Hjarta heimilisins er fiðlusmíðin

Hjónin Fríða og Hans í stofunni. Á milli þeirra sést …
Hjónin Fríða og Hans í stofunni. Á milli þeirra sést verkið Eye of the Skin #1 eftir dóttur þeirra Elínu Hansdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, og Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistari hafa búið sér heimili í Garðabæ þar sem flestir hlutir eiga sér langa sögu. Heimilislíf þeirra hjóna einkennist af hljóðfærum, tónlist, bókmenntum, myndlist og matargerð. Það fyrsta sem blasir við úr forstofunni er bassi sem Hans lagði nýverið lokahönd á.

„Húsið er teiknað af Sigurði Hallgrímssyni, sem er mjög vandaður arkitekt,“ segir Fríða þegar hún tekur á móti ljósmyndara og blaðamanni. Arkitektúrinn er heillandi, nánast eins og sjálfstæður skúlptúr. Í húsinu eru stórir fletir og rýmin eru ekki endilega hornrétt. Rifur á veggjum gera það að verkum að sjónlínur eru langar og það er hægt að skyggnast inn á milli rýma. 

Fríða og Hans eru dugleg að elda og bjóða fólki …
Fríða og Hans eru dugleg að elda og bjóða fólki heim. mbl.is/Árni Sæberg

Áður en hjónin fluttu í úthverfi nær náttúrunni áttu þau heima í miðbæ Reykjavíkur. „Við áttum heima á Ingólfsstræti í yfir 100 ára gömlu friðuðu húsi, sem við gerðum upp frá grunni,“ segir Fríða. Á yngri árum bjuggu þau um tólf ára skeið í Lúxemborg í gömlu prestssetri frá miðri 19. öld. Þau yngdu því húsakostinn töluvert upp þegar þau fluttu í Garðabæinn. Menningin lifir þó góðu lífi í nýja húsinu og hefur það sína kosti að hafa vítt til veggja. „Hér er auðvelt að halda stórar veislur og við höfum einnig haldið tónleika. Þá ýttum við öllu til hliðar og fengum stóla úr næsta húsi, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ,“ segir Fríða.

Fríða leiðir blaðmann inn á verkstæði Hans. „Inni á verkstæði Hans er eins og tíminn líði hægar, enda er hann að smíða hljóðfæri sem endast í hundruð ára, lengur en það sem flestir sinna í sínu ævistarfi,“ segir Fríða. 

Hans er með vinnustofu heima þar sem hann smíðar hljóðfæri …
Hans er með vinnustofu heima þar sem hann smíðar hljóðfæri af mikilli list. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálf lætur hún bráðum af starfi sínu sem rektor Listaháskóla Íslands eftir tíu ára starf. „Ég hlakka til að breyta um takt, enda veit ég af fyrri reynslu að tímamót fela í sér ný tækifæri, þau opna fyrir nýja hugsun og hvetja mann til að endurhugsa þann dýrmæta tíma sem manni er gefinn í lífinu,“ segir Fríða um næstu skref þar sem hún stendur við skrifborð sem Hans smíðaði handa henni í sextugsafmælisgjöf. „Hringurinn á borðplötunni táknar nýtt upphaf,“ útskýrir Fríða, „upphafspunkturinn er góð áminning um að skerpa hugsunina.

Annars höfum við hjónin oft deilt vinnuaðstöðu. Þegar við bjuggum í Lúxemborg var vinnstofan hans Hans í 11. aldar kastala skammt frá heimili okkar. Við bjuggum í litlu þorpi og gengum svo í gegnum skóginn til þess að komast í kastalann, þar sem nokkrir listamenn áttu vinnustofur í mjög skemmtilegu samfélagi,“ segir Fríða.

Hvítli skúlptúrinn á veggnum er eftir Svövu Björnsdóttur. Undir honum …
Hvítli skúlptúrinn á veggnum er eftir Svövu Björnsdóttur. Undir honum má sjá textaverk eftir Margréti Bjarnadóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Fólk á að fylgja hjartanu

„Föðurafi minn var húsgagnasmiður en amma mín í hina ættina hafði mikinn tónlistaráhuga og dró mig á tónleika þegar ég var lítill. Þannig vaknar þessi áhugi á að smíða hljóðfæri,“ segir Hans sem situr í stofunni í gulum nýbólstruðum hægindastól, sem afi hans smíðaði fyrir sjötíu árum. „Stólarnir hafa fylgt okkur alla tíð og við höfum tvisvar látið bólstra þá,“ segir hann. „Ég segi við börnin mín og barnabörnin að ef þau langar í eitthvað þá eigi þau að setjast niður og teikna og smíða það,“ segir Hans sem smíðaði meðal annars borðstofuskápinn og borðstofuborðið en mublurnar voru hluti af eldhúsinnréttingu í gamla húsinu í Ingólfsstræti sem þau tóku með sér þrátt fyrir að þær tilheyri öðrum tíðaranda.

Föðurafi Hans smíðaði stólana í stofunni. Lampinn á gólfinu er …
Föðurafi Hans smíðaði stólana í stofunni. Lampinn á gólfinu er eftir Signýju Kolbeinsdóttur. Smárarnir tveir fyrir ofan lampann eru eftir Elínu Hansdóttur og heita Trifolium Repens. Abstrakt málverkið er eftir Þorvald Skúlason, langömmubróður Elínar. mbl.is/Árni Sæberg

Hans smíðaði einnig bókahillu fyrir bækurnar hennar Fríðu rétt eins og hann gerði í gamla húsinu. „Ég losaði mig við töluvert af bókum þegar við fluttum en hélt eftir þeim sem skiptu mig meira máli. Börnin okkar koma og fá lánaðar bækur þegar þau vilja sækja sér innblástur,“ segir Fríða. „Ég ætlaði að smíða stiga á hjólum til að ná í efstu hillurnar en gerði það ekki, við geymum bara leiðinlegu bækurnar efst,“ segir Hans og hlær.

Bókahillurnar smíðaði Hans undir djásn eiginkonu sinnar. Hann smíðaði einnig …
Bókahillurnar smíðaði Hans undir djásn eiginkonu sinnar. Hann smíðaði einnig bassann sem hann leikur á. mbl.is/Árni Sæberg

Hjónin eru áhugafólk um myndlist og er dóttir þeirra myndlistarmaður sem nýtir stundum vinnustofu föður síns. Sonur þeirra er tónlistarmaður sem þau hvetja einnig til að nýta vinnustofnuna sem stað til sköpunar og tilrauna. Myndlistarverk sem þau hafa safnað á undanförnum 30 árum fá gott pláss á heimilinu. „Það eru ekki öll verk uppi, enda þjónar það ekki endilega verkunum að teppaleggja veggina með myndlist, heldur leyfa þeim að lifa hverju fyrir sig. Við eigum alltaf sparsl og málningu til að færa til og breyta,“ segir Fríða. Verkin eru flest eftir fólk sem tengist þeim og eiga því einhverja sögu í fjölskyldunni.

Mublurnar í borðstofunni eru hluti af innréttingu sem prýddi hús …
Mublurnar í borðstofunni eru hluti af innréttingu sem prýddi hús hjónanna á Ingólfsstræti. Árni Sæberg

Hjarta heimilisins hefur þó alltaf verið fiðlusmíðin. Fyrir 40 árum segir Fríða að fólki hafi fundist það óvenjulegt að nema fiðlusmíði eins og Hans gerði. Í dag þyki slíkt ekki skrítið. „Ungt fólk, sem fætt er inn í stafrænan heim, hefur vaxandi áhuga á að vinna með raunverulegan efnivið og skynræna reynslu,“ segir Fríða, og bendir á að horft sé til lista og skapandi greina sem eins af lykilþáttum framfara í framtíðinni.

„Fyrst og fremst hef ég þó trú á því að fólk eigi að fylgja hjartanu í því sem það tekur sér fyrir hendur því vinnan er svo stór hluti af lífshlaupinu,“ segir Fríða, „það er svo mikilvægt að vinnan færi manni bæði þroska og lífsfyllingu.“

Fiðlurnar smíðaði Hans.
Fiðlurnar smíðaði Hans. mbl.is/Árni Sæberg
Segulharpa, hljóðfæri eftir Úlf Hansson son Fríðu og Hans, þetta …
Segulharpa, hljóðfæri eftir Úlf Hansson son Fríðu og Hans, þetta eintak er enn í smíðum. Prentverkið fyrir ofan Segulhörpuna er eftir Þorvald Skúlason. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál