Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttamaður á RÚV, og eiginkona hans, Sigrún Hallgrímsdóttir læknir, hafa fest kaup á eftirsóttu raðhúsi við Frostaskjól í Reykjavík. VB.is greindi frá því.
Það sem vekur athygli er að hjónin keyptu húsið án þess að selja íbúð sína við Austurströnd 14.
Hjónin keyptu íbúðina við Austurströnd 14 þann 29. apríl 2021 og fengu hana afhenta í júní sama ár. Um er að ræða 138,9 fm íbúð sem er í húsi sem reist var árið 1987. Gildandi fasteignamat íbúðarinnar er 75.050.000 kr.
Ingi Freyr og Sigrún festu kaup á glæsilegu 269,2 fm raðhúsi við Frostaskjól 25 á dögunum. Þegar húsið var auglýst til sölu var ásett verð 209 milljónir. Þau keyptu húsið hins vegar á 218.000.000 kr. sem gefur til kynna að barist hafa verið um húsið og ekki hafi verið stemning fyrir því að bíða eftir að 138,9 fm íbúð við Austurströnd myndi seljast til þess að hægt væri að ganga frá kaupunum.
Það er vel skiljanlegt að Ingi Freyr og Sigrún hafi fallið fyrir húsinu því það er vel útbúið með fögrum innréttingum, fallegum garði, flottum barstólum og vönduðum gólfefnum.
Húsið keyptu þau af Jóhanni Inga Kristjánssyni og Ingu Rósu Guðmundsdóttur sem nýlega festu kaup á einbýlishúsi við Einimel sem ekki var auglýst til sölu.
Smartland óskar Inga Frey og Sigrúnu til hamingju með nýja húsið!