Elli Egilsson Fox listmálari er búsettur í Las Vegas ásamt eiginkonu sinni Maríu Birtu Bjarnadóttur Fox og tveimur dætrum þeirra sem þau ættleiddu. Hjónin eru einnig fósturforeldrar.
„Við erum að taka að okkur börn og hjálpa þeim. Við erum alltaf með tvö laus herbergi fyrir lítil kríli,“ segir hann.
Er ætlunin að vera áfram í Bandaríkjunum?
„Já, næstu ár en svo veit maður aldrei. Ég býst ekki við að við snúum aftur til Íslands en við komum jafnvel aðeins nær. Flórída er hátt á listanum hjá okkur, rakastigið er betra heldur en í miðri eyðimörk í Las Vegas. Það er allt of heitt og í rauninni oft viðbjóðslegt,” segir hann og hlær.
„En við erum ánægð og búin að koma okkur vel fyrir. Það er að sjálfsögðu erfitt að vera bara tvö með krílin, engin amma og afi en við erum orðin vön.”
Fjölskyldan flúði hins vegar hitann og er stödd um þessar mundir í íslensku rigningunni. Tilefnið er afhjúpun hátalara sem Elli hannaði fyrir Ormsson og danska fyrirtækið Bang & Olufsen.
Hvernig kom þetta til?
„Þetta kemur upphaflega frá Ormsson sem eru að sjá um þetta. Kjartan forstjóri og Hafsteinn, sem vinnur náið með þeim, voru staddir í Las Vegas á ráðstefnu. Þá langaði að kíkja á vinnustofuna til mín á málverk en eftir að við höfðum hangið þar bauð ég þeim að koma með mér á vindlastofuna sem ég er alltaf á. Það er svona rútína hjá mér að fara hvern einasta dag og reykja vindla,” segir hann.
„Allt í einu kom þessi hugmynd þegar við vorum komnir í hálfan vindil, að gera eitthvað saman. Ég var svo heppinn að fá þetta tækifæri.”
Bang & Olufsen fagna hundrað ára afmæli á árinu og má því segja að þetta sé afmælisútgáfa af hátalaranum. Hátalarinn sem um ræðir er A9 Beosound og er 75 sm í ummál.
„Ég málaði sérstakt verk sem er aðeins stærra. Það er prentað á efni, eða filmu, sem er sett yfir hátalarann. Svo er allt sérsniðið, hringurinn í kringum hátalarann og fæturna, það er eitthvað sem ég ákveð og vel.”
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir þig?
„Þetta er bara tækifæri. Það eru svona verkefni sem ögra manni. Ég er vanur að vinna á stirga og pappír að skissa. En ég er með grafískan bakgrunn og hef tekið að mér verkefni tengd þeirri list, hef hannað fatalínu fyrir H&M og gert mynstur fyrir japönsk fatafyrirtæki. Svo ég er með reynslu í svona verkefnum. En það sem þetta þýðir er bara tækifæri, algjör heiður í fyrsta lagi,” segir hann.
Hvernig hannar myndlistamaður hátalara?
„Ég merki aldrei málverkin mín að framan því ég vil að fólk kannist við verkin og þekki þau af stílnum mínum. Ég held ég sé kominn þangað. En ég málaði verk, fjallatopp að framan og það munu allir sjá að þetta er eftir mig. Ég fékk frelsi til að gera hvað sem er. Ég hefði getað gert Ódáðahraunstoppana mína líka en ég ákvað að hafa smá hlýleika til að passa við eikarlappirnar og svoleiðis. En ég vissi nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera þegar ég fékk þetta tækifæri, sá strax fyrir mér hvað myndi henta fyrir svona hringlaga hátalara,” svarar Elli.
Er það ekki draumur listamannsins, frelsið?
„Jú, algjört frelsi og að traustið sé til staðar. Mér var treyst fyrir að gera hvað sem er og ég held að strákarnir í Ormsson, þeir vissu að þeir væru að nálgast rétta manninn. Þeir vissu af reynslu minni í grafík og með því að vera vinsæll málari. Ég skila öllu 110% og þegar ég geri sérpantanir fyrir fólk og heimili þá hef ég fólk með mér í ferlinu. Ég leyfi fólki að hafa áhrif á litapallettuna með mér, stærð, hlutföll og sendi þeim skissu áður en ég byrja að mála.
Það eru ekki allir myndlistamenn sem gera þetta. Það getur verið svo mikið egó í okkur myndlistarfólki yfir höfuð, við ráðum og gerum það sem við viljum. Það er rebelismi í þessu. En mér finnst gaman að vinna með fólki.“