„Ég æfi mikið inni í bílskúr“

Hjördís Ýr Ólafsdóttir kennari og hönnuður nýtur þess að hafa það notalegt heima með fjölskyldunni yfir vetrartímann. Hún bjó lengi í sól og hita og finnst gott að komast reglulega í sólina. Að láta sig dreyma um ferðir til útlanda yljar líka en best finnst Hjördísi að slaka á fyrir framan arininn. 

„Ég elska að kveikja á kertum í skammdeginu og á arninum, elda góðan mat og njóta með fjölskyldunni. Ég elska að fara í heita pottinn og það jafnast fátt á við það að fylgjast með norðurljósunum úr pottinum,“ segir Hjördís Ýr þegar hún er spurð hvað hún gerir þegar skammdegið skellur á.

Breytist heimilislífið eitthvað í skammdeginu?

„Já, það verða fleiri kósístundir. Á sumrin er maður meira á ferðinni og öll fjölskyldan almennt mikið úti svo það er notalegt að slaka á í skammdeginu heima. Við eigum margar gæðafjölskyldustundir saman eftir langa daga í skóla og vinnu,“ segir Hjördís, sem er gift Loga Karlssyni og saman eiga þau þrjú börn.

Hvar finnst þér gott að hreiðra um þig á heimilinu?

„Mér finnst best og skemmtilegast að slaka á eftir vinnu eða vinnuvikuna með manninum mínum í sófanum við arininn og spjalla um liðna viku og hvað sé fram undan. Mér finnst líka dásamlegt að slaka hér á eftir heita pottinn með eitt rauðvínsglas og góða tónlist.“

Fær orku við það að hreyfa sig

Hjördís segir æfingarnar breytast aðeins á veturna en hún er mikill morgunhani og vaknar yfirleitt um klukkan fimm á morgnana. Hún æfir og keppir í þríþraut og slær hvergi slöku við.

„Ég æfi nánast alltaf fyrir vinnu og fer oft líka á æfingu seinnipartinn. Ég fæ orku úr æfingunum og mér líður ekki jafn vel ef ég næ ekki að fara á æfingu fyrir vinnu. Þar sem ég er kennari þá er ég í frekar góðu sumarfríi og get því vaknað seinna á sumrin og æft úti. Ég æfi mikið inni í bílskúr þar sem ég er með góða aðstöðu, hjól og hlaupabretti. Annars elska ég að vera úti í náttúrunni og fæ D-vítamínið þar. Ég elska líka að synda undir berum himni, hvort sem það er snjóhríð eða sól. Ég eyði auðvitað meiri tíma úti á sumrin og þar sem ég er algjör kuldaskræfa þá hjóla ég ekki mikið úti á veturna. Ég hef alveg eytt fimm klukkutímum á hjólinu í bílskúrnum þegar mér fannst veðrið of vont til að vera úti að hjóla,“ segir Hjördís.

Gerir þú eitthvað til þess að næla þér í meira D-vítamín í myrkrinu?

„Ég borða almennt hollan mat og hreyfi mig úti og inni, tek vítamín og reyni svo að fara reglulega til útlanda í sólina.“

Bjó lengi í Ástralíu

Hjördís bjó erlendis í um tíu ár. Hún lærði iðnhönnun við Istituto Europeo di Design í Mílanó en hún bjó á Ítalíu í um þrjú ár. Hún bjó í Ástralíu um sjö ára skeið en Hjördís lærði grafíska hönnun í University of Wollongong.

„Á Ítalíu er veturinn mun styttri og mildari en á Íslandi, en það er margt á Íslandi sem erfitt er að keppa við. Mér fannst þó dásamlegt að geta farið í fjöllin um helgar á snjóbretti, það er svo einstakt fjallaloftið og stemningin í Ölpunum. Ég vil helst alvöru vetur með fullt af snjó og svo heitt sumar. Kosturinn við Ísland er auðvitað hversu auðvelt og ódýrt það er að hita húsin, heitu pottarnir og löngu sturturnar. Þetta eru forréttindi sem maður tekur eftir og saknar sérstaklega mikið þegar maður býr erlendis.

Í Ástralíu er aftur á móti afar lítill munur á árstíðum, ólíkt því sem maður venst á Íslandi. Ástralía er náttúrlega risastór og því töluverður munur á veðurfari í norður- og suðurhluta landsins. Ég bjó í tveimur mismunandi borgum þar, fyrst í Wollongong sem staðsett er rétt suður af Sydney, og svo Brisbane sem er mun norðar. Veturinn í Wollongong var svolítið eins og íslenskt sumar en í Brisbane er heitara og eiginlega sumar allt árið. Það var allt með öðru sniði í Ástralíu. Eðli málsins samkvæmt eru jólin um hásumar og eiginlega þveröfug við það sem við erum vön hér heima, ekkert stress, allir í löngu sumarfríi og bara slakir á ströndinni. Ég stundaði mikið brimbretti í Ástralíu en ég hef gert minna af því heima vegna þess að það tekur lengri tíma og er meira vesen en til dæmis í Ástralíu þar sem maður stökk út í sjóinn fyrir vinnu,“ segir Hjördís sem stundar annars konar brettaiðkun reglulega, snjóbretti.

Ferðu út fyrir landsteinana á veturna?

„Við hjónin reynum að fara reglulega í helgarferðir, bara tvö, en það er mjög mismunandi hvert við förum. Við erum ekki föst við einn stað. Við erum auðvitað mjög hrifin af Ítalíu eftir að hafa búið þar en svo er auðvitað gott að víkka sjóndeildarhringinn aðeins og kynna sér menningu nýrra landa og borga.“

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í vetur?

„Ég ætla að eiga margar notalegar stundir í vetur með fjölskyldunni. Eftir að hafa búið lengi erlendis í sól og hita þá þarf ég að komast reglulega til útlanda. Aldrei að vita nema við skellum okkur eitthvert en það er ekkert ákveðið. Það er líka gaman að sitja, skipuleggja og láta sig dreyma um sólarlandaferðir í skammdeginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Guðrún Arnalds - Darshan
Guðrún Arnalds - Darshan
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda