Við Skaftahlíð í Hlíðunum er að finna fallega 111 fm íbúð á efstu hæð í flottu fjölbýlishúsi sem reist var árið 1958 og teiknað af Sigvalda Thordarsyni arkitekt. Íbúðin hefur verið innréttuð á skemmtilegan máta og hefur mikinn karakter.
Dökkir og djarfir tónar eru áberandi í íbúðinni og skapa notalega stemningu til móts við einstaka ljósari muni eins og glæsilegan hvítan leðursófa í stofunni, fallegar bastkörfur og hina tímalausu DSR-stóla í borðstofunni sem hjónin Ray og Charles Eames hönnuðu árið 1948.
Þá spilar krómáferð einnig lykilhlutverk í íbúðinni, til dæmis í loftljósum, gólflampa, hliðarborðum og öðrum minni húsmunum eins og kertastjökum og skálum. Stór listaverk og stórir speglar fanga án efa augað og setja sterkan svip á rýmin.
Í íbúðinni eru gluggar á fjóra vegu sem hleypa mikilli birtu inn. Íbúðin státar af tveimur svölum, annars vegar til austurs og hins vegar til suðurs, ásamt þremur svefnherbergjum og einu baðherbergi.