkasyninum að ráða litnum enda er viðhaldið á húsinu farið að lenda mikið til á honum,“ segir Aðalheiður. Sonurinn valdi síðan bleikan lit á útidyrahurðina sem gefur skemmtilegt mótvægi við svarta litinn. Þó húsið sé ekki stórt þá er það vel skipulagt og nýtist vel. Í kjallaranum er eins og áður segir salerni með baðkari, þvottahús og geymsla og rúmgóðir fataskápar. Á miðhæð er forstofa og stofa, eldhús og borðstofa í opnu rými. Í risinu eru svo tvö svefnherbergi. Aðalheiður hefur oft haldið fjölmennar veislur í húsinu enda mikið til í máltækinu að þar sem er hjartarúm er alltaf húsrúm. „Það bjó hér einu sinni 14 manna fjölskylda,“ segir Aðalheiður og hristir höfuðið yfir því hvernig það hafi eiginlega gengið upp. Að hennar sögn skiptir mestu máli að fylla ekki húsið af dóti. Í því sambandi hefur hún í mörg ár haft þá reglu að ef nýr hlutur kemur inn á heimilið þá verður einhver annar hlutur að fara út í staðinn. Hún byrjaði fyrst með þessa reglu varðandi fataskápinn en yfirfærði hana fljótlega á allt húsið. „Það ótrúlega er að það hefur aldrei verið erfitt að fara eftir þessu. Við nútímafólk eigum of mikið af öllu,“ segir Aðalheiður.

Þó þessi stranga regla ríki á heimili Aðalheiðar þá er heimili hennar alls ekki tómlegt. Hún hefur litríkan smekk og auga fyrir fallegum listmunum. Hlutir sem eru í húsinu eru allir vel valdir, flestir með einhverja sögu og marga þeirra hefur hún fundið á fornsölum og mörkuðum erlendis og dröslað á milli landa, með ýmsum ráðum, eins og hún sjálf orðar það. Yfir borðstofuborðinu hangir til að mynda risastór níðþung ljósakróna sem fannst á markaði í Barcelona. Þá er stórt og mikið grískt taflborð í borðstofunni og stæðilegur járnkertastjaki frá Portúgal í stofuglugganum, svo fátt eitt sé nefnt. „Ætli mér þyki ekki vænst um fiskinn á þakinu sem þjónar hlutverki vindhana. Ég keypti hann á fornsölu í Kaupmannahöfn en reikna með því að ég reyni að selja Samherjamönnum hann þegar ég verð virkilega blönk, hann myndi fara vel hjá þeim,“ segir Aðalheiður og glottir.

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »