„Við erum mjög þakklát að það hafi verið hugsað út í þetta“

Aðalbjörg segir fjölskylduna vera Hafnfirðinga í húð og hár.
Aðalbjörg segir fjölskylduna vera Hafnfirðinga í húð og hár. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Hjónin Aðalbjörg Óladóttir og Björn Sigurðsson búa í snotru einbýlishúsi með fallegum garði í Setbergshverfinu í Hafnarfirði. Aðalbjörg segir að þau séu Hafnfirðingar í húð og hár, hún eigi hafnfirsk skyldmenni langt aftur í ættir en Björn hafi búið í Firðinum frá þriggja ára aldri.

Húsið er steinsnar frá Kaplakrika og hún segir að þangað sé fljótlegra að ganga en keyra, sem hafi komið sér vel því öll eru þau miklir FH-ingar. Hún bætir við að yngsti sonur þeirra hafi stundað sund hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar í mörg ár og þau hafi bæði verið mjög virk í sjálfboðavinnu til að styðja við sundið. Þau eiga þrjú börn, Sif og Arnór, sem bæði eru flutt að heiman, og Daða sem er yngstur og býr enn hjá þeim. Aðalbjörg hefur starfað í ferðabransanum í 35 ár og vinnur hjá Icelandair en Björn á fyrirtæki í bílainnflutningi og bílasölu. Þegar talið berst að garðinum er Aðalbjörg fljót að segja að hún sé enginn sérfræðingur í garðrækt.

Aðalbjörg hefur haldið hátt í hundrað manna veislu í garðinum.
Aðalbjörg hefur haldið hátt í hundrað manna veislu í garðinum. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Plastaðar teikningar af garðinum

Þau fluttu í húsið árið 2005 en þá var garðurinn mjög flottur enda hafði greinilega verið vandað til verka eins og hjónin komust fljótlega að.

„Húsið var byggt í kringum 1985 og bar þess merki því inni voru svo svakalega hraunaðir veggir að ef barn hefði dottið á þá hefði það sennilega fengið gat á hausinn. Húsinu fylgdu teikningar eins og oftast er af húsum og lögnum en teikningarnar af garðinum hér voru þær einu sem voru plastaðar og til bæði í lit og svarthvítar. Það var því greinilegt að fyrri eigendur höfðu lagt gríðarlega mikla vinnu í skipulagninguna á garðinum. Samkvæmt þessum teikningunum var það Hörður Rögnvaldsson skrúðgarðameistari sem skipulagði garðinn árið 1992. Þannig að í raun fengum við hann bara fullbúinn þegar við keyptum.“

Kaldi potturinn er mikið notaður af yngsta syninum á heimilinu.
Kaldi potturinn er mikið notaður af yngsta syninum á heimilinu. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Undirvinnan frábærlega gerð

Hún segir ljóst að hugsað hafi verið fyrir öllum smáatriðum eins og að haustlitirnir koma einn af öðrum fyrir utan stofugluggann og eins sé ekki allt í blóma akkúrat á sama tíma.

„Við erum mjög þakklát að það hafi verið hugsað út í þetta þar sem útsýnið hér í húsinu er jú bara garðurinn. Trépallarnir sem eru hér hafa staðið sig ótrúlega vel og það sér varla á þeim og svo er greinilegt að öll undirvinna hefur verið frábærlega gerð því hér vex bara aldrei neitt illgresi undir pallinum. Við höfum aðeins bætt við, bættum til dæmis við pallinum sem er fyrir framan húsið en það var meðal annars gert svo við hefðum betri aðstöðu til að njóta kvöldsólarinnar.“

Garður þarfnast stöðugs viðhalds og næsta mál á dagskrá er …
Garður þarfnast stöðugs viðhalds og næsta mál á dagskrá er að fjarlægja tvær aspir sem eru farnar að skyggja á sólina. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Þurftu að fella furutréð sem jólaserían var alltaf sett á

Aðalbjörg segir að þau hafi í raun ekki breytt miklu í garðinum þar sem grunnurinn var mjög góður. „Þegar ég fer að rifja upp hvað við höfum gert er það samt kannski aðeins meira en ég hélt í byrjun. Við fjarlægðum litla grasflöt enda nýttist hún ekki til neins og safnaði bara mosa. Fyrir framan húsið var hátt og fallegt furutré sem naut sín sérstaklega vel með jólaljósum á veturna en við misstum það því miður í einhverja lús eða sýkingu sem var leiðinlegt. En þá varð okkur ljóst að oft er gott að grisja því að eftir að grenitréð var fellt þá hefur silfurreynirinn breitt úr sér og er fallegri en nokkru sinni áður. Eins var orðið tvísýnt með það hvort Bjössi kæmist heill í gegnum enn eina loftfimleikana við að koma seríunni í furutréð,“ segir Aðalbjörg og hlær og bætir við að nágrannarnir hafi alltaf fylgst vel með því þegar serían var sett upp.

Garðurinn nær í kringum húsið og pallarnir eru stór hluti …
Garðurinn nær í kringum húsið og pallarnir eru stór hluti hans. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Börn í einni krónu og fleiri leikjum

„Það eru fimm hús í botnlanganum okkar og samsetning íbúanna hefur verið allskonar, þegar börnin okkar voru lítil voru fleiri krakkar hér, en svo kom tímabil þar sem börnin uxu úr grasi og allt varð rólegra. Núna eru nýir nágrannar með full hús af ungum börnum og það er ótrúlega gaman að fylgjast með þeim aftur að leik, þau eru hlaupandi um garðana í einni krónu og fleiri leikjum, svo er ótrúlega skemmtilegt að heyra bara skarkalann í börnum.“

Tjörnin í uppáhaldi og ekki

Garðurinn nær hringinn í kringum húsið og pallarnir eru stór hluti af honum. Þrjú setusvæði eru í garðinum, falleg tjörn og gosbrunnur ásamt brú og heitum potti og köldum potti. „Tjörnin var í garðinum þegar við keyptum húsið, hún er í miklu uppáhaldi en líka það sem maður þolir ekki því það er mikil vinna að „þrífa“ hana á vorin og stundum að halda henni sæmilegri á sumrin. En svo er alltaf jafn gaman að horfa á hana þegar hún er hrein og fín. Krakkarnir okkar notuðu hana endalaust í leikjum þegar þau voru yngri.“ Hún bætir við að fuglarnir sæki líka í tjörnina, sem sé skemmtilegt.

Þegar Aðalbjörg er spurð hvaða svæði sé mest notað í garðinum segir hún án þess að hika, heiti potturinn. „Hann er vinsælastur og við notum hann nánast allt árið. Hann var í raun það fyrsta sem við settum í garðinum þegar við fluttum hingað.“ Hún segir að fjölskyldan skipti þau miklu máli en svo stundi þau einnig golf af kappi. „Það er alveg yndislegt að geta farið í pottinn eftir golfhring með golffélögunum og svo erum við svo heppin að eldri börnin sækja í að koma hingað með vini og bjóða þá líka í pottinn. Hvort sem það er íslenskt gluggaveður eða bara sól og blíða. Okkur finnst ekkert skemmtilegra en að hafa hér allt fullt af ungu fólki að spjalla, hlusta á tónlist og sleikja sólina í pottinum.“ Hún segir að í raun sé garðurinn framhald af húsinu og þau séu mikið í garðinum, haldi oft veislur og boð og sitji úti jafnvel þótt ekki sé mjög heitt. „Við fengum okkur kaldan pott líka fyrir u.þ.b. tveimur árum, hann er mest notaður af yngsta syninum og Bjössa,“ segir hún og bætir við að hún noti hann helst ekki.

Þessir steinar voru lengi í sumarbústað tengdaforeldra Aðalbjargar. Þeir voru …
Þessir steinar voru lengi í sumarbústað tengdaforeldra Aðalbjargar. Þeir voru handmálaðir af Nönnu Einarsdóttur sem bjó í Stykkishólmi en er látin í dag. mbl.is/Hanna Ingibjörg

Margt gert til að hafa hlýtt í garðinum

„Það eru tveir rafmagnshitarar hér og svo erum við með eldstæði sem hægt er að kveikja upp í. Við keyptum líka skyggni yfir aðalsetusvæðið sem skýlir okkur fyrir rigningu og sól þegar það á við en við hugsuðum það líka til að halda varmanum frá lömpunum inni. Þegar við höfum haldið stórar veislur í garðinum höfum við fengið fleiri hitalampa lánaða en rákum okkur á að rafkerfið í húsinu ræður ekki við nema tvo því það slær reglulega út nema maður noti þvottavélainnstunguna. Mér finnst það skemmtilegasta við garðinn að halda veislur og taka á móti vinum og fjölskyldu. Ég elska líka að draga náttúruna enn meira inn í garðinn og skreyta með hvönn og lúpínu og öðru sem er í blóma í íslenskri náttúru.“

