„Ég kolféll fyrir þessari hæð þegar ég sá gluggana“

Rósa Sigurðardóttir er mikill fagurkeri, en síðustu ár hefur hún …
Rósa Sigurðardóttir er mikill fagurkeri, en síðustu ár hefur hún innréttað sjarmerandi hæð sína í Hlíðunum á fallegan máta. Árni Sæberg

Flugfreyjan Rósa Sigurðardóttir býr á dásamlegri hæð í Hlíðunum ásamt eiginmanni sínum, Sverri Arnóri Diego, dóttur þeirra Theu Rós og kisunni Bósa. Íbúðina hafa þau innréttað á afar glæsilegan máta þar sem fallegir litir, franskir gluggar, rósettur og vegglistar gefa rýmunum rómantískan blæ í anda Parísar. 

Íbúðin er staðsett í afar fallegu húsi sem byggt var árið 1950. Hún er 156 fermetrar að stærð með bílskúr, en þrjú svefnherbergi og eitt baðherbergi eru á hæðinni. Eftir að hjónin festu kaup á hæðinni fóru þau í heilmiklar framkvæmdir áður en þau fluttu inn í byrjun apríl 2019. 

Fallegu Wishbone-stólarnir prýða stofuna, en þeir eru hannaðir af Hans …
Fallegu Wishbone-stólarnir prýða stofuna, en þeir eru hannaðir af Hans Wegner fyrir Carl Hansen & Søn. Árni Sæberg

Kolféll fyrir litlu smáatriðunum

Mikill sjarmi er yfir íbúðinni sem heillaði Rósu og Sverri strax upp úr skónum. „Ég kolféll fyrir þessari hæð þegar ég sá gluggana, rósetturnar og loftlistana. Ég elska öll svona smáatriði sem gefa mikinn karakter,“ segir Rósa. 

Rósa og Sverrir búa yfir góðri reynslu þar sem íbúðin er ekki sú fyrsta sem þau gera upp, en hún segir framkvæmdirnar hafa gengið afar vel. „Við erum bæði dugleg að gera mikið sjálf en erum einnig heppin að vera með iðnaðarmenn í kringum okkur sem koma og hjálpa,“ útskýrir Rósa. 

Rósa hefur einstakt auga fyrir fallegum húsmunum.
Rósa hefur einstakt auga fyrir fallegum húsmunum. Árni Sæberg

Langþráð draumur uppfylltur

„Það fyrsta sem við gerðum var að laga baðherbergið, enda var löngu kominn tími á það. Ég fékk langþráðan draum minn um frístandandi baðkar uppfylltan og við erum ótrúlega ánægð með útkomuna,“ segir Rósa. 

Frístandandi baðkar var langþráður draumur Rósu.
Frístandandi baðkar var langþráður draumur Rósu. Árni Sæberg

„Því næst fórum við í það að laga ganginn. Við settum nýjar hurðar, skiptum um flísar, settum vegg- og gólflista og máluðum veggina í þessum dásamlega bleika lit. Gangurinn er eiginlega hjarta íbúðarinnar þar sem hann tengir saman rýmin í íbúðinni og því fannst okkur skipta miklu máli að hafa hann fallegan,“ segir Rósa. Bleiki liturinn gefur rýminu rómantíska stemningu, en liturinn heitir 1510 R og er frá Slippfélaginu. 

Gangurinn er einkar glæsilegur, en þar tónar bleiki liturinn sérlega …
Gangurinn er einkar glæsilegur, en þar tónar bleiki liturinn sérlega vel við fallegan bekk úr Snúrunni og flott ljós úr Húsgagnahöllinni. Árni Sæberg

Málaði stofuna í dökkgrænum lit

Rósa hefur gaman að því að baka og stússast í eldhúsinu og því lá næst við að taka það í gegn. Glæsileg innrétting með quarts borðplötu prýðir eldhúsið, en Rósu þótti þó mikilvægt að eldhúsið væri ekki einungis fallegt fyrir augað heldur líka praktískt og lagði hún því mikið upp úr því að nóg væri af skápa- og vinnuplássi í eldhúsinu. 

Eldhúsið er afar stílhreint, en gráa innréttingin gefur rýminu skemmtilegan …
Eldhúsið er afar stílhreint, en gráa innréttingin gefur rýminu skemmtilegan karakter. Árni Sæberg
Fallegir vegglistar prýða eldhúsið.
Fallegir vegglistar prýða eldhúsið. Árni Sæberg

„Það síðasta sem við gerðum var að setja vegglista á alla stofuna og mála hana dökkgræna sem kom mjög skemmtilega út,“ útskýrir Rósa, en falleg frönsk rennihurð og stór franskur bogagluggi gefa rýminu einstakan svip. „Stórir gluggar til suðurs gefa stofunni fallega birtu og ber hún þennan dökka lit því afar vel, en hann gefur rýminu mikinn karakter og hlýju,“ bætir hún við. 

Þessi dásamlegi græni litur heitir Back to the root by …
Þessi dásamlegi græni litur heitir Back to the root by Malin og er frá Sérefni. Árni Sæberg

Vildi skapa hlýlegt og persónulegt heimili

Þegar Rósa og Sverrir voru að innrétta íbúðina sóttu þau mikinn innblástur af samfélagsmiðlum, þá aðallega Pinterest og Instagram. „Ég er að fylgja mörgum innanhússhönnunar reikningum á samfélagsmiðlum og heillast mikið af skandinavískum heimilum. Svo er ég líka mjög skotin í þessum rómantíska Parísarstíl,“ segir Rósa. 

Aðspurð segist Rósa hafa leitast við að skapa hlýlegt og persónulegt andrúmsloft heima hjá sér og óhætt að segja að henni hafi tekist afar vel til. Á heimili hennar mætast sterkir litir og mýkri tónar sem gefa íbúðinni afar notalega og rómantíska stemmningu.

Óhrædd við að nota liti

Rósa lýsir stíl sínum sem blöndu af retró-stíl, „mid-century módern“ og skandinavískum stíl. „Íbúðin er með mikla sál sem við vildum halda í. Ég er einnig óhrædd við að nota liti sem fæstir þora í,“ segir Rósa, en hún hefur einstakt auga fyrir fallegum litum sem njóta sín vel í íbúðinni. 

Baðherbergið er í sérstöku uppáhaldi hjá Rósu, enda langþráður draumur hennar að eignast frístandandi baðkar og veit hún fátt betra en að slaka þar á eftir langan dag.

Það sem Rósa heldur þó mest upp á í íbúðinni er guðdómleg frönsk rennihurð sem er á milli stofunnar og hjónaherbergisins. Hurðin gefur rýminu óneitanlega mikinn glæsibrag og tónar græni liturinn afar vel við hurðina. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda