Eiginmaðurinn smíðaði jólatré fyrir Jónínu

Jónína Haraldsdóttir á fallegt jólaskraut.
Jónína Haraldsdóttir á fallegt jólaskraut. mbl.is/Árni Sæberg

Jónína Haraldsdóttir skreytir mikið á heimili sínu í Hveragerði fyrir jólin. Í miklu uppáhaldi er jólatré sem eiginmaður hennar, Vilhjálmur Albertsson, smíðaði fyrir hana en á það raðar hún jólaskrauti af mikilli vandvirkni. 

„Við bjuggum úti á landi þegar ég var að ala mín börn upp og þá var kannski ekki eins mikið um skraut, en ég hef alltaf verið mikil jólakona og alltaf reynt að skreyta,“ segir Jónína og segir ótrúlega mikið hafa bæst í safnið með tímanum. „Einu sinni byrjaði ég að skreyta í stofunni en nú er það þannig að ég skreyti allt húsið. Ég er með ljós í gluggum, ég hengi dót í alla glugga, kúlur og skraut hangir hér og þar í ljósakrónum. Ég byrja viku fyrir aðventu og er svo að dunda við þetta fram í aðventuna. Ég skipti alveg um punt og set annað í staðinn,“ segir Jónína sem setur að sjálfsögðu upp jólagardínur í eldhúsgluggana.

Heimagert jólatré með fallegum jólastyttum

Jónína á stórt og gott safn af jóladóti og sérstaklega af fallegum jólahúsum. „Upphaflega voru okkur gefin tvö hús en svo var farið að gefa okkur meira og ég keypti fleiri. Á seinni árum hef ég keypt hús á ferðum erlendis eins og þýsku húsin. Ég verð eiginlega að fara að stoppa, þetta er orðið svo mikið,“ segir Jónína og hlær.

Fjöldi húsanna var einmitt ástæða þess að eiginmaður hennar tók sig til og smíðaði jólatré fyrir hana. „Við vorum lengi vel með lifandi grenitré en sleppum því. Þetta kom nú til af því að húsin voru orðin svo mörg. Ég sagði við stelpurnar mínar að ég þyrfti að fara að hætta þessu, skrautið kæmist ekki fyrir. Nokkru seinna kom önnur dóttir mín með mynd af netinu og sagði við pabba sinn að hann ætti að búa til svona tré fyrir jólahúsin. Næstu jól á eftir bjó hann tréð til. Eftir það höfum við notað þetta sem jólatré,“ segir hún.

„Þetta eru spónaplötur. Mamma mín átti hvíta damaskdúka sem voru í tísku þegar hún var húsmóðir. Ég klippti þá niður og notaði á plöturnar þannig að þeir eru á fastir á plötunum og eins kanturinn framan á. Ég raða bara eftir minni og það sem mér finnst fallegt hverju sinni,“ segir Jónína sem er með eina reglu; kirkjan er efst.

Eiginmaðurinn smíðaði jólatréð.
Eiginmaðurinn smíðaði jólatréð. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu alveg hætt að safna?

„Ég segi ekki nei ef mér er yrði rétt meira. Ég hef stundum verið að mála postulín og þá líður mér voða illa ef ég tek ekki eitt hús og mála og set til viðbótar,“ segir Jónína og bendir á að persónulegu hlutirnir á trénu séu einmitt í uppáhaldi.

Margt hefur breyst

Fjölskyldan sér ekki bara til þess að jólaskrautið fái sinn stað heima hjá Jónínu og Vilhjálmi. Börnin og barnabörnin mega heldur ekki vita til þess að Jónína breyti út af vananum í jólabakstrinum. „Það eru þrjár, fjórar sortir sem ég baka alltaf. Ég hef talað um það við krakkana að fara að hætta þessu en þeim finnst það alveg ómögulegt og finnst þá ekki vera jól. Ég baka vanilluhringi, rúsínukökur og loftkökur. Svo geri ég marengstoppa með piparmyntubragði fyrir eitt barnabarnið mitt. Þetta eru kökur sem ég ólst upp við heima hjá mér.“

Þó svo kökurnar hafi lítið breyst hafa skreytingarnar tekið miklum breytingum. „Skreytingarnar eru orðnar svo miklu meiri bæði utanhúss og innanhúss, sérstaklega utanhúss. Það var rétt svo að maður sæi eina lengju af jólaljósum utan á húsum hér áður fyrr. Við höfum alltaf verið dugleg að skreyta og setjum helling af jólaljósum hérna úti. Maður byrjaði bara smátt með eina lengju utan á húsinu hérna í gamla daga.“

Ástæðurnar eru ýmsar fyrir því að minna fór fyrir jólaskrauti hér áður fyrr. Jónína segir ekki bara peninga hafa skipt máli, það var ekki endilega hefð fyrir að skreyta mikið. „Ég man til dæmis eftir því hjá foreldrum mínum að þau settu jólaljós utan á húsið en pabbi gerði það ekki fyrr en kannski viku fyrir jól.“

Jónína er ánægð með þá þróun að fólk skreyti meira og fyrr. „Það hefur verið þannig að ef við höfum farið utan yfir jól, sem hefur komið fyrir, þá skreyti ég alltaf jólatréð, það fær að standa.“

Þér finnst allt í lagi að vera ekki á Íslandi yfir jólin?

„Ég hélt að ég myndi finna eitthvað fyrir því af því að ég er svo mikið jólabarn. Við höfum verið tvisvar á Flórída en mér fannst það bara dásamlegt.“

Þegar Jónína og Vilhjálmur voru með lítil börn bjuggu þau á Tálknafirði. Staðsetningin og tíminn setti sinn svip á jólahaldið. „Það var stundum ekki hægt að fá egg í bakstur fyrir jólin og maður var að leita sér að uppskriftum sem voru eggjalausar,“ segir Jónína sem var viðbúin öllu með gastæki ef rafmagnið færi af. Í dag eru það dæturnar sem sjá til þess að sósan og allt annað verði til á réttum tíma og ekkert fari úrskeiðis. Jónína segist skipta sér lítið af eldamennskunni en finnst ómissandi að fá hangikjöt á jóladag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál