Sýning norræna skálans á heimssýningunni í Osaka í ár var nýlega verðlaunuð sem besta heildarsýning og upplifun á Iconic-verðlaununum sem veitt eru árlega í Þýskalandi. Þetta eru önnur verðlaunin sem sýningin hlýtur í haust.
Íslenska hönnunarstofan Gagarín, danska hönnunarstofan Kvorning og norsk-íslenska arkitektastofan Rintala Eggertsson hönnuðu sýninguna í norræna skálanum.
„Verðlaunin koma ánægjulega á óvart. Expo-verkefnið var bæði skemmtilegt og krefjandi, sérstaklega þar sem viðskiptavinurinn var í raun fimm þjóðir og umfang skálans öllu minna en hjá stóru þjóðunum,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Gagarín í fréttatilkynningu.
Fyrr í haust hlaut skálinn gullverðlaun í flokknum „Best Exhibit/Display“ á World Expolympics. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi útfærslur í nýsköpun og upplifunarhönnun á heimssýningunni en þar eru 193 sýningar.
Iconic-verðlaunin eru tileinkuð framúrskarandi arkitektúr, heildar innanhússhönnun, upplifun og frumlegum verkum á hverju ári. Aðalverðlaun hátíðarinnar fengu að þessu sinni Lina Ghotmeh arkitekt, sem hélt fyrirlestur á DesignTalks í Hörpu síðasta vor, Lucas Muñoz Muñoz innanhússhönnuður, barnaspítalinn í Zürich, Mariam Issoufou arkitekt og námsver í tækniháskólanum í Braunschweig.
„Á gólfinu erum við með níu gagnvirkar stöðvar með smásögum þar sem við fjöllum um hvað Norðurlöndin eru að gera til að stuðla að betri framtíð. Við erum með þessi markmið í loftslagsmálum, við erum að gera þetta varðandi sóun, lífsgæði og við erum að kynna þessa hugmynd um það sem Norðurlöndin eiga sameiginlegt og hvernig þau hafa unnið saman í áratugi að því að skapa eitt samþættasta svæði veraldar,“ sagði Kristín Eva í viðtali við Smartland um sýninguna í vor.