Hönnuðirnir Björg Gunnarsdóttir og Þórey Heiðarsdóttir komu sölutorginu Munir af stað fyrr á árinu. Þær kynntust fyrst þegar þær störfuðu saman hjá íslensku hönnunarversluninni Epal og komust að því að þær væru með sömu hugmyndir og hugsjónir.
Björg býr í fallegri íbúð í vesturbæ Reykjavíkur og flutti inn fyrir sextán árum síðan. Hún segist hafa haldið í sögu hússins og þar megi finna klassískar hönnunarvörur um alla íbúð.
„Það er kominn tími á eldhúsið en mér finnst það ótrúlega krúttlegt. Það er örugglega hundrað ára gamalt en ég væri alveg til í djúpar skúffur,” segir Björg.
„Mér finnst þessi íbúð svo sjarmerandi, björt og hlýleg og ég hef ekki gert mikið nema komið með einn og einn nýjan klassískan hlut.“
Margir af þeim klassísku hlutum og húsgögnum sem Björg hefur sankað að sér í gegnum tíðina eru dæmi um vörur sem myndu seljast vel hjá Munum. Munir er vefsíða eða sölutorg þar sem fólk getur selt og keypt hönnunarhúsgögn eða aðra innanhússmuni.
„Við höfðum lengi dáðst að því hvernig þetta er í Danmörku til dæmis og þeir eru svo duglegir að selja og kaupa notaða hluti. Þar er allt vel nýtt og hlutirnir þurfa ekki að vera fullkomnir,“ segir Þórey.
„Með þessari hugmynd vildum við líka fá fólk til að hugsa um að kaupa veglegri hluti. Þeir duga lengur og það er hægt að selja þá aftur, falla varla í verði ef vel er farið með. Þessir hlutir geta jafnvel farið á milli kynslóða. Okkur fannst vanta vettvang sem væri góður fyrir þessa endurnýtingu og þar með ýta undir þá hugsun,” bætir Björg við.
„Og að velja vel þegar maður kaupir eitthvað inn. Fjöldaframleidd húsgögn eiga yfirleitt aðeins einn eiganda og eru með 5-7 ára líftíma að meðaltali. Þessi húsgögn enda á haugunum eða í Góða hirðinum sem fær 7-10 tonn á dag sem er sorglegt því margt af því er ekki hægt að selja þar sem gæðin eru ekki nógu góð,” segir Þórey.
Þær segjast hafa kynnst gæðamiklum hönnunarvörum þegar þær störfuðu í Epal og lærðu að taka gæði fram yfir magn.
„Það hefur mikil umræða verið um fatnað að þessu leyti og áhersla á að kaupa ekki ódýru fötin, frekar í góðum gæðum,“ segir Þórey.
„Okkur fannst það vanta fyrir húsgögnin og litlu munina.“
Á vefsíðunni setur seljandinn inn myndir af vörunni og ef hún er samþykkt birtist hún á vefsíðunni í kjölfarið. Ef um minni hluti að ræða eins og glös eða borðlampa fer seljandinn með þá á afhendingarstað sem eru ákveðnar verslanir í Reykjavík og kaupandinn sækir vöruna þangað þegar hentar. Þetta þykir þægilegt fyrirkomulag að þeirra mati.
„Facebook getur til dæmis verið svolítil óreiða. Þar þarf að vakta grúppurnar og fylgjast rosalega vel með ef maður ætlar að ná gersemum. Hjá okkur sérðu strax hvað er í boði, kaupir strax til að tryggja þér vöruna og klárar málin hraðar. Svo eru seljendur ekki að fá fólk heim til sín nema þegar stærri húsgögn er um að ræða,” segir Þórey.
Hvernig tryggið þið að það sé verið að selja ekta vöru?
„Við getum aldrei gert það 100% en við biðjum alltaf um góðar myndir. Við höfum það góða þekkingu sjálfar og sjáum ef eitthvað er „off“, margir hlutir eru svo með stimplum eða plaggi og við reynum að gera okkar besta í því. En svo getur kaupandinn alltaf bakkað út, peningurinn er fyrst hjá okkur áður en hann fer til seljandans,” svarar Þórey.
„Þarna tryggjum við líka að það séu ekki nein svik,“ bætir Björg við.
„Viðskiptavinir geta líka vaktað ákveðna flokka á síðunni, ef einhver er á eftir loftljósi er hægt að vakta þann flokk og fá tölvupóst þegar ný vara bætist í hópinn. Það hefur verið mjög vinsælt,“ segir Þórey.
Vefsíðan hefur farið vel af stað en þetta er enn ástríðuverkefni að þeirra mati. Þegar börnin eru sofnuð á kvöldin taka þær upp tölvurnar og sinna því sem þarf.
„Það hefur gengið vel en við fáum auðvitað ekki háa prósentu af þessu. Við erum í raun auglýsingaleggurinn og erum ekki orðnar milljónamæringar, enn þá,“ segir Björg og hlær.
Hverjir eru helst að nýta sér þetta?
„Þetta eru kannski tveir hópar. Seljendurnir eru fólk sem er að minnka við sig, flytja eða breyta til og kaupendurnir yngra fólk sem er að leita sér að hönnunarvöru á betra verði. Það hafa margir beðið eftir svona vettvangi,“ segir Þórey.
Og hvað er fólk helst að kaupa?
„Ljós hafa verið vinsæl og stoppa stutt á síðunni. Stólar og smávörur fara einnig hratt. Svo eru vörur eins og Flowerpot-lampinn, ljós frá Louis Poulsen og múmínálfabollarnir sem fara alltaf,“ segir Björg.
„Við erum líka með retro-vörur eins og tekkvörur því þær eru mjög vandaðar. Það hefur komið á óvart hvað þær hafa farið hratt.“
Seljandinn ákveður verðið á vörunni en þær hafa líka verið að ráðleggja fólki. Ef varan selst ekki er hægt að lækka verðið.
Hvert er markmiðið?
„Við viljum að þetta verði spennandi vettvangur fyrir kaupendur til að leita að gersemum og fyrir seljendur að auðvelda allt þetta ferli,“ segir Þórey.
„Falleg, traust og spennandi vefsíða þar sem fólk veit hvað það er að fá. Það þarf ekki alltaf allt að vera nýtt,” segir Björg.
Finnst fólki heillandi að varan sé notuð?
„Sumum finnst það meiri sjarmi. Það sér oftast ekki á þessum hlutum en Íslendingar eru duglegir að skipta út og þá er varan eins og ný. Ætli mörgum finnist ekki gaman að finna gersemar og hafa fundið nýtt áhugamál í því,“ segir Björg.
„Yngra fólkið er líka að hugsa um umhverfið og vill vita hvaðan varan kemur. Nýir hlutir eru orðnir dýrir og stórt fótspor að flytja allt á þessa eyju,“ segir Þórey.
„Mörgum finnst erfitt að kaupa nýtt. Svo eru líka aðrir sem vilja láta hlutina í hringrásina í stað þess að þeir endi í einhverri geymslu. Foreldrar mínir eru til dæmis að flytja, eru að minnka við sig og þeim finnst þetta geggjað. Þau setja vörurnar inn og bíða bara róleg. Þetta er fólk sem er með tengingu við hlutina og vill að þetta fari á góðan stað,“ segir Björg.