Héldu 100 manna útskrift í garðinum

Þau hafa haldið margar veislur í garðinum en hann kom sér sérlega vel þegar Aðalbjörg varð fimmtug í covid. „Eins og allir vita voru takmarkanir á samkomum á þessum tíma og þá kom garðurinn að góðum notum. Þegar Arnór, miðjubarnið okkar, útskrifaðist úr Listaháskólanum héldum við risaveislu enda hafði hann ekki gefið sér tíma til að halda afmæli eða útskriftir fram að því. Það komu um 100 manns í stórkostlegu veðri sem dreifðu sér um allan garðinn. Síðan þá höfum við skellt í útskrift fyrir yngsta soninn og þrítugsafmæli dótturinnar og kærastans hennar, garðurinn er því vel nýttur. Ég er svo heppin að eiga vinkonu sem er snillingur í skreytingum og hún hefur leiðbeint mér í því hvernig hægt er að stilla skemmtilega upp í garði fyrir veislur. Hún notar náttúruna, gærur og ljós, svo eru bara lopapeysur, teppi og hitararnir góðu út um allt þegar kalt er.“

Fljúgandi bíll inn í garðinn

Þann 10. júlí 2016 lentu þau í því að fá bíl inn í garðinn sem Aðalbjörg segir hafa verið mikið sjokk því honum hvolfdi með fullt af ungu fólki í en sem betur fer hafi enginn slasast alvarlega. „Það er eiginlega alveg ótrúlegt að enginn hafi slasast. Garðurinn skemmdist töluvert og við erum enn að reyna að fylla upp í skörðin sem mynduðust, það tekur sennilega nokkra áratugi að jafna sig. Mjög falleg fjallafura eyðilagðist, ein ösp og slatti af minni plöntum og auðvitað grindverkið allt.“

Alltaf einhver garðverk á döfinni

En garður sem þessi þarfnast stöðugs viðhalds og næsta mál á dagskrá sé að fjarlægja tvær aspir sem eru orðnar aðgangsharðar með rótarskotum hér og þar og þær skyggi á sólina. „Enginn vill skyggja á sólina ef við erum svo heppin að fá hana en okkur langar að reyna að finna vel þroskuð tré í staðinn eins og silfurreyni eða bara venjulegan reyni. Fyrir tveimur árum settum við trjákurl í öll beðin og það hjálpar mikið í að halda arfanum niðri, einfalt að reyta það sem kemur upp í gegn. Trjákurlið er líka mjög fallegt að horfa á svo ég get vel mælt með því.“

Ekki alltaf sammála um hvað á að fella

Sumarblómin eru komin í pottana en ætli þau setji alltaf sömu tegundir niður? „Við erum aldrei með eins en setjum alltaf niður í nokkra potta, stundum set ég líka sumarblóm í beðin og ég er til dæmis nýbúin að gróðursetja hortensíu sem ætti að lifa vel í sumar. Ég geri þetta bara svolítið eftir því hvað fæst í búðunum. Mér finnst erfiðast að finna réttar upplýsingar varðandi plöntur í allri upplýsingasúpunni sem núna er hægt að verða sér úti um á vefnum. Síðan er annað vandamál og það er að koma sér saman um hvað má og hvað má ekki grisja,“ segir hún kímin og bætir við að þau hjónin séu ekki alltaf sammála.

Gott að geta náð í kál og kóríander í garðinn

Hún segir að uppáhaldsplönturnar sínar í garðinum séu silfurreynirinn og burkninn en hún sé einnig að reyna að rækta matjurtir. „Ég er með eitt hólf sem ég gróðurset matjurtir í en það er helst kál og kryddjurtir. Í raun er þetta bara misjafnt eftir árum og hvað gekk vel sumarið áður. En mér finnst mjög þægilegt að geta skroppið út í garð til að ná í kál og kóríander. Í raun finnst mér garðavinnan skemmtileg og hún færir mér ró, það er ákveðin hugleiðsla að rækta og vera úti.“ Að lokum segist hún geta gefið þeim sem eru að byrja með garð eitt ráð og það er að gefa sér góðan tíma í vorhreingerningu, þá ætti að vera auðvelt að halda öllu við út sumarið. „Þá er bara hægt að njóta garðsins meira.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda