„Einn daginn er maður að hanna lampa og þann næsta líkkistu“

Hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir sýnir nú hönnun sína á SE-húsgangasýningunni í …
Hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir sýnir nú hönnun sína á SE-húsgangasýningunni í Kaupmannahöfn til 4. nóvember. Ljósmynd/Maarit Nors

Hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir hefur komið víða við á glæstum hönnunarferli sínum, en upp á síðkastið hefur hún hannað verk sem tengjast dauðanum. Nýjasta verk Daggar er nú til sýnis á SE-húsgagnasýningunni í Kaupmannahöfn, en í þetta sinn hannaði hún mublu sem fylgir eiganda sínum út lífið og fer úr því að vera rúm yfir í sófa, úr sófa yfir í bekk, og að lokum úr bekk yfir í líkkistu. 

Dögg hefur alltaf haft áhuga á skapandi hönnun og listum sem hafa bæði tilgang og upplifun. Hún segir áhugann hafa kviknað í barnæsku. „Mér leið alltaf vel þegar ég teiknaði og skapaði eitthvað með höndunum. Mér þótti líka áhugavert að taka hluti í sundur og snúa þeim á alla kanta, en það var kannski ekki alltaf auðvelt að setja þá saman aftur,“ segir Dögg og hlær. 

Dögg hefur hannað fjölda verka og komið fram á ótal …
Dögg hefur hannað fjölda verka og komið fram á ótal sýningum. Þá hafa verk hennar birst í hönnunartímaritum á borð við Bo Bedre, Dwell, Rum og Deko.

Með fjölbreytt nám að baki

Dögg er með meistaragráðu í hönnun og er þar að auki lærður iðnhönnuður, vöruhönnuður, húsgagnahönnuður, kennari og prófdómari. „Ég starfa sjálfstætt og vinn stundum með öðrum hönnuðum, listamönnum og fyrirtækjum. Þar að auki leiðbeini ég erlendum nemendum sem koma til mín í starfsþjálfun og er dómari í prófum hönnunarstúdenta í flestum hönnunarskólum Danmerkur,“ útskýrir Dögg. 

Á hönnunarferli sínum hefur Dögg unnið á allskyns sviðum og með fjölbreyttan efnivið, allt frá glerlist og járni yfir í grafík og við. „Það er óhætt að segja að áhugasviðið, bæði í húsgagna- og vöruhönnun, sé endalaust og síbreytilegt. Það fer allt eftir tíma og stund hverju sinni. Einn daginn er maður að hanna lampa og þann næsta líkkistu, borð eða duftker,“ segir Dögg. 

„Árið 2000 byrjaði ég með mitt eigið fyrirtæki sem er enn í gangi, en síðan hefur margt gerst í eigin hönnunarþróun. Ég varð heilluð af því að notast við allskyns náttúrutengdan efnivið og viðartegundir, þó aðallega skinn, ull og birki til að byrja með eftir að skólagöngu minni lauk. Undanfarið hef ég svo notast við fleiri viðartegundir í minni hönnun ásamt mublu textíl.“

„Fermingargjöfin sem fylgir þér allt lífið“

Nýjasta hönnun Daggar, mublan A Lifetime er nú til sýnis á SE-húsgagnasýningunni í Kaupmannahöfn og verður þar til 4. nóvember. Hún segir hugmyndina að mublunni upphaflega hafa kviknað fyrir nokkrum árum í Ghana þar sem Dögg ferðaðist ásamt fjölskyldu sinni. „Í Ghana er mikil hefð fyrir því að smíða hinar ýmsu kistur og rúm, en það var mikið af líkkistum og rúmum til sölu á förnum vegi þegar keyrt var um göturnar. Þá datt mér í hug að gera bæði rúm og kistu úr sömu hugmyndinni og spara því bæði efnivið, vinnu og pening,“ útskýrir Dögg.

A Lifetime mublan. SE-sýningin hefur verið haldin árlega í Kaupmannahöfn …
A Lifetime mublan. SE-sýningin hefur verið haldin árlega í Kaupmannahöfn í yfir 40 ár. Ljósmynd/Marie Charlotte Ravet

„Eftir að hafa svo upplifað það að kaupa kistu handa mömmu, sem var mjög flott og kostaði sitt, varð mér hugsað til þess að kistan færi svo bara í ofninn og fuðraði upp. Á svipuðum tíma var svo farið með rúm foreldra minna á hauganna þar sem pabbi keypti sér nýtt og minna rúm. Mér fannst það vera algjör efnissóun að brenna líkkistur sem eru bara notaðar í stuttan tíma og varð þá hugsað til hugmyndar minnar í Ghana, að hún væri kannski ekki svo vitlaus,“ segir Dögg. 

Eftir mikla hugmyndavinnu varð mublan A Lifetime til, en hún fylgir eiganda sínum frá vöggu til grafar. „Rúmið er eitt mikilvægasta húsgagnið sem fylgir okkur alla ævi. Að meðaltali eyðum við um það bil 26 árum af lífinu í rúmum okkar, en þegar við deyjum eyðum við litlum tíma í líkkistunni áður en hún er brennd. Sífellt fleiri velja að yfirgefa jörðina með því að láta brenna sig, meðal annars vegna plássleysis í kirkjugörðum,“ segir Dögg.

„Eftir að hafa gengið til prestsins allan veturinn og tala um lífið og dauðann sá ég að mublan væri tilvalin fermingargjöf. Því fékk A Lifetime viðurnefnið „Fermingargjöfin sem fylgir þér allt lífið“,“ segir Dögg. 

Mublan A Lifetime sem líkkista.
Mublan A Lifetime sem líkkista. Ljósmynd/Marie Charlotte Ravet

Mubla sem nýtist á marga vegu

„Mubluna er hægt að nota á alla mögulega vegu, en það getur verið notað sem rúm, sófi og bekkur við borðstofuborð svo eitthvað sé nefnt,“ segir Dögg. 

Dögg segir hönnunarferlið í heild sinni hafa gengið vel. „Það tók smá tíma að finna réttu lausnina eftir að ganga með sjálfa hugmyndina í höfðinu í dágóðan tíma. Það sem var svo mest krefjandi var að fá allt til að passa saman, bæði hugmyndina og framkvæmdina sem þurfti svo að passa við útlitið, notagildið og rétta efniviðinn,“ segir hún. 

Mublan er gerð úr dönskum Douglas-viði, en með mublunni fylgja tvær dýnur og þrír púðar með vönduðu áklæði sem er 85% ull og 15% Polyester sem hægt er að renna af og þvo. „Ég vann verkið með smiðnum og framleiðandanum Anton Balle AS og bólstraranum Helle Ohenmus, en við fengum textílinn frá Gabriel,“ útskýrir Dögg. 

Hún segir margar spurningar hafa vaknað við þróun mublunnar, til dæmis vildi hún útfæra mubluna á þann hátt að rúmið myndi ekki líkjast líkkistu á neinn hátt og að viðkomandi myndi sofa ofan á rúminu en ekki ofan í kistu. 

„Þegar mublan er notuð sem rúm þá er kistunni í raun snúið öfugt og og dýnan sett ofan á mubluna. Svo þótti mér mikilvægt að láta hlutina úr kistunni ekki týnast niður í kjallara. Því var lausnin að skrúfa handföngin á kistunni undir rúmið, svo þeim er líka snúið við og þá eru hliðarnar á kistunni notaðar í botninn þegar rúmið er breikkað. Bæði dýnur og púðar passa svo ofan í mubluna þegar hún er flutt milli staða,“ útskýrir Dögg. 

A Lifetime sem rúm.
A Lifetime sem rúm.
A Lifetime sem sófi.
A Lifetime sem sófi.
A Lifetime sem líkkista.
A Lifetime sem líkkista.

Aðrar lausnir í boði

Þó mublan sé meðal annars hugsuð sem líkkista og mikil vinna hafi farið í að velja réttan efnivið sem brennur vel segir Dögg aðrar lausnir vera í boði en að brenna mubluna. 

„Í dag eru um 70% íbúa Skandinavíu sem láta brenna sig og eykst talan með hverju árinu. Besta lausnin væri því ekki endilega að brenna kistuna eftir jarðarförina heldur notast við ódýrari gerð af kistu úr endurunnum pappa. Þá gæti mublan fylgt fjölskyldunni í áraraðir og yrði lánuð út í jarðarfarir, en með þeim hætti spörum við að fella tré og brenna. Þá þurfa aðstandendur heldur ekki að eyða peningi í rándýrar kistur sem fuðra svo upp í ofninum nokkrum vikum seinna,“ segir Dögg. 

Hönnun sem tengist dauðanum

Pælingar Daggar tengt dauðanum stoppa þó ekki hjá líkkistunni, en í dag er hún ásamt Þórhildi Einarsdóttur og Heiðdísi Einarsdóttur að vinna að framleiðslu á duftkeri. „Við stofnuðum nýlega fyrirtækið Aska Bio Burns, en þar erum við að hanna og þróa nýtt efni sem hægt væri að nota í duftker svo þau leysist upp í jörðunni eftir að þau eru grafin. Þetta verða óhefðbundin duftker sem fá nýtt og náttúrulegt form sem tengist íslenskri náttúru,“ útskýrir Dögg. 

„Við erum líka komnar með á lagnirnar nýtt hlaðvarp „Nær dauða en lífi“ sem tengist dauðanum og er fyrsti þáttur þegar kominn í loftið. Þórhildur og Heiðdís sjá að mestu leyti um þann þátt, en þar fá þær til sín allskyns viðmælendur og tala um málefni sem tengjast dauðanum,“ segir Dögg. 

Dögg reiknar með því að umræða um líf og dauða verði opnari í framtíðinni. „Það sem við vitum öll er að einn daginn munum við yfirgefa þennan heim. Það er staðreynd að við lifum í heimi offramleiðslu, en við erum að ganga á efni sem tilheyrir náttúrunni og fella tré sem aldrei fyrr,“ segir hún. 

Með sjálfbærni að leiðarljósi 

Það er því ljóst að Dögg hefur frábærar hugmyndir með sjálfbærni að leiðarljósi og því verður gaman að fylgjast með hönnun hennar tengt dauðanum þróast á næstu misserum. Aðspurð segist hún vona að A Lifetime haldi áfram í framleiðslu eftir sýninguna, en hún hefur tekið þátt í SE-sýningunni fimmtán sinnum og eru sum verka hennar enn í framleiðslu í dag. 

„Til dæmis eru stólar sem ég hannaði í samvinnu við Rikke Rützo Arnved fyrir SE-sýninguna árið 2010 enn í framleiðslu 11 árum síðar. Einnig má nefna Ugga lampana sem við Fanney Erla Antonsdóttir gerðum fyrir sýninguna árið 2001, en þeir eru enn gerðir eftir pöntunum,“ segir Dögg. 

Stóllinn Fifty sem var á SE-sýningunni árið 2010 og Ugga …
Stóllinn Fifty sem var á SE-sýningunni árið 2010 og Ugga lamparnir sem voru á sýningunni árið 2001.

„Nú í byrjun árs 2022 komu svo borðin Aria á markaðinn hjá Design House Stockholm, en þau voru gerð fyrir SE-sýninguna árið 2015,“ bætir Dögg við. 

Borðin Aria eru nýlega komin á markað, en þau voru …
Borðin Aria eru nýlega komin á markað, en þau voru gerð fyrir SE-sýninguna árið 2015. Ljósmynd/Designhousestockholm.com

Verk Daggar eru fjölbreytt og hægt er að nálgast þau á heimasíðu hennar ásamt nánari upplýsingum. SE-sýningin mun standa yfir til 4. nóvember og hvetur Dögg Íslendinga sem eiga leið hjá að kíkja við og skoða danska hönnun. „Það er frítt inn á sýningarsvæðið, en í ár er sýningin haldin í Fabrikken for Kunst og Design sem er staðsett í Amager,“ segir Dögg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál