Hafa elskað hvort annað í 37 ár og búa í draumahúsinu á Selfossi

Hjónin Theodór Francis Birgisson og Katrín Katrínardóttir eru lífsglöð og skemmtileg. Þau hafa búið sér notalegt heimili á Selfossi sem er bæði heimili þeirra og vinnustaður. Þau vinna bæði sem ráðgjafar hjá Lausninni en Katrín málar litríkar myndir og sýning á verkum hennar stendur yfir í Grásteini. 

Hjónin hafa gengið í gegnum súrt og sætt og eru ekki hrædd við að segja frá því. Hann er rómantíski aðilinn í sambandinu á meðan hún er þessi sem fellur fyrir rándýrum stól úr Snúrunni eða breytir heimilinu reglulega það mikið að Theodór veit ekki hvort hann er að koma eða fara. 

Bankahrunið hafði áhrif á fjölskylduna og segir Theodór frá því að þau hafi tapað öllum veraldlegum eigum. Það hafi því verið mikil gæfa þegar þau náðu að festa kaup á þessu notalega einbýlishúsi á Selfossi. 

Katrín segir frá því að samhliða því að vinna við það að hjálpa öðrum hafi hún sjálf gengið í gegnum mikla sjálfsskoðun. Hún missti pabba sinn þegar hún var lítil og samhliða því missti hún eiginlega mömmu sína líka því hún varð svo dofin þegar eiginmaður hennar féll frá. Katrín áttaði sig lengi vel ekki á því að þetta væri að hafa áhrif á líf hennar fyrr en hún var um þrítugt. 

Þegar Theodór er spurður að því hvernig fólk fari að því að elska hvort annað í 37 segir hann að fólk þurfi að taka ákvörðun. 

„Veldu þann sem þú ætlar að vera með og vertu svo með honum,“ segir hann í þættinum.

HÉR er hægt að skoða listaverkin hennar Katrínar.  

mbl.is