„Við vorum tilbúin að prófa eitthvað nýtt“

Árný Fjóla segir fjölskyldunni líða vel á nýja heimilinu.
Árný Fjóla segir fjölskyldunni líða vel á nýja heimilinu. mbl.is/Eyþór

Það þarf vart að kynna tónlistarhjónin Daða Frey Pétursson og Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur fyrir landsmönnum, enda eru þau sannkallaðar stjörnur í íslensku tónlistarlífi. Þau hrifu bæði íslensku þjóðina og heiminn ásamt restinni af Gagnamagninu með laginu Think About Things árið 2020. En eins og glöggir muna var lagið framlag Íslands í Eurovision það árið sem keppninni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Hjónin og meðlimir Gagnamagnsins létu þó ekki deigan síga heldur kepptu árið eftir og lentu þá í fjórða sæti með laginu 10 Years.

Nú eru Daði Freyr og Árný Fjóla nýflutt heim til Íslands, nánar tiltekið til Hveragerðis, eftir rúmlega áratuga búsetu í Berlín.

Í tilefni flutninganna sló blaðamaður á þráðinn til Árnýjar Fjólu til að forvitnast um nýja heimilið og hvað það er sem að hennar mati gerir hús að heimili. Þegar samtal okkar átti sér stað var Daði Freyr á tónleikaferðalagi erlendis.

Daði & Gagnamagnið slógu í gegn í Eurovision.
Daði & Gagnamagnið slógu í gegn í Eurovision. Ljósmynd/AFP

En áður en við förum að kafa í meginatriðin er gott að kynnast Árnýju Fjólu ögn betur.

„Já, þegar stórt er spurt! Ég er 34 ára, gift og tveggja barna móðir. Ég er algjör fiskur — skapandi og með ríkulegt ímyndunarafl, sannkölluð fjöllistakona. Ég er listmálari, sveita- og náttúrubarn og hef mikinn áhuga á fólki og alls kyns ræktun.

Ég var leiðsögukona í Berlín og fór meðal annars með fólk í sælkera- og söguferðir með fyrirtækinu Berlínur. Ég elska að elda og uppgötva nýjar uppskriftir, dýrka að vera móðir og fylgjast með börnunum okkar þroskast og læra. Nú starfa ég á leikskóla hér í Hveragerði. Já, þetta er ég í hnotskurn,“ segir hún.

Árný Fjóla elskar að hafa litríkt í kringum sig.
Árný Fjóla elskar að hafa litríkt í kringum sig. mbl.is/Eyþór

Og þá að flutningunum og nýja húsinu.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að flytja heim?

„Helsta ástæðan var sú að eldri dóttir okkar var orðin sex ára og átti að byrja í grunnskóla. Við höfðum eiginlega ákveðið, þegar hún fæddist, að flytja heim einhvern tímann áður en það kæmi að því. Þegar sá tími rann upp vorum við bæði tilbúin.

Við bjuggum í um ellefu ár í Berlín. Það var mjög góður tími en við vorum tilbúin að prófa eitthvað nýtt.“

Leitin að draumaheimilinu

Árný Fjóla og Daði Freyr voru byrjuð að skoða hús til sölu í Hveragerði tæpum þremur árum áður en þau keyptu sér draumaeignina.

„Já, þetta byrjaði bara rólega. Við tókum okkur góðan tíma í að skanna öll húsnæði sem voru í boði í Hveragerði, það tók okkur rúm tvö ár. Rétt um ári áður en við fluttum heim fórum við að hafa samband við fasteignasölur og svo sumarið áður en við fluttum skoðuðum við helling af húsum. Við nýttum einnig jólafríið okkar í það og það var þá sem við rákumst á húsið okkar.“

Heimili hjónanna er bjart og fallegt.
Heimili hjónanna er bjart og fallegt. mbl.is/Eyþór

Voruð þið að leita að einhverju sérstöku, stærð, staðsetningu eða öðru?

„Hveragerði varð fyrir valinu sem eins konar millilending milli borgar og sveita. Hér er stutt í alla þjónustu, hægt að skreppa í bjór og bakarí, en samt er þetta lítill, hlýlegur og rólegur bær.

Foreldrar okkar beggja og fleiri fjölskyldumeðlimir búa í um 40 mínútna akstursfjarlægð, sem var auðvitað líka hluti af ákvörðuninni. Við vorum spennt að vera nær þeim, geta fengið pössun og notið meiri samvista.

Svo er líka stutt í borgina og út á flugvöll, sem er afar hentugt fyrir tónlistarfólk.“

„Hvað húsnæðið varðar þá vorum við með frekar þröngan ramma. Í fyrsta lagi vildum við hús – hús þar sem við ættum alla útveggi og glugga í allar áttir. Lágmark þrjú svefnherbergi, ekki of lítið en samt á viðráðanlegu verði.

