Vaknar á nóttunni til að setja í þvottavél

Fyrirsætan og sjö barna móðirin, Ósk Norðfjörð, tók þátt í sinni fyrstu myndlistasýningu á dögunum. Ósk byrjaði fyrst að mála fyrir 20 árum en gaf því ekki mikinn gaum fyrr en í heimsfaraldrinum. Auk þess að hugsa um börnin sín sjö ræktar hún ketti og hunda. Um þessar mundir búa um 20 kettlingar og fimm hvolpar á heimilinu. Ósk er gift Sveini Elíasi Elíassyni sem er ellefu árum yngri en hún. Heimilisstörfin eru mörg á svona stóru heimili og Ósk notar tíma seint á kvölin til að mála og fá smá tíma fyrir sig.

„Ég komst því miður ekki út á sýninguna en ég þurfti að vera heima að hugsa um nýfædda hvolpa og kettlinga. Ég hef heyrt að sýningin hafi gengið mjög vel og það hafi verið mikið af fólki sem mætti,“ segir Ósk.

Fullt af dýrum og börnum á heimilinu

„Það er mikið að gera á heimilinu hjá okkur við erum sjö í heimili en elstu tveir strákarnir eru fluttir að heiman. Elsta barnið á heimilinu er 19 ára svo er næsta 15 ára svo 13 ára og einn 10 ára og litla stelpan að verða átta ára. Heimilislífið verður þægilegra með hverju árinu, krakkarnir eru að stækka og eru meira sjálfbjarga. Mér finnst skemmtilegasti tíminn vera þegar þau byrja að vera vinir manns. Maður fer að vera meiri þáttakandi í lífinu þeirra sem áhorfandi en ekki sá sem er að halda þeirra rútínu allan daginn. Strákarnir okkar voru að keppa í frjálsum íþróttum um daginn og það er svo frábært að taka þátt í lífinu þeirra og fylgjast með þeim,“ segir Ósk.

„Við erum að rækta Maine Coon kisur og eigum tíu stykki og akkúrat núna erum við með 20 kettlinga. Þessir kettir verða mjög stórir þegar þeir verða fullorðnir. Við eigum líka tvo hvíta white Swiss Shephard og erum núna með fimm hvolpa þannig það má segja að heimilið okkar sé hálfgerður dýragarður. Svo eru alltaf fullt af börnum á heimilinu, vinir krakkanna elska þennan dýragarð sem er hérna og finnst gaman að koma og skoða dýrin,“ segir Ósk um fjörugt heimilislíf.

Myndlistasýning í Madríd

Sýningin var haldin í samstarfi við Van Gogh Art Galleríið í Madríd. Í framhaldinu af sýningunni verður verk eftir hana sýnt í galleríinu í Madríd. Ósk segir að galleríið hafði haft samband við sig og boðið henni að taka þátt í sýningunni eftir að hafa fundið listaverkin hennar á Instagram. Það sem heillar Ósk mest við myndlistina er að það eru engar reglur og því eru möguleikarnir óendanlegir. Hún hefur ekki enn haldið sýningu hérlendis en heimsfaraldur hefur meðal annars komið í veg fyrir það. 

„Það hefur verið stefnan að halda sýningu hérna heima en verkin fara svo hratt út að ég á ekki safn til að halda sýningu. Það yrði ótrúlega skemmtilegt að halda sýningu og ég stefni að því einn daginn,“ segir hún.

Nýtur sín að mála á nóttinni

Ósk tekur við sérpöntunum frá fólki en hún telur að um helmingur þeirra verka sem hún málar séu pantanir.

„Mér þykir fátt skemmtilegra en að hanna málverk með fólki í stíl við heimilin þeirra og láta hugmyndir þeirra verða að veruleika. Fólk er að senda mér myndir af heimilum sínum, húsgögnum, herbergjum eða öðrum málverkjum. Það vill fá verk sem getur tengt hlutina saman. Ég hef mjög gaman að því að sjá hvernig það er heima hjá fólki og skil betur hversvegna þau eru að biðja um ákveðin lit eða ákveðin stíl. Það sem er skemmtilegast við þetta er að listaverkin mín eru svo fjölbreytt og hafa mismunandi brag. Það er alltaf jafn gaman að sjá hvernig verkin tengjast við hvert heimili,“ segir Ósk.

„Ég mála mest á nóttinni, þegar allir eru farnir að sofa þá nýti ég tíman í að biðja, hlusta á tónlist og mála. Þegar ég mála þarf ég að vera í algjörri ró og næði. Seint á kvöldin og á nóttunni er eini tíminn sem er bara fyrir mig og ég fæ að vera í mínu eigin zoni,“ segir Ósk um sinn frí tíma frá hinu daglega amstri.

Vinna allan sólarhringinn

Ósk vaknar um klukkan sjö á morgnanna og gerir allt klárt, ræsir krakkana í skólann og núna þarf líka að þrífa eftir kettlinganna sem tekur sinn tíma og fara að ganga með dýrin. Ósk fer næst í þvottinn.

„Þvotturinn er endalaus, ég vakna á nóttinni og set í þvottavél svo það minnki eitthvað í körfunum. Núna er ég að skutla krökkunum á æfingar yfir daginn, þau eru í fótbolta og að æfa frjálsar. Ég nýti tíman á meðan þau eru á æfingum til að fara í ræktina sjálf. Svo komum við öll heim og á veturna tekur lærdómurinn við. Á sumrin erum við dugleg að fara í sund og í Elliðaárdalinn. Við búum við dalinn og ég grínast oft með að ég sé með stærsta garðinn í Reykjavík, alveg frábært að fara í göngutúra þar það er eins og maður sé komin útúr bænum,“ segir hún þakklát.

Ósk segir að fólk sem sé með stór heimili þurfi að taka bara einn dag í einu. Verkin eru minni ef það er bara horft á þau einn dag í einu. 

„Við getum allt í einn dag og ég vinn með það. Það má líka ekki vera of strangur við sig, maður getur ekki allt þá verður restin bara að bíða til næsta dags,“ segir Ósk.  

mbl.is