Við Rauðalæk í Reykjavík er falleg 172 fm íbúð til sölu. Íbúðin vekur athygli fyrir þær sakir að litavalið innan íbúðarinnar er einstaklega skemmtilegt. Veggirnir eru málaðir í ljósbrúnum lit og virðist eins og aðrir litir séu valdir inn gaumgæfilega.
Eigendur íbúðarinnar eru þau Skúli B. Geirdaln grafískur hönnuður og Karlotta Halldórsdóttir hagfræðingur. Þau eru stofnendur hönnunarstúdíósins R57 en fyrirtækið varð einmitt til í íbúðinni.
„R57 byrjaði sem lítil sæt hugmynd í eldhúsinu okkar á Rauðalæk 57 um að stofna hönnunarstúdíó sem leggur áherslu á hönnun sem bætir það umhverfi sem við búum í og gefur af sér,“ sagði Karlotta í viðtali við Smartland árið 2022.
Íbúðin er mikið endurnýjuð efri sérhæð með tvennum svölum og góðu útsýni. Íbúðinni fylgir herbergi í kjallara með sér baðherbergi og eldunaraðstöðu ásamt bílskúr sem hefur verið innréttaður sem íbúð. Báðar þessar einingar eru í útleigu.
Þrjú svefnherbergi eru innan íbúðar. Gott flæði er á milli eldhúss, borðstofu og stofu sem er í einu björtu alrými. Nýlegt harðparket er á gólfum. Úr stofunni er gengið út á stórar svalir sem ná yfir tvær hliðar hússins.