Birna Rut Willardsdóttir fyrrverandi fyrirsæta og Ingi Garðar Friðriksson bílasali á Bílasölu Íslands hafa fest kaup á einbýli í Fossvogi. Birna Rut komst í fréttir þegar hún var kornung eða þegar hún sigraði Ford-keppnina aðeins 16 ára gömul árið 1993. Þá var hún í 10. bekk í Dalvíkurskóla.
Fjallað var ítarlega um nýja húsið þeirra Birnu Rutar og Inga Garðars þegar það fór á sölu í október í fyrra. Um er að ræða 285 fm einbýli á einni hæð. Húsið var byggt 1972 og var teiknað af Kjartani Sveinssyni. Gunnar Magnússon teiknaði allar innréttingar inn í húsið og voru þær sérsmíðaðar af Reyni Pálssyni.
Húsið er á einni hæð með fjölmörgum áhugaverðum smáatriðum. Fólk sem kann að meta hönnun og stemningu fyrri tíma á eftir að fá þráhyggju fyrir þessu húsi. Í húsinu eru hvít teppi og granít á gólfum en á baðherberginu eru marmarflísar.
Eldhúsið er með upprunalegum innréttingum en þó er búið að endurnýja það að hluta til. Þar eru til dæmis granítborðplötur og glansandi loftklæðning sem gefur eldhúsinu sérstöðu.
Arininn í stofunni er til dæmis skemmtilega hannaður en hann stúkar af tvær stórar stofur. Það sem gerir húsið ennþá skemmtilegra eru húsgögnin sem það prýða. Þar er til dæmis að finna Maralunga sófasett frá Cassina og leðursófa frá áttunda áratugnum sem fær hjartað til að slá örlítið hraðar.
Smartland óskar þeim til hamingju með þetta einstaka hús!