„Konunni minni hefur fundist ég allt of feiminn“

Halla Bára Gestsdóttir og Gunnar Sverrisson hafa verið gift í …
Halla Bára Gestsdóttir og Gunnar Sverrisson hafa verið gift í meira en 20 ára og unnið saman að fjölmörgum verkefnum í gegnum tíðina.

Gunnar Sverrisson ljósmyndari ætlar að opna heimili sitt á Menningarnótt þar sem hann ætlar að halda ljósmyndasýningu á verkum sínum. Hann segir að það vanti fleiri ljósmyndir inn á íslensk heimili. Hann og eiginkona hans, Halla Bára Gestsdóttir, eiga dásamlega fallegt heimili við Þórsgötu í Reykjavík en þau hafa unnið saman í gegnum tíðina, gefið út vinsælar heimilisbækur, ritstýrt húsbúnaðartímaritum og unnið markvisst að því að miðla því sem er fallegt. 

„Konunni minni hefur fundist ég allt of feiminn að sýna það sem ég hef verið að gera. Það er alveg rétt hjá henni. Svo finnst mér áhugi á ljósmyndum inni á heimili ekki mikill, allt í góðu með það, önnur verk og list hafa átt meira upp á pallborðið hjá fólki. Það er mín upplifun og vonandi breytist það. Svo er það líklega líka almenn feimni hjá mér þegar það kemur að vinnunni minni sem skýrir það af hverju maður hefur ekki verið meira í því að sýna ljósmyndir. En þegar við spjölluðum einhvern tíma um þessa hluti þá datt henni í hug að það væri alveg tilefni að sýna fólki ljósmyndir í sínu rétta umhverfi, inni á heimili. Að það myndi gefa fólki gleggri mynd af því hvernig þær geta auðveldlega skreytt rými ásamt fjölskyldumyndum og annarri list,“ segir Gunnar.

Það er óvanalegt að fólk bjóði ókunnugum heim til sín en Gunnar og Halla Bára ætla að taka þetta alla leið. 

„Þá er best að opna heimili sitt á Menningarnótt og bjóða upp á þennan möguleika og vonandi getum við kveikt örlítinn neista hjá fólki þegar kemur að ljósmyndum. Það eru margir íslenskir ljósmyndarar að gera frábæra hluti, ungir sem aldnir. Og yfirleitt eru ljósmyndir ekki dýr kostur. En ég óttast að fólk hafi meiri áhuga á að rannsaka hvernig við búum frekar en að skoða myndirnar,“ segir Gunnar og hlær og bætir við:

„En allir eru velkomnir og ég hlakka bara til að taka á móti fólki. Vonandi hafa einhverjir áhuga að líta við á þessum skemmtilega degi. Ætli eg verði svo ekki bara uppi a næstu hæð og horfi á Netflix og læt Höllu Báru,“ segir hann og hlær. 

Sýningin fer fram á heimili hjónanna við Þórsgötu 10 í Reykjavík og stendur yfir frá 15.00 til 18.00. 

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Bókin Heimili eftir Gunnar Sverrisson ljósmyndara og Höllu Báru Gestsdóttur …
Bókin Heimili eftir Gunnar Sverrisson ljósmyndara og Höllu Báru Gestsdóttur heimilishvíslara.
mbl.is