Smíðaði hillur í stofuna ásamt manninum sínum

Hönnuðurinn Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir býr ásamt manninum sínum, Jóni Trausta Kárasyni, í fallegu raðhúsi í Hvassaleitinu. Hann er verkfræðingur og járnsmiður og segist Ingibjörg Hanna hafi fallið fyrir því að hann væri járnsmiður. Það getur nefnilega verið gott fyrir hönnuði að hafa fólk í nærumhverfi sínu sem hefur verkvit og getur framkvæmt hlutina.

Þau festu kaup á húsinu í fyrra og hafa síðan þá gert það upp smátt og smátt. Þau leyfðu panilklæddum loftum að halda sér og líka stigahandriðinu. 

Á heimilinu er hverjum hlut komið fyrir á heillandi hátt en í stofunni má sjá hillur sem þau sambýlisfólkið smíðuðu saman. 

„Við smíðuðum þessar bókahillur saman. Þegar ég kynnist honum, þá vissi ég ekki að hann hefði lært járnsmíði áður en hann fór í verkfræði. Áður hefði maður kannski snobbað fyrir verkfræðinni en það var járnsmiðurinn sem heillaði mig,“ segir hún. 

mbl.is