Athafnamaðurinn Anton Kristinn Þórarinsson, sem oftast er kallaður Toni, hefur fest kaup á einbýlishúsi í Arnarnesi.
Um er að ræða 356,4 fm einbýlishús sem teiknað var af Kjartani Sveinssyni og reist 1985. Þessi hús sem Kjartan teiknaði á níunda áratugnum eru oft og tíðum kölluð rjómatertuhús. Þau búa yfir ákveðnum glamúr og stemningu sem var ríkjandi í heiminum á þeim tíma sem Dallas-þættirnir voru vinsælir. Í húsunum sem eru á tveimur hæðum eru oft stórir hringstigar eins og voru á Southfork, búgarði Ewing-fjölskyldunnar í Dallas-þáttunum.
Þegar þessi hús voru byggð eitt af öðru í Arnarnesinu á áttunda og níunda áratugnum þótti ekkert fínna en að búa í svona húsi. Ef þú bjóst í svona húsi þá varstu að gera eitthvað rétt í lífinu.
Anton keypti húsið 29. september, eða sama dag og Þórarinn Arnar Sævarsson festi kaup á Haukanesi 24, sem var í eigu Antons. Húsið við Haukanes 5 er þó ekki tekið upp í Haukanes 24 heldur fór af stað önnur fasteignalest.
Fyrst seldi Þórarinn Haukanes 5 til félagsins Gullsmára ehf. sem Sigrún Bjarnadóttir er í forsvari fyrir. Í beinu framhaldi seldi Gullsmári ehf. húsið til Antons á 259.000.000 kr.
Húsið var afhent 1. október.
Smartland óskar Antoni til hamingju með húsið!