Ætti fólk ekki bara að eignast börn um fimmtugt?

Bugaboo vagninn prófaður á Newbury Street í miðborg Boston árið …
Bugaboo vagninn prófaður á Newbury Street í miðborg Boston árið 2006.

Tilveran fer á hvolf þegar von er á nýju barni inn á heimilið. Að mörgu er að huga og auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir raunverulegu máli og týna sér í einhverri gufu sem skilar engu. Það er auðvelt að spila á tilfinningar í þessu samhengi. Umhverfið lætur fólk vita að foreldrar þurfi nauðsynlega það allra besta fyrir sitt barn. Því dýrara því betra. Þetta er svipað og þegar fólk velur líkkistu fyrir náinn ástvin. Í sorg og meðvirkni velur fólk dýrustu kistuna því enginn vill láta saka sig um að hafa keypt þá ódýrustu. Þótt hvíta einfalda kistan sé langódýrust þá er eikarflugmóðurskip valið þótt hinn látni hafi aldrei þolað eikarinnréttingar.

Þegar kemur að vali á dýrum barnavarningi á borð við barnavagna, barnarúm, skiptiborð, barnabílstóla og rafdrifnar rólur með innbyggðri tónlist og titringi, er auðvelt að verða eins og manneskjan sem velur líkkistu á ögurstundu. Í uppnámi er varningurinn valinn út frá viðmiðum samfélagsins – ekki stöðunni á bankareikningnum eða eigin hugmyndum. Miðað við hvað allt barnadótið á að vera vandað og elegant þá þyrfti fólk helst að seinka barneignum til 50 eða 60 ára aldurs því það er fyrst þá sem fólk hefur efni á hönnunarbarnavögnum og sérsmíðuðum skiptiborðum í réttri litapallettu. Það væri auðvelt að koma þessu í kring. Það eina sem þyrfti að gera er að einstaklingar með leg létu frysta í sér eggin á tvítugsafmælinu. Þetta yrði sett í lög og svo myndi ríkið leggja til húsnæði fyrir frystiklefa og nokkra heilbrigðisstarfsmenn sem gætu séð um eggheimtuna.

Frosin egg yrðu geymd þangað til fólk væri búið að hagnast svo vel að það væri tilbúið að taka slaginn. Það myndi undirbúa þetta vel. Myndi æfa sig fyrir andvökunætur eins og fólk æfir fyrir járnkarl. Ársprógramm til þess að verða besti andvökunáttarinn.

Sú sem hér skrifar var einu sinni 29 ára kjáni sem þurfti að eignast flottasta vagninn. Vegna minnisleysis er ekki hægt að upplýsa hvernig vagninn var fjármagnaður en það þurfti að fljúga á slóðir Kennedy-fjölskyldunnar í henni Ameríku til þess að kaupa gripinn. Við Newbury Street í miðborg Boston var pínulítil verslun sem seldi fínasta barnadótið. Viðskiptavinir verslunarinnar voru ekki svartir eða fátækir. Þeir voru um miðjan aldur með tíu karata demantshringa, blásið hár og í beige-lituðum fötum. Líklega voru þetta frumkvöðlar í barneignabransanum sem höfðu haft vit á því að frysta í sér eggin. Nú eða svo vel settar fjárhagslega að þær gátu keypt sér staðgöngumæður til þess að draumurinn um andvökunætur og bleyjuskiptingar gæti ræst.

Glundroðinn náði yfirhöndinni þarna við Newbury Street og þegar fínu konurnar í beige-fötunum völdu sér rétta beige-tóninn á sinn Bugaboo áttaði þessi 29 ára sig á því að hún yrði að velja vagn í takt við eigin lífsstíl. Hún gekk því út með rauðan og bleikan Bugaboo vagn og upplifði heilmikla gleði. Valdeflingin streymdi um líkamann.

Nokkrum mánuðum síðar kom frumburðurinn í heiminn. Fallegur drengur með dökk augu og mjúkar kinnar. Ekki leið á löngu þar til þessi rauði og bleiki vagn var ekki alveg fullnægjandi. Í næstu útlandareisu var fjárfest í öðrum litum á skerminn, kerrupoka, haldara fyrir ferðamálið og auðvitað sérstakri tösku svo hægt væri að ferðast með vagninn í kringum hnöttinn. Kostnaðurinn rauk upp úr öllu valdi. Eftir á að hyggja þá hefði kannski verið hagkvæmara að fara út í þetta seinna á lífsleiðinni. Nú eða sleppa því að kaupa vagninn og taka bara leigubíl með drenginn fyrir peninginn. Það hefði verið hægt að fara í ótal ferðir í kringum Reykjavík fyrir sömu fjárhæð.

Sumt verður þó ekki metið til fjár. Þegar fólk er á þeim aldri að hafa gaman af því að sperra sig og vera flottast þá verður það að fá að gera það. Fólk um sextugt myndi aldrei nenna því!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál