Stórt upplýst skilti merkt Fréttablaðinu er nú til sölu en fjölmiðillinn hætti starfsemi fyrr á árinu. Skiltið er auglýst á Efnisveitunni sem Fréttablaðið til sölu. Rétti aðilinn með nóg milli handanna gæti haft gagn eða gaman af.
Skiltið sem er upplýst er 300 sentímetrar á breidd og 59 sentímetrar á hæð. Skiltið er ekki ókeypis þó það sé merkt Fréttablaðinu. Skiltið kostar 496.000 krónur.
Fleiri munir tengdir Fréttablaðinu eru til sölu. Hægt er að kaupa stór skilti sem áður prýddu glugga Fréttablaðsins á Hafnartorgi. Skiltin eru misstór og eru alls 12 stafir til. Hægt er að skipta um stafi og möguleikarnir til að nýta skiltin töluverðir. Auglýsingin heitir þó líka Fréttablaðið til sölu. Hver stafur kostar 124.800 krónur.