Viðskiptamennirnir og félagarnir, Pétur Árni Jónsson og Sveinn Biering Jónsson, hafa fest kaup á sumarhúsi við Þingvallavatn. Húsið er glæsilegt í alla staði en um það var fjallað á Smartlandi í vor þegar hjónin Anna Margrét Jónsdóttir og Árni Harðarson settu húsið á sölu. Árni er aðstoðarforstjóri Alvogen og Anna Margrét ferðamálafræðingur og fegurðardrottning.
Um er að ræða 219 fm hús sem reist var 1941. Upprunalega húsið var hannað af Guðmundi Kr. Guðmundssyni arkitekt. Árið 1989 var byggt sérstakt baðhús á lóðinni sem stendur enn en síðan þá hefur verið bætt við gestahúsi og svo er líka bátaskýli á lóðinni. Steinunn Eik arkitekt hannaði veröndina sem prýðir garðinn en hún tengir saman húsin á lóðinni.
Í aðalhúsinu er nýleg innrétting frá danska hönnunarfyrirtækinu Vipp. Innréttingarnar eru úr súkkulaðibrúnni eik og með kampavínslituðum marmara á eyjunni. Upphaflega var Vipp fyrirtæki sem framleiddi stálheiðarlegar ruslatunnur en síðasta áratuginn hefur fyrirtækið vaxið í átt að nútímafólki sem vill hafa það gott.
Pétur Árni og Sveinn greiddu 185.000.000 kr. fyrir húsið.
Anna Margrét keypti í framhaldinu annað hús við Þingvallavatn á 180.000.000 kr.
Smartland óskar Pétri Árna og Sveini til hamingju!