Pétur Kristján Hafstein lögfræðingur, fyrrum hæstaréttardómari og forsetaframbjóðandi hefur sett glæsilega íbúð við Ægisíðu á sölu. Pétur á þriðjungshlut í íbúðinni á móti eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ástu Hafstein, og syni þeirra Pétri Hrafni Hafstein. Íbúðin hefur verið í eigu þeirra þriggja síðan 2012. Þegar þau festu kaup á íbúðinni var Rut Káradóttir innanhússarkitekt ráðin í vinnu og sá hún um að endurhanna íbúðina.
Pétur Kristján bauð sig fram til embættis forseta Íslands 1996 og varð í öðru sæti á eftir Ólafi Ragnari Grímssyni sem gegndi embættinu til 2016.
Íbúðin við Ægisíðu er 270 fm að stærð og sérlega glæsileg. Fallegir gluggar prýða íbúðina og er útsýni út á Atlantshaf og yfir til Bessastaða.
Gunnar Ólafsson arkitekt teiknaði húsið sem var reist 1953. Húsið hefur fengið gott viðhald í gegnum tíðina og er garðurinn í kringum húsið vel hirtur.