„Garðurinn okkar er eins og ást okkar til hvort annars“

Fremst er súlublæösp, dverghvítgreni, kúrileyjakirsi, einir ásamt hádegisblómum, silfurkambi og …
Fremst er súlublæösp, dverghvítgreni, kúrileyjakirsi, einir ásamt hádegisblómum, silfurkambi og dílatvítönn og fleira. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Ása Björk Sigurðardóttir og Egill Þór Ragnarsson eiga svo fallegan garð að fólk gerir sér sérstaka ferð til að skoða hann. Garðræktin er mikið áhugamál þeirra hjóna og segir Ása Björk garðræktina vera samvinnu.

„Við hjónin búum í húsi í Garðabæ sem við keyptum árið 2017, það er góður andi hér og það hefur greinilega verið mikið lagt í þetta hús þegar það var byggt. Í dag höfum við gert það að okkar. Ég myndi segja að við ættum fallegt hús og glæsilegan garð. Garðurinn er eitt af mínum áhugamálum, en ég hef líka gaman af allri útivist, fjallgöngum og sjósundi, ásamt vatns- og olíulitum. Egill hefur einnig gaman af allri útivist, veiðum, hann er hreindýraleiðsögumaður, varð íslandsmeistari í júdó fyrir um 40 árum og keppir líka í skotfimi,“ segir Ása Björk.

Hjónin tóku við góðu búi en hafa þó breytt garðinum mjög mikið. Þetta var eiginlega trjágarður þegar við keyptum húsið, en í dag höfum við fellt fullt af trjám. Höfum breytt þessum garði í fallegan skrúðgarð. Það eru margir sem gera sér ferðir hingað bara til að sjá garðinn í blóma á sumrin, nágrannakonan í húsinu á móti og horfir yfir garðinn hjá okkur, segir að það séu greinilega margir sem koma bara til að skoða garðinn okkar.“

Egill að taka niður furuna sem var orðin svo há …
Egill að taka niður furuna sem var orðin svo há að hún tók af útsýninu hjá nágrönnunum. Eftir að þessi furutré voru tekin niður þá kom í ljós fallegt holtagrjót sem var týnt undir trjánum og auðvelt að gera fallegt blómabeð. Ljósmynd/Aðsend

Garðurinn er samvinna

„Garðyrkjuáhuginn hjá mér kviknaði er ég var barn í sveitinni og mamma mín setti hádegisblóm í málað dekk og svo sáði hún oft morgunfrúm. Í dag hugsa ég alltaf til mömmu er ég sé hádegisblóm, þegar ég sái þeim finnst mér ég vera að gera það fyrir hana. Ég gekk í Héraðsskólann á Laugarvatni og fór í starfskynningu í Garðyrkjuskólann í viku er ég var 16 ára. Ég ætlaði mér í Garðyrkjuskólann en skrifstofan heillaði og ég fór að vinna í heildsölu. Ég fór sem sagt ekki rétta braut.

Ég fór í eigin rekstur, flutti inn trévörur frá Balí og gjafavöru frá ýmsum löndum. Í dag er ég með Praxis og Sevendays vörurnar og það er mitt aðalstarf. Ef ég væri 16 eða17 ára í dag færi ég í Garðyrkjuskólann því garðyrkjan á hug minn allan. Hef alltaf átt fallegan garð, en þegar maður er í fullu starfi og með þrjú börn, þá er tíminn af skornum skammti,“ segir Ása Björk um garðyrkjuáhugann.

Hún segir Egil einnig vera með bullandi áhuga á garðinum. „Það er svo gaman að sjá brosið hans er ég er búin að vera að vinna í garðinum. Til að vera með svona fallegan garð þá þurfa bæði hjónin að vera í þessu, þó ég sjái aðallega um plönturnar þá er svo mikið annað sem þarf að gera, þetta er allt samvinna.“

Ása Björk segir fallega grasflöt mikilvæga.

