Við Bakkavör á Seltjarnarnesi er að finna einstakt parhús sem byggt var 1991. Húsið er 295 fm að stærð og hefur mikla sérstöðu þar sem vandað var sérstaklega til verka þegar húsið var endurhannað að innan.
Guðbjörg Magnúsdóttir innanhússarkitekt töfraði fram heillandi heim með hugviti sínu þegar hún teiknaði innréttingar inn í húsið 2006. Guðbjörg er ein af færstu innanhússarkitektum landsins og eins og sést á innréttingunum eru þær ennþá glæsilegar, 16 árum eftir að þær voru settar upp í húsinu. Hún hannaði til dæmis baðherbergi, hjónasvítu og innbyggðar bókahillur og fleira sem gefur húsinu smekklegt yfirbragð.
Það er því ekkert skrýtið að hjónin Hans Tómas Björnsson og Lotta María Ellingsen hafi fallið fyrir húsinu. Þau keyptu það af Hirti Nielsen og Ástríði Sigurrós Jónsdóttur. Hans og Lotta greiddu 220.000.000 kr. fyrir húsið.
2016 var eldhúsið endurnýjað en það er hannað af Goform. Þar er að finna dökkar innréttingar og svartan marmara.