Óttar Sveinsson, höfundur vinsælu Útkallsbókanna, hefur sett sjarmerandi sérhæð sína í Grafarholti á sölu. Íbúðin er á annarri hæð í flottu húsi sem reist var árið 2003, en hún telur 187 fm.
Eldhús, stofa og borðstofa eru samliggjandi í rúmgóðu alrými með innfelldri lýsingu. Stórir gluggar hleypa mikilli birtu inn í rýmið, en mikil náttúrufegurð umlykur húsið og er útsýnið frá íbúðinni því sérlega glæsilegt.
Fallegt gegnheilt parket úr eik prýðir gólfin og gefur íbúðinni hlýlegt yfirbragð. Frá eldhúsinu er útgengt á rúmgóðar og snyrtilegar svalir með glerhandriði sem hindrar ekki útsýnið.
Íbúðin státar af þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum, en þar af er rúmgott og bjart hjónaherbergi með útgengi á svalir um tvöfalda hurð. Þá er aðalbaðherbergið vel útbúið með baðkari og sturtu, fallegri lýsingu og snyrtilegri innréttingu.