Lofar að hætta að reykja 2018

Einar Ágúst jólaði sig í gang í ár og gaf …
Einar Ágúst jólaði sig í gang í ár og gaf út jólalag. ljósmynd/Gassi

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst Víðisson segist hafa átt svolítið erfitt yfir jólin og hátíðirnar. Í ár ætlar hann hins vegar að hafa það gott um jólin og var að gefa út sitt fyrsta sóló jólalag, Tendrum minningar

„Myrkrið og stressið fer illa í mann sem hefur ofsakvíða og þunglyndi sem förunaut. Í ár ákvað ég að jóla mig í gang og gera jólalag og taka svolítið vel á því að láta ekki yfirborðskenndina sem einkennir þennan tíma hafa áhrif á mig og mitt líf. Ég hef passað mig að hafa bara yfirdrifið nóg að gera á þessum tíma og þá er allt í gúddí eins og maður segir,“ segir Einar Ágúst. 

Er allt klappað og klárt fyrir jólin? 

„Það á eftir að kaupa tvær til þrjár gjafir en annars jú, allt klárt nema kannski maturinn. Það á aðeins eftir að versla en nægur tími til stefnu þannig að þetta er ekkert stress. Þetta svona kemur eiginlega upp í hendurnar á mér, hvað á að gefa hverjum og svo framvegis. Ég skelli mér bara af stað út í búð og það detta strax inn „réttu“ jólagjafirnar. Mitt líf gengur alltaf best þannig.“

Hvernig er aðfangadagur hjá þér?

„Voða rólegur, ég er bahá'íi og held sjálfur ekki upp á þennan tíma en er auðvitað alinn upp við þetta og tek þátt með vinum og vandamönnum og bý í samfélagi sem tekur þessa siðvenju tveimur höndum. Þannig að tími minn snýst um að fagna og gleðjast með öðrum fremur en að setja mig í einhverjar trúariðkunarstellingar gagnvart jólunum.“

Einar Ágúst söng á jólatónleikum í byrjun desember og stendur …
Einar Ágúst söng á jólatónleikum í byrjun desember og stendur sjálfur fyrir styrtkartónleikum 21. desember. ljósmynd/Gassi

Hvað er ómissandi á jólunum?

„Fríið.“ 

Hvað er besta jólagjöf sem þú hefur fengið? 

„Þær eru fjölmargar en efst er hálsmen sem ég fékk að gjöf með nöfnum sona minna á. Það er allra fallegasta jólagjöf sem ég hef fengið. Hitti beint í mark og gamli steinlá.“

Hvað er besta jólagjöf sem þú hefur gefið?

„Sko ef ég hef gefið gjöf sem ekki hefur hitt í mark þá er meðvirknin á þessari hátíð á blússandi túrbókeyrslu hjá flestum og enginn sem þorir beinlínis að kvarta og ég get ekki beint metið hver hún er, sú besta. Kannski að vera bara í lagi og til staðar fyrir vini og vandamenn? Það hefur nú ekki alltaf verið þannig. Hef átt alveg dramatísk jól í tómu veseni með sjálfan mig en það er nú löngu liðin tíð. Mér finnst flottasta jólagjöfin sem ég hef gefið þegar boðið var upp á að kaupa nafn á ónefndar plánetur. Ég lét skíra eina stjörnu í höfuðið á þáverandi ást minni og meira grand verður það ekki held ég.“

Hvað langar þig í í jólagjöf?

„Ég þarf nú ekki neitt en ég er eitthvað voða „swag“ fyrir ilmolíulömpum þessa dagana, dagsljósavekjaraklukkum og lofthreinsitækjum, svona afjónunargræjum. Þetta er eitthvað blæti eða þráhyggja þessa dagana. Ekki það að mig vanti þetta nokkuð.“

Hvernig leggst nýja árið í þig?

„Sko, ef ég held mig við að rækta minn innri mann, taka ábyrgð á heilsu minni andlegri og líkamlegri getur fátt klikkað. Ég gæti líka kannski alveg dottið af baki með þann lífsstíl og farið í gremjukallinn sem er mér stundum kær en nei veistu, ég er nokkuð brattur bara. Þetta verður geggjað. Í febrúar kemur út ný íslensk bíómynd sem ég leik í. Þar leik ég sjálfan mig meira að segja. Getur þetta eitthvað orðið betra?“

Hvaða markmið ætlarðu að setja þér fyrir árið 2018?

„Ég hef reykt í yfir 20 ár, en ég setti pressu á mig og sagði fylgjendum mínum á Snapchat (einagust) að nú myndi ég hætta og setti það út í kosmósið og er þar undir eftirliti með það. Nú er ég „all in“ í að hætta og hvað þá eftir að það kemur á Smartlandið. Þetta er mökkuð pressa en þetta skal hafast og gengur vel og er klárlega það sem skiptir mestu máli. Ég get ekki svikið hann Ása son minn lengur með það loforð að hætta þessum viðbjóði. Jú, svo ætla ég að gera meiri tónlist, Lofaði sjálfum mér því. Reykja minna, meiri músík.“

Einar Ágúst vill gefa af sér fyrir jólin og ætlar að halda styrktartónleika í Duus-húsi í Reykjanesbæ fimmtudaginn 21. desember klukkan níu. „Ég skora á tónlistarmenn sem eru lausir þetta kvöld í tvö til fjögur lög að girða í brók og senda mér skilaboð til dæmis á Facebook ef þeir vilji leggja málefninu lið. Það er allt of mikið af fólki í basli, allt of, allt of mikið og það stendur til að úthluta gjafabréfum til fólks sem hefur lítið á milli handanna. Koma svo,“ segir Einar Ágúst að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál