Það gerist alltaf reglulega að stór og flott, vel hönnuð og smart einbýlishús séu auglýst til sölu. Það er hinsvegar óvenjulegt að það séu fimm glæsihús til sölu í sama hverfinu eins og er raunin núna. Um er að ræða glæsihús í Akrahverfinu í Garðabæ sem eiga það sameiginlegt að vera ríkulega búin af öllu því fínasta dýrasta sem fyrirfinnst í efnisvali.
Hvað veldur þessum óróa í hverfinu?
Þegar stórt er spurt er fátt um svör annað en að fólk þrái tilbreytingu í líf sitt. Það getur verið ágætis tilbreyting að flytja, taka til garðinum sínum, sortera dót í geymslunni og skipta um umhverfi. Svo er líka hægt að fá leið á sérsmíðuðum innréttingum. Líka þótt þær séu teiknaðar af færustu innanhússarkitektum Íslands.
Við Stórakur 5 í Garðabæ er að finna 386 fm einbýli sem reist var 2015. Ívar Örn Guðmundsson arkitekt teiknaði húsið bæði að innan og utan. Eigendur hússins eru Hannes Hilmarsson einn af stærstu eigendum Atlanta flugfélagsins og eiginkona hans, Guðrún Þráinsdóttir. Þau rötuðu í fréttir á dögunum þegar þau festu kaup á dýrasta húsi Íslands sem er við Mávanes í Garðabæ. Húsið keyptu þau af Ingu Lind Karlsdóttur eiganda Skot Productions.
Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Stórakur 5
Viðskiptakonan Petrea Ingileif Guðmundsdóttir hefur sett einstakt einbýlishús sitt í Akrahverfinu í Garðabæ á sölu. Petrea hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi og var um tíma forstjóri símafyrirtækisins Tal. Hún kom ný inn í stjórn Sýnar í vor þegar ný stjórn var kosin.
Sigurður Hallgrímsson arkitekt hjá Arkþingi teiknaði húsið og Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði húsið að innan. Fjallað var ítarlega um innanhússhönnun hússins í bók Rutar Káradóttur Inni sem kom út 2015. Húsið er 361 fm að stærð og var það reist 2011.
Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Góðakur 8
Við Votakur í Garðabæ er að finna glæsilegt 498 fm einbýlishús á tveimur hæðum sem reist var árið 2014. Húsið er fallega hannað bæði að innan og utan, en það státar meðal annars af bíósal, líkamsræktar- og vínherbergi.
Aukin lofthæð og stórir gluggar gefa eigninni mikinn glæsibrag. Í stofunni má sjá fallegan arin sem setur svip á rýmið og skapar notalegt andrúmsloft, en við arininn stendur hinn formfagri Mammoth-hægindastóll sem Rune Krøjgaard og Knut Bendik Humlevik hönnuðu árið 2011 fyrir NORR11.
Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Votakur 1
Við Gullakur í Garðabæ er til sölu 375 fm einbýlishús sem reist var árið 2008. Arkitekt hússins er Valdimar Harðarson hjá ASK Arkitektar. Alls eru fimm svefnherbergi og þrjú baðherbergi í húsinu.
Ásett verð er 375.000.000 krónur.
Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Gullakur 9
Guðmundur Marteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bónus, og eiginkona hans, Ingibjörg B. Halldórsdóttir, hafa sett glæsilegt einbýli sitt við Hjálmakur í Garðabæ á sölu. Húsið var reist árið 2008 og teiknað af Sigurði Hallgrímssyni arkitekt, en það var Hallgrímur Friðgeirsson sem sá um innanhússhönnunina.
Í maí síðastliðnum var greint frá því á Smartlandi að Guðmundur og Ingibjörg hafi fest kaup á sjarmerandi lúxusíbúð í Kópavogi. Íbúðin er 174 fm að stærð og var hvergi til sparað í hönnuninni, en það var Rut Káradóttir innanhúsarkitekt sem hannaði hana frá a til ö.