„Ég hef þörf á því sem hönnuður að endurnýja mig reglulega og finna upp á nýjum leiðum til að vera skapandi,“ segir vöruhönnuðurinn Anna Þórunn Hauksdóttir. Það var á HönnunarMars árið 2024 sem hún frumsýndi þrjá nýja hluti ásamt sýningarstöplum úr steypu sem eiginmaður Önnu Þórunnar gerði fyrir hana.
„Ég hafði verið að skoða hugtakið bylgjur í mjög víðu sambandi. Mér finnst þetta hugtak mjög spennandi en allt sem til er gefur frá sér misjafnar bylgjur eða orku. Við erum einnig í ákveðnu heilabylgjuástandi eftir hvernig okkur líður. Ég ákvað að vinna að þremur hlutum og vera meðvitum í hvaða heilbylgjuástandi ég væri í meðan ég væri að vinna að hlutunum. Það hljómar kannski smá nördalegt en ég vil að hlutirnir mínir hafi einhverja merkinu eða sögu á bak við sig,“ segir hún.
Waves-hliðarborðið og Waves of Emotion-skálin voru unnin í Beta-heilabylgjuástandi að sögn Önnu Þórunnar.
„Í því ástandi veit maður 100% hvað maður er að gera og hvað maður vill. Loka niðurstaðan eða útkoman er mjög skýr og enginn efi. Prótótýpan af skálinni var unnin í leir með aðeins helmingnum af lófanum en það tók mig tíu mínútur að gera skálina. Þennan hlut sendi ég síðan til framleiðanda míns í Kína þar sem hann var skannaður og tölvufræstur í við,“ segir hún.
„Ég er ástfangin af þessari skál og hef einnig fengið hana í marmara. Ég stefni á að framleiða hana á næsta ári.“
Mót var gert fyrir bylgjur borðsins sem minnir á bárujárn en aðeins grófara. Borðið er komið á markað í króm-útgáfu. Þriðji hluturinn er kertastjaki sem var unninn í leir án allra áhalda.
„Þarna var ég í Alfa-heilabylgjuástandi þar sem ég naut mín og tók mér meiri tíma að vinna að hlutnum. Ég komst í einhvers konar hugleiðsluástand og þar af leiðandi í magnað flæði, enda heitir stjakinn Flow. Hann er kominn á markað í Athen Gold-marmara og er unninn eins og viðar- og marmaraskálin,“
„Hönnun er mín ástríða í lífinu og ég vona að fólk tengi við hlutina mína og fjárfesti í íslenskri hönnun,“ segir hún.
My Hvítserkur er einnig nýr keramikvasi sem er unnin út frá Hvítserki.
„Það er brimsorfinn klettur sem er staðsettur í Vestur-Húnavatnssýslu en þaðarn er föðurfjölskylda mín. Þangað hef ég komið síðan ég man eftir mér og eigum við ásamt stórfjölskyldu minni býli forfeðra minna í Víðidalnum.“