Garður var líka algert forgangsatriði fyrir mína grænu fingur. Og svo skipti okkur miklu máli að hafa bílskúr eða vinnurými, helst frístandandi. Það er hugsað sem stúdíó fyrir tónlist Daða og ýmis föndurverkefni okkar. Daða fannst líka tilhugsunin um að þurfa að fara út til að fara í vinnuna mjög mikilvæg, þó svo hann væri í raun að vinna heima.“

Mikil birta og margir gluggar voru á óskalistanum hjá fjölskyldunni.
Mikil birta og margir gluggar voru á óskalistanum hjá fjölskyldunni. mbl.is/Eyþór

Hvað heillaði þig/ykkur mest við nýja húsið?

„Staðsetningin í bænum var það fyrsta sem heillaði okkur. Við erum í rólegri, snyrtilegri og vel gróinni götu. Húsið sjálft er af passlegri stærð fyrir fjölskylduna okkar – ekki of stórt, ekki of lítið – og bílskúrinn er frístandandi og hálfinnréttaður, sem hentar okkur fullkomlega.

Garðurinn er líka stór plús; ágætlega rúmgóður, með palli og heitum potti.“

Að mörgu að huga

Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar maður flytur á milli landa og segir Árný Fjóla það hafa á tímum reynst yfirþyrmandi að komast yfir allt sem þau þurftu að gera.

„Já, þetta var heljarinnar verkefni – enda er að mörgu að huga þegar maður flytur milli landa eftir ellefu ára dvöl og tveimur börnum ríkari. Við þurftum að sinna alls kyns skriffinnsku, meta verðmæti búslóðar, selja og/eða gefa það sem fór ekki með, færa lögheimili, pakka, mála, skrásetja allar eignir og margt, margt fleira – listinn var á köflum alveg yfirþyrmandi.

Við fengum gám hjá Eimskip sem kom heim að dyrum í Berlín og var fluttur heim að dyrum í Hveragerði, mjög þægilegt. Það þurfti sérstakt leyfi til að leggja gámabílnum í stæði í götunni okkar í Berlín, og sækja þurfti um það sex vikum fyrir flutning. Fjórum dögum áður þurftum við svo að setja upp skilti í götunni til að láta alla nágranna vita.

Á flutningsdegi var kominn bíll í umrætt stæði og þurfti ég þá að hringja í lögregluna (á þýsku!) til að láta draga bílinn og leggja fram þar til gerða pappíra sem ég hafði sem betur fer útvegað fyrir fram. Það var hressandi reynsla í reynslubankann.“

Það fyrsta sem Daði Freyr og Árný Fjóla gerðu á …
Það fyrsta sem Daði Freyr og Árný Fjóla gerðu á nýja heimilinu var að taka penslana fram og mála. mbl.is/Eyþór

Árný Fjóla segir að umfang pappírsvinnunnar hafi komið sér einna mest á óvart í flutningsferlinu.

„Ég átti ekki von á svona mikilli pappírsvinnu – hún tók svakalegan tíma! Það kom mér líka á óvart hversu miklu dóti okkur hafði tekist að sanka að okkur og ekki síður hversu mörgu góðu fólki við höfðum kynnst í Berlín. Við tókum reyndar alltof mikið af dóti með okkur – hluti sem við höfum í raun ekkert notað og eru enn í geymslu.“

Berlín kvödd með söknuði

Það er oft erfitt að kveðja fallegan stað sem hefur um árabil verið manni kær. Hvernig gekk að kveðja gamla heimilið?

„Við héldum alveg nokkur kveðjupartí til að kveðja alla vinina. Það var mjög erfitt – og ákveðin hræðsla fylgdi því að fara úr því samfélagi sem við vorum búin að byggja okkur upp í Berlín.

Hvað húsnæðið varðar þá voru margir gallar á því: rifrildi við húsfélagið, leki, lagfæringar og möguleg mygla. Þannig að við söknum íbúðarinnar í Wedding ekki mikið, þótt hún hafi haft sinn sjarma. Hún var í hundrað ára gömlu húsi, uppgerðu hesthúsi, sem var mjög fallegt. Við höfðum aðeins búið þar í þrjú ár – við fluttum nokkuð reglulega á milli íbúða í Berlín.“

Hvers saknarðu mest við gamla heimilið?

„Stóru „terrassunnar“ okkar á efri hæðinni, sem var ofan á þakinu. Þar var svo fallegt og við ræktuðum tómata þar allt sumarið. Að búa á tveimur hæðum var líka sjarmerandi. Þetta var svo góð samkvæmisíbúð og við vorum oft með vini í heimsókn í alls kyns hittingum – ég sakna þess mikið.“

Heimilið er fullt af fallegum og persónulegum munum.
Heimilið er fullt af fallegum og persónulegum munum. mbl.is/Eyþór

„Frílandið“ Ísland

Árný Fjóla og Daði Freyr eiga tvær ungar dætur sem voru spenntar að flytja heim til þess sem þær kalla „frílandið“.

„Þær voru mjög glaðar og spenntar. Fyrir þeim var Ísland líka einhvers konar fríland, þar sem við vorum oftast hér í páska-, sumar- eða jólafríum. Við eigum líka svo stórar og samheldnar fjölskyldur sem var gott að komast til. En þegar skólar og leikskólar komust á skrið þá fór annar raunveruleiki af stað – en þær eru samt mjög glaðar með þetta allt saman.“

„Við sváfum bara á dýnum“

Árný Fjóla og Daði Freyr biðu í tvær vikur eftir búslóðinni en völdu samt að flytja strax inn.

„Við sváfum bara á dýnum og fengum lánuð nokkur eldhúsáhöld. Eftir um það bil tvo mánuði vorum við búin að koma okkur ágætlega fyrir og búin að taka upp úr flestum kössum. Við eigum reyndar enn eftir að taka upp úr nokkrum en ég efast um að við gerum það nokkurn tímann. Það er bara eitthvað dót sem við þurfum ekkert á að halda.“

Pez-kalla safnið setur skemmtilegan svip á heimilið.
Pez-kalla safnið setur skemmtilegan svip á heimilið. mbl.is/Eyþór

Hvað var það fyrsta sem þú keyptir eða gerðir til að gera nýja húsið að heimili?

„Við máluðum allt húsið að innan og settum fallega liti í hvert rými. Það gerði húsið svo miklu meira að okkar eigin heimili.

Annað sem skipti miklu máli var þegar við settum upp Pez-kallasafnið okkar. Það er mjög einstakt – og er í hröðum vexti um þessar mundir. Daði bað aðdáendur okkar um að gefa sér Pez-kalla á tónleikunum og hann kemur sennilega heim með rúmlega hundrað til viðbótar. Við höfum líka fengið gefins kalla hér heima frá fólki í nágrenninu, svona eftir að þetta fór að spyrjast út.“

Safnið samanstendur af Pez-köllum í öllum regnboganslitum.
Safnið samanstendur af Pez-köllum í öllum regnboganslitum. mbl.is/Eyþór

„Ég sé það alveg fyrir mér

Árný Fjóla og Daði Freyr eru með ótal skemmtilegar hugmyndir fyrir heimilið og eru spennt að fara í framkvæmdir.

„Já, strax og Daði kemur heim úr tónleikaferðalagi í lok mánaðarins ætlum við að breyta bílskúrnum í stúdíó – þar verður allt rifið út og settir upp nýir veggir og salerni.

Þegar það verður búið, vonandi fyrir næsta sumar, þurfum við að endurnýja þakkantinn og mála húsið að utan. Þá langar okkur líka í sánuhús og nýjan pott. Lítið gróðurhús í garðinum væri líka draumur – ég sé það alveg fyrir mér!

Við erum með alls konar plön og hugmyndir, svo sjáum við bara hvort þetta verður ekki allt að veruleika með tíð og tíma. En það er svo gott og gaman að vera með háleit markmið.“

Aðspurð hvaða rými sé í mestu uppáhaldi segir Árný Fjóla það vera stofuna.

„Stofan er í mestu uppáhaldi. Hún er mest tilbúin og þar eigum við ótal notalegar samverustundir. Við dúllum okkur mikið þar.“

Á heimilinu ríkir rólegt og notalegt andrúmsloft.
Á heimilinu ríkir rólegt og notalegt andrúmsloft. mbl.is/Eyþór

Hvernig líður ykkur á nýja staðnum?

„Okkur líður mjög vel á nýja staðnum. Við erum með góða nágranna og gott samfélag. Við finnum aðeins fyrir auknum hraða, eins og gengur og gerist í íslensku samfélagi, en það er eitthvað sem við bjuggumst við – og fylgir því kannski að vera komin með eldri börn.“

Alltaf eitthvað í bígerð

Er líklegt að þið flytjið aftur erlendis?

„Já, það gæti vel verið að við flytjum aftur erlendis einhvern tímann, en þá sennilega bara í stuttan tíma.

Svona rétt í lokin, hvað er fram undan hjá Daða Frey, Árnýju Fjólu og fjölskyldu?

Við erum með svo margar hugmyndir – bara alltaf! Þær tengjast alls konar sköpun og framleiðslu. Við erum með eina stóra hugmynd á frumstigi sem við ætlum að kýla á bráðlega. Ég fer ekki nánar út í það núna en hún snýr að svolítið öðruvísi framleiðslu en við höfum verið að gera.

Tónlistin verður samt áfram stór hluti – sem og myndbandagerð og alls kyns uppákomur.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda