Ásdís Rán og Jói Fel á toppnum

Ásdís Rán og Jói Fel voru bæði gestir Heimilislífs.
Ásdís Rán og Jói Fel voru bæði gestir Heimilislífs. Ljósmynd/Samsett mynd

Þættirnir Heimilislíf hófu göngu sína á Smartlandi vorið 2017. Í tilefni af 10 ára afmæli Smartlands Mörtu Maríu ætlum við að rifja upp vinsælustu Heimilislífs-þættina frá upphafi. 

Það kemur kannski ekki á óvart að Ásdís Rán Gunnarsdóttir fyrirsæta er í toppsætinu en hún var heimsótt 2019 þegar hún bjó í íbúð í 101 Reykjavík. Ásdís Rán býr nú í Búlgaríu og eins og Smartland greindi frá á dögunum þá er hún komin á fast með gömlum vini. 

Árið 2019 var Jói Fel bakari og myndlistarmaður heimsóttur. Hann var þá nýlega búinn að festa kaup á einbýlishúsi í Garðabæ. Jói var upp á sitt besta í þættinum og lék á als oddi og sýndi „karlahellinn“ sinn sem margir karlar öfunda hann af. 

Árið 2018 var Friðrik Ómar Hjörleifsson heimsóttur en þá var hann nýlega skilinn við fyrri maka og búinn að koma sér sérlega vel fyrir í fallegri íbúð í miðbænum. Nú er hann hins vegar fluttur norður í land en í fyrra var sagt frá því á Smartlandi að fína íbúðin hans væri komin á sölu. 

Þjóðin dýrkar Egil Ólafsson og þegar hann var gestur Heimilislífs var mikið horft. Á þessum tíma 2018 voru Egill og eiginkona hans, Tinna Gunnlaugsdóttir, nýlega flutt í fantaflotta íbúð við sjóinn eftir að hafa búið í sama húsinu í 37 ár. 

Leikstjórinn Benedikt Erlingsson yfirgaf 101 Reykjavík og flutti tímabundið í Mosfellsbæ. Árið 2018 var hann heimsóttur í dásamlegt hús sem hann og fjölskylda hans bjuggu í á þeim tíma. Hann segir í viðtalinu að hann hafi orðið fyrir mjög miklu einelti þegar hann flutti út í sveit en hann er nú fluttur aftur heim eða í 101 Reykjavík þar sem hann unir sér við leik og störf. 

Sesselja Thorberg sem rekur hönnunarfyrirtækið Fröken Fix keypti hús í Vesturbænum og gerði upp. Hún segir í viðtali í Heimilislífi 2020 að þetta verkefni hafi tekið gríðarlega á og játaði að þau hjónin hafi nánast ekkert sofið í þrjá mánuði. 

Agnes M. Sigurðardóttir flutti í bæinn þegar hún tók við embætti biskups Íslands. Hún segir að það hafi verið töluverð viðbrigði að flytja í bæinn. Hún býr ein í miðbænum en hún hefur ekki farið í annað ástarsamband eftir að hjónabandi hennar lauk fyrir um 20 árum. 

Listamaðurinn Hallgrímur Helgason býr ásamt fjölskyldu sinni í huggulegri íbúð í 104 Reykjavík. Það myndu kannski einhverjir segja að það væru helgispjöll þar sem hann skrifaði bókina 101 Reykjavík. Hann játaði það í viðtalinu að hafa elt ástina sína en hún vildi frekar búa í 104 en 101. 

Þjóðin heldur mikið upp á Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur. Hún er ekki bara fréttamaður heldur sérlega góður kokkur og hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur sem hafa hjálpað landsmönnum að gera betur í eldhúsinu. Hún hefur búið í húsinu í rúm 20 ár og alið þar upp fjögur börn. Heimili Jóhönnu Vigdísar er fullt af ást og listaverkum og í eldhúsinu er aldrei eldaður vondur matur. 

Sölvi Tryggvason var gestur Heimilislífs 2019. Heimili hans er heilsusamlegt og laust við allt óþarfa prjál. Hann er með jógadýnur á gólfinu og líkamsræktartæki í stað hefðbundins sófasetts. 

mbl.is