„Ég var svo lánsöm að kynnast heiðurshjónum úr Kópavoginum fyrir nokkrum árum sem eru með, að mínu mati, fallegasta garð á Íslandi. Þau sögðu mér að til að fá grasflötina fallega þá ætti maður að slá garðinn á þriggja til fjögurra daga fresti og láta grasið fara niður í rótina. Garðurinn minn fríkkaði mikið er ég fór að gera þetta. Þetta er líka svo auðvelt og góð líkamsrækt að hlaupa með sláttuvélina. En því miður er grasflötin alltaf full af mosa á vorin og sérstaklega slæm í vor, en ég er dugleg að raka og setja túrbókalk og bæti áburði svo á fram eftir sumri. Það er í sjálfu sér ekki mikil vinna að halda garðinum fínum ef maður fylgist vel með og tínir reglulega upp óæskilegan gróður. Veturinn var veðurfarslega erfiður fyrir plönturnar í garðinum og margar plöntur drápust. Allur tími er í raun skemmtilegur í garðinum, en svona um miðjan júlí finnst mér alltaf skemmtilegast að vera úti í garði.“

Hér má sjá dverghvítgreni, eldlilju, kínadrottningu og fingurbjargarblóm.
Hér má sjá dverghvítgreni, eldlilju, kínadrottningu og fingurbjargarblóm. Ljósmynd/Aðsend

Plönturnar eru merktar

Plönturnar í garðinum eru vel merktar eins og í betri grasagörðum.

„Maðurinn minn er með vélaverkstæði og hannar og selur fiskflokkunarvélar um allan heim, það voru hæg heimatökin að merkja allt í garðinum, hann hlær alltaf í dag þegar hann segir frá er ég bað hann um 50 merki, svo aftur og aftur. En merkingarnar skipa hundruðum í garðinum. Það er líka svo gaman þegar börnin fara að lesa á merkin, ég var svo hissa er barnabarnið okkar, hún Dagbjört Mía, spurði mig: „Amma, heitir blómið virkilega rottueyra?“ Á þessum tíma var hún að læra að lesa, þetta er nú ekki auðvelt orð, rottueyra, þegar barn er að læra að lesa. En gott fyrir alla að læra hvað plönturnar heita. Við hjónin getum setið í koníaksstofunni og horft yfir garðinn okkar og leiðist það aldrei. Ég segi að garðurinn okkar sé eins og ást okkar til hvort annars, einstök og falleg.“

Áttu þér uppáhaldsplöntur?

„Mínar uppáhaldsplöntur eru nokkrar, en þar má nefna hortensíur, jaraberjamuru, stúdentanelliku, lykla af ýmsu tagi, hnoðrar eru líka æðislegir. Skemmtilegast er að það er alltaf eitthvað blómstrandi í garðinum, alveg frá apríl fram í september.“

Að vinna í garðinum er eins og að fara í heilun, að sögn Ásu Bjarkar, það er svo gott fyrir sálina.

„Ég byrja að sá í febrúar, mars og alveg fram í apríl, þá fær maður fiðring í magann af tilhlökkun að vorið sé að koma. Það eru algjör forréttindi að hafa aðstöðu til að geta þetta. Vinnan byrjar alltaf í garðinum hjá mér í lok apríl, það er svo mikilvægt að byrja snemma. Það er tíu sinnum meiri vinna að byrja að grófhreinsa þegar júní er kominn. Ég grófhreinsa alltaf allan garðinn og tek upp allt illgresi, það er mjög mikilvægt að gera það snemma, og ég breiði dagblöð yfir viðkvæmar plöntur þegar sólin fer að skína og plata plönturnar og svo frystir á nóttunni. Skaðræði fyrir allar plöntur. Ég hreinsa aldrei laufið fyrr en ég er viss um að það frysti ekki aftur, svo fylgist ég bara með og fer hring í garðinum og kippi upp þegar koma upp plöntur sem ég vil ekki hafa. Vandamálið er að það er of mikið af illa hirtum görðum úti um allt, og þeir garðar senda frá sér mikið af óæskilegum fræjum. Skaðræði fyrir fólk sem vill hafa fallega garða. Garðurinn sem liggur að mínum garði er fullur af skriðsóley og spánarkerfli sem er alveg skelfilegt. Þetta nýja fyrirbrigði, villigarðar, þurfa að vera í sér hverfum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál