Bölvun og blessun að vinna rétt hjá Góða hirðinum

Sigrún Hlín Sigurðardóttir býr vel í Laugarneshverfinu.
Sigrún Hlín Sigurðardóttir býr vel í Laugarneshverfinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigrún Hlín Sigurðardóttir býr í sjarmerandi íbúð í Laugarneshverfinu með sambýlismanni sínum Friðgeiri Einarssyni og tveimur sonum. Sigrún lýsir heimilisstílnum sem litríkum og óreiðukenndum. 

Þú kláraðir meistaragráðu í myndlist frá Bergen, eru norsk áhrif einhvers staðar á heimilinu?

„Norðmenn eru almennt mjög duglegir að hafa smart heima hjá sér, gríðarlega mikill panill og kósí „hyttufílingur“, þó að heimilið okkar sé kannski frá degi til dags meira eins og heima hjá fyrrverandi forsætisráðherranum Ernu Solberg. Ég tók eftir því að þegar hún fær ljósmyndara heim til sín er alltaf allt gjörsamlega í steik, straubretti og tómar flöskur og allt í kássu. Veit ekki hvort þetta er „power move“ eða hvort hún er að reyna að vera alþýðleg, hún allavega hlýtur að vera með fullt af aðstoðarfólki sem gæti reddað þessu með engum fyrirvara þannig að þetta hlýtur að eiga að vera einhver meining hjá henni. Svo náttúrulega er hérna í öndvegi málverk eftir Auði Ómarsdóttur, sem var einmitt á sama tíma og ég í meistaranámi í myndlist í Bergen, af treyjunni sem lið Liverpool klæddist í úrslitaleik meistaradeildarinnar á móti AC Milan 2005, með Norðmanninn Jon Arne Riise í lykilhlutverki. Semsagt já, mjög innblásið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Af hverju heillar textíll þig í myndlist?

„Textíll er miðill með endalausa möguleika og langa sögu sem bæði lykilþáttur í hversdagslífi og andlegri iðkun, sem stöðutákn og gjaldmiðill, en það er líka saga sem er mjög dularfull því textílar eru efni sem tíminn fer alla jafna óblíðum höndum um. Það er eitthvað við að nota þræði sem teikna upp sjálft efnið og móta formið sem þeir eru hluti af sem ég hef ekki getað slitið mig frá, og prjónið sér í lagi varð sú leið sem ég leitaði í aftur og aftur til að skoða samspil lita og flata. Síðustu misseri hef ég því sótt í að segja og sýna það sem mér liggur á hjarta í prjóni, bara eins og málari málar. Svo er ég auðvitað líka alltaf meðvituð um söguna og tengingarnar við störf kvenna inni á heimilum og tímann sem er sjáanlega bundinn í hvern hlut,“ segir Sigrún sem sýnir verk sín á sýningunni Eldskírn í Listasal Mosfellsbæjar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Er textíll í myndlist með „comeback“?

„Já, það hefur hiklaust verið mikil gróska og stemning fyrir textílmyndlist síðasta áratuginn eða tvo. En svo það sé alveg skýrt verð ég mjög glöð þegar ég sé kempurnar sem hafa staðið vaktina miklu lengur en það fá athygli og umfjöllun, en ekki bara hressa krakka sem eru að vinna með grípandi mótív – ekki svo að skilja að mér finnist það ekki frábært líka!“

Er eitthvað við heimilislífið sem veitir þér innblástur?

„Já, ég er allt of mikið að reyna að vinna heima, oft með ömurlegum árangri og tilheyrandi óreiðu sem reynir á þolinmæði annarra heimilismanna. Það eru kannski helst vinnubrögð barnanna við listsköpun sem veita mér innblástur, það er til fyrirmyndar hvað ungu mennirnir ganga hreint til verks og treysta því fullkomlega að ferlið leiði þá áfram.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvar er hjarta heimilisins?

„Sjálfsagt er það bara borðstofuborðið, þar eyðum við löngum stundum við að þusa í börnunum um tilhlýðilega fæðuinntöku, teikna, leira, baka og bulla. Dyrnar inn í stofu eru svo kannski svona ósæð heimilisins, við komumst að því þegar við fluttum inn að Ylfa vinkona okkar og ein uppáhaldsleikkonan mín ólst upp í þessari íbúð og mundi vel eftir munstruðu glerhurðunum. Það er gríðarlega óvænt að glerið skuli enn vera heilt, synir okkar dýrka að hlaupa í hringi kringum hornveggina á stofunni og við vorum viss um að þeir myndu vera búnir að smalla dyrnar á þessum tímapunkti. Svo eigum við alveg fáránlega stórt rúm, það er mjög eftirsótt að leggja sig þar, og þar er líka vinsælt að bulla og hnoðast.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver ræður á heimilinu þegar kemur að því að innrétta, velja inn hluti og mála?

„Það er bara þokkalegt samkomulag myndi ég segja, ég fékk dálítið að ráða litunum þegar við fluttum inn fyrir ári, það voru mjög hressilegar 300 ferðir í Sérefni sem lágu að baki þeirri framkvæmd. Svo fékk Friðgeir að skrifa nöfnin okkar á dyrabjölluna því hann er rithöfundur.“

Ertu hvatvís þegar kemur að breytingum á heimilinu og dugleg að breyta til?

„Ég er náttúrulega alveg gríðarlega ákvarðanafælin og verkkvíðin. Friðgeir er miklu framkvæmdasamari að græja ný ljós og festa upp hillur og allskonar sniðugt. Ég er meira í því að bera heim skrýtið drasl og koma því fyrir hist og her og láta eins og það hafi mikla sögn og merkingu.“

Ertu bara með myndlist eftir þig uppi eða ertu dugleg safna myndlist eftir aðra kollega?

„Ég gæti alveg verið duglegri, en hef oft sníkt eitthvað í skiptum út úr vinum og stöku sinnum splæst.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Áttu uppáhaldsverk á heimilinu?

„Ég ætla að fá að segja þrjú, verk eftir Margréti Bjarnadóttur sem er stafarugl af nafni Friðgeirs, skemmtilega agressívt textílverk sem Tómas sonur minn gerði þegar hann var sex ára, þar sem hann saumaði „Asni“ út í striga, og svo nýjasta verkið, freyðivínstappinn eftir Ragnheiði Maísól, vinkonu okkar og nágrannakonu.“

En uppáhaldshlut?

„Kannski rokkurinn minn, margir segjast upplifa slökun og hugleiðslu þegar þeir prjóna, það er alls ekki mín reynsla, hins vegar finnst mér fátt meira róandi en að spinna band. Það er líka geggjað að hafa píanó á heimilinu, þótt ég nái oftast bara að spila hálfa prelúdíu eftir Chopin sem ég lærði þegar ég var fjórtán ára áður en börnin fara að öskra á lagið um Hérastubb bakara.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kaupið þið nýtt eða viljið þið frekar gefa gömlum hlutum nýtt líf?

„Ég er með vinnustofu sem er tveimur húsum frá Góða hirðinum sem er svo sannarlega bæði bölvun og blessun, ef við erum að leita að einhverju tek ég rúntinn þar nokkrum sinnum í viku, þaðan eru flestar hirslur og smáhúsgögn, það er náttúrulega umhverfisvænni kostur og svo getur verið huggulegt að spara sér ferðina í IKEA, að þeirri verslun algjörlega ólastaðri, við leitum oft á náðir hennar líka. Friðgeir fann þessi tekkkrútt, sófaborðið og litla innskotsborðið í Góða hirðinum og svo fylgdi sjónvarpsskenkurinn með íbúðinni. Sófasettið rusluðum við eiginlega, ég fékk að hirða það úr geymslu þar sem ég vann einu sinni, þegar það átti að henda því. Það er svaka snoturt en þykir ekki alveg nógu þægilegt. Þannig að þetta er svona sambland af nísku, umhverfisverndarsjónarmiðum og fagurfræði sem ræður för.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Er eitthvað á óskalistanum fyrir heimilið?

„Það væri stórkostlegt að hafa vinnustofu heima. Svo er ég oft að fantasera um sérsmíðaðar bókahillur, þær sem við erum með núna áttu bara að vera til bráðabirgða en við eyddum svo miklum tíma í að lakka þær að það þarf eitthvað rosalegt að koma til svo við skiptum þeim út held ég. Þangað til er bara mátulegt á okkur að nota geymsluhillur úr IKEA til að geyma í allar bókasafnsbækurnar sem við erum með í óskilum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda