Emma Jane Palin er innanhúss-stílisti sem vill hvetja fólk til þess að nálgast heimili sín af meiri yfirvegun og ró og eltast minna við tískuna.
„Alltaf þegar ég fer á samfélagsmiðla sé ég einhvern áhrifavald tala um hvað sé í tísku og hvað ekki. En sannleikurinn er að við þurfum ekki fólk til þess að segja okkur að vandað handbragð sé nú dottið úr tísku. Við hendum allt of miklu af húsgögnum og heimilismunum og það er ekki sjálfbært til framtíðar,“ segir Palin í viðtali við The Times.
„Sjálf hef ég vissulega fallið í tískugildrur samtímans þó að ég hafi reyndar aldrei átt ananasstyttu. En ég get staðfest að þessar tískusveiflur eru búnar til fyrir fyrirtækin en ekki neytendur. Þetta eru líka uppfyllingarefni fyrir tímarit og vefsíður. Stundum er þetta blessun, loksins fá flamingóarnir sem þú elskar sínar 15 mínútur af frægð og fást alls staðar.“
„Næst þegar þú sérð eitthvað poppa upp alls staðar á samfélagsmiðlum þá skaltu gefa þér tíma til þess að hugsa þig um. Finnst þér þetta í alvöru flott? Er þetta eitthvað sem mun standast tímans tönn? Passar þetta inn á heimili þitt? Hefurðu einhvern tímann leitt hugann að einhverju svipuðu áður? Er hægt að kaupa þetta notað einhvers staðar?“
„Við ættum öll frekar að leggja áherslu á að tjá persónuleikann okkar á heimilinu. Þetta er þitt heimili. Ef þú elskar að vera eins og allir aðrir þá er það fínt. En þér á aldrei að líða eins og þú þurfir að vera hluti af þessum tískusveiflum.“