Í Bláskógabyggð í uppsveitum Árnessýslu er að finna glæsilegt 132 fm sumarhús sem reist var árið 2021. Húsið er vel hannað og hefur verið innréttað á sjarmerandi máta, en þaðan er einstakt útsýni til Vörðufells, Hestsfjalls og Mosfells.
Að utan er húsið klætt með fallegri svartri báruklæðningu og viðarklæðningu sem gleður sannarlega augað. Að innan flæðir falleg litapalletta í jarðtónum um húsið og skapar notalega stemningu.
Eldhús, borðstofa og stofa eru samliggjandi í björtu rými með stórum gólfsíðum gluggum. Hrátt yfirbragð á veggjum gefur rýminu skemmtilegan karakter til móts við fallegan við í lofti sem skapar mikla hlýju. Í eldhúsinu er snyrtileg svört innrétting og falleg eldhúseyja.
Frá rýminu er útgengt á snyrtilegan og rúmgóðan pall um rennihurð, en þar er að finna heitan pott og notalega setuaðstöðu.
Alls eru fjögur svefnherbergi og tvö baðherbergi í húsinu, þar af er hjónaherbergi með sérbaðherbergi sem hefur verið innréttað á flottan máta.