„Það er sagt að litir séu það fyrsta sem maður tekur eftir á hlut eða rými“

Davíð Georg Gunnarsson og Halla Bára Gestsdóttir sameina krafta sína …
Davíð Georg Gunnarsson og Halla Bára Gestsdóttir sameina krafta sína og halda saman námskeið. sameina krafta sína og ætla að bjóða upp á tvö námskeið í innanhússhönnun. Hún er með meistarapróf í innanhússhönnun og hann er arikitekt með meistaragráðu í rýmishönnun.  Fyrra námskeiðið er núna 20. mars og seinna 26. mars. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Halla Bára Gestsdóttir og Davíð Georg Gunnarsson vita hvernig falleg heimili eiga að líta út. Hún ritstýrir tímaritinu Lifun sem hún og eiginmaður hennar, Gunnar Sverrisson ljósmyndari, gefa út, en hún er líka með meistarapróf í innanhússhönnun. Davíð er arkitekt með meistaragráðu í rýmishönnun og því er ekki að undra þótt þau ætli að halda námskeið í innanhússhönnun fyrir fólk sem vill smarta upp hjá sér. 

„Við Davíð kynntumst við vinnu okkar í Epal og náðum strax saman þrátt fyrir ansi mikinn aldursmun,“ segir Halla Bára en hún er komin yfir fimmtugt og hann er þrítugur. 

„Við klikkum því við tengjum í gegnum skapandi vinnu og allt sem henni fylgir, spáum mikið og ræðum málin. Ég var með námskeið í innanhússhönnun fyrir nokkrum árum sem gengu mjög vel en allt stoppaði í kórónuveirunni. Ég hafði alltaf hugsað mér að fara aftur af stað með námskeið en langaði að gera eitthvað nýtt. Svo fórum við Davíð að ræða þetta og úr varð samstarf okkar á milli sem námskeiðið núna er afraksturinn af,“ segir Halla Bára. 

Hvernig námskeið eru þetta?

„Við byggjum námskeiðið upp á heildrænni nálgun sem snýst um það að skapa jafnvægi og samhljóm í umhverfi sínu, umhverfi sem virkar og býður manni faðminn. Við förum í gegnum þætti sem eru að okkar mati grundvallaratriði til að vinna með rými á þennan hátt og það að tileinka sér þá gerir það að verkum að það verður áhugaverðara, skemmtilegra og meira leikandi að vinna með sitt eigið umhverfi. Námskeiðið er fyrir alla áhugasama um innanhússhönnun og umhverfi sitt.

Við höldum námskeiðið í verslun Epal í Skeifunni, í húsgagnadeildinni á 2. hæð, sem á sér ákveðna skýringu en með því verður það sem við förum yfir ljóslifandi. Námskeiðinu er skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum förum við ítarlega yfir þessa þætti og styðjumst við myndir á skjá. Þá tökum við smá hlé og smökkum á léttum veitingum. Í seinni hlutanum þá göngum við um húsgagnadeildina þar sem við ræðum enn frekar það sem við höfum farið yfir og tökum lifandi dæmi í versluninni, köllum á spjall og spurningar.

Þau atriði sem við förum yfir eru litir, viður og efnisnotkun og áferðir. Þá er það skipulag og uppröðun, stærðir og hlutföll. Lýsing. Og loks textíll og áferðir,“ segir Halla Bára. 

Hvað um helstu áherslur þessa dagana? Vill fólk allt beige-litað eins og er heima hjá Kim Kardashian eða er það að breytast?

„Það hvernig tískan breytist og myndir birtast frá fyrirtækjum sem eru annars konar en á síðustu árstíð hefur ákveðinn viðskiptalegan tilgang. Að fanga athygli fólks og koma fram með nýjungar sem að sjálfsögðu er grundvallaratriði hjá framleiðendum. Hugmyndin er ekki að fólk snúi öllu við heldur að það taki eftir hlutunum og kannski pikki eitthvað út sem því líkar og langar til að bæta við heima hjá sér. Við skulum endilega skapa okkur stíl sem við vinnum með en ekki bara fylgja tískunni.

Ljósir jarðlitir og allt beige hefur haldið velli í þó nokkurn tíma og ég held að sú umgjörð henti mörgum. Hún er ekki ágeng og henni fylgir ákveðin ró. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar unnið er með svona sterka og einlita pallettu þá er það alveg ákveðin áskorun. Vegna þess að þarna þurfa þessir fáu tónar að tala mjög vel saman.

Á eftir þessu ljósa umhverfi fóru að koma meiri litir almennt en ekki svo sterkir eða krefjandi en fyrir næsta árið er meira verið að vinna með enn sterkari liti en þó alls ekki dökka í þeim skilningi. Það sem er jákvætt í þessu öllu er að fólk er farið að huga meira að textíl og áferð á hlutum og húsgögnum sem og lýsingu til að skapa það yfirbragð og stemmningu sem það sækist eftir.“

Hverju tekur þú fyrst eftir þegar þú kemur heim til fólks?

„Það er sagt að litir séu það fyrsta sem maður tekur eftir á hlut eða rými og líklega er ansi mikið til í því. Þeir skapa sannarlega ákveðið yfirbragð og stemmningu og ættu að vera það sem fólk hugsar fyrst um þegar það vinnur með rými. Ég hugsa nú bara um það hvað sé gaman að vera boðið eitthvað, um stemmninguna og hversu persónuleg umgjörðin sé. Mér finnst persónuleg umgjörð skipta öllu máli.“

Hvað getur fólk gert til þess að gera fallegra og skemmtilegra inni hjá sér?

„Fyrir utan það að mæta á námskeiðið hjá okkur þá segi ég alltaf að huga til að byrja með markvisst að öllu litavali og kalla fram sögu heimilisfólks svo umhverfið endurspegli þá sem þar búa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda