Stofnar heilsu og meltingu ekki í hættu

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir, eða Tobba eins og hún er oftast kölluð, er mikið jólabarn og byrjar jafnan snemma að skreyta. Að hennar mati má vel njóta hátíðanna í botn án þess að troða sig út af sykri og óhollustu, enda er hún þekkt fyrir að matreiða hollan og afar ljúffengan mat. 

„Mér finnst alveg sérstaklega gaman að halda jól og finnst desember yndislegur mánuður, þótt ég viti að það sé mikið kaupæði í fólki. Þrátt fyrir það finnst mér þetta huggulegt. Ég nýt mín alveg í botn og er fljót að skreyta heima hjá mér. Í nóvember er ég komin með lítið jólatré fyrir utan hjá mér og hef gert það síðan ég var ungbarnamóðir. Þegar ég átti heima í Danmörku var ég komin með jólatré inn í eldhús til mín 1. nóvember. Svo vorum við líka alltaf með lifandi og fallegt jólatré í stofunni. Mér þykir æðislegt að fólk sé farið að setja upp jólaseríur snemma og finnst okkur ekkert veita af í skammdeginu,“ segir Þorbjörg hress í bragði. Þegar hún er spurð hvort hún haldi fast í einhverjar jólahefðir nefnir hún jólahald með börnum sínum. Þá opnar fjölskyldan jólagjafirnar í núvitund.

„Það er kannski ekki hægt að tala um hefðir lengur, þar sem ég er ekki lengur með lítil börn. Börnin mín eru fullorðin, en ég og pabbi þeirra erum búin að vera skilin í 12 ár. Við erum þó ennþá að skipta á milli okkar jólunum þrátt fyrir að elsta stelpan mín sé orðin 34 ára. Ef það er ekki minn tími á aðfangadagskvöld höldum við litlu jólin saman. Þá er Þorláksmessan bara eins og aðfangadagskvöldið okkar. Við borðum góðan jólamat, dönsum í kringum jólatréð og syngjum. Við gefum hvert öðru gjafir, en það er aðeins tekinn einn pakki upp í einu og skoðaður vel. Það skiptir miklu máli að veita því athygli sem maður fær og vera þakklátur. Ég var fljót að átta mig á þessu þegar ég var með ung börn og þetta er eitt af því sem varð hefð hjá okkur. Við tökum langan tíma í þetta og slökum svolítið á. Annars fer þetta gjafaflæði alveg úr böndunum,“ segir Þorbjörg. Þegar talið berst síðan að jólamatnum segir hún hann afar fjölbreyttan núorðið.

„Það er orðið svo mikið af stefnum í fjölskyldunni, það eru vegan einstaklingar og aðrir sem eru grænmetisætur. Svo eru aðrir sem bara borða fisk, á meðan sumir borða kjöt. Ég er því farin að hafa matseðilinn frekar fjölbreyttan. Ég er alltaf með á boðstólum hnetusteik sem ég bý til sjálf, en hún er líka í boði hér á veitingastaðnum mínum Yogafood. Svo er ég oftast með þrjú mismunandi salöt, en ég bý til helling af þeim þannig að það sé til nóg fyrir öll jólin. Þau haldast svo vel því ég nota gott kál og rótargrænmeti svo salatið verður bara betra með degi hverjum. Í forrétt er ég með lax, en með honum er mjög góð heimatilbúin sósa. Einnig er ég oft með fylltan kalkún, en það er hefð frá móður minni. Foreldrar mínir áttu heima í Bandaríkjunum þegar þau voru ung og komu heim með uppskrift að fylltum kalkún sem við fengum alltaf á jólunum. Þessa hefð tók ég yfir, en fyllingin er æðisleg. Ég er því með sitt lítið af hverju,“ segir Þorbjörg, en að hennar mati er algerlega hægt að gera vel við sig yfir hátíðirnar án þess að stofna heilsunni í hættu.

„Desertinn sem ég býð upp á er mjög hefðbundinn. Ég útbý ris a la mande og kirsuberjasósu, en þetta er allt saman sykur- og mjólkurlaust. Maturinn hjá mér virðist þungur, en þar sem það er svo mikið af góðu grænmeti, enginn viðbættur sykur og ekkert glúten í einu eða neinu fer fólk frá borði satt og glatt. Yfirleitt baka ég líka smákökur fyrir jólin. Þær eru líka glúten- og sykurlausar en samt alveg ótrúlega góðar. Ég veit að þetta getur farið aðeins úr böndunum hjá mörgum í desember. Maður borðar of mikið af öllu og það er búið að gefa leyfi fyrir namminu, konfektinu og kökunum. Ég gef sjálfri mér líka leyfi fyrir ýmsu sem ég geri ekki venjulega, en passa þó að vanda val mitt því of mikið af því slæma kostar of mikið,“ segir Þorbjörg og bætir við að það sé algerlega hægt að borða góðan mat án þess að stofna heilsu, maga og meltingu í hættu. En skyldi hún luma á einhverjum ráðum fyrir fólk sem vill síður fara yfir strikið í desember?

„Þetta er mjög einföld spurning, en svarið gæti verið svolítið flókið. Það er mjög auðvelt fyrir mig að segja fólki að passa sig á sykrinum og vanda sig í vali, en hvernig gerir maður það? Hvernig finnur maður þann ásetning og styrk hjá sér í þessum mánuði? Fyrst og fremst þarf maður að taka ákvörðun um að fara ekki fram úr sér. Til dæmis ef maður ætlar að baka smákökur er hægt að notast bara við helminginn af sykrinum sem er í uppskriftinni. Kannski er hægt að sleppa viðbættum sykri alveg. Eða jafnvel nota pálmasykur til helminga við þann venjulega. Svo má líka nota eitthvað af þessum náttúrulegu sætuefnum, eins og xylitol eða stevíu sem hægt er að fá með ýmsum bragðtegundum. Svo myndi ég athuga hvort það sé hægt að nota spelt í staðinn fyrir hvítt hveiti. Ef maður minnkar sykurmagnið um helming, notar pálmasykur og spelt í staðinn fyrir hvítt hveiti er maður kominn þó nokkuð langt á veg. Svo má auðvitað koma við í Yogafood hjá mér og kaupa smákökur og láta mig bara sjá um þetta,“ bætir Þorbjörg við, glettin.

„Það þarf ekki að velja þetta hefðbundna. Það er allt í lagi að vera djarfur og hugrakkur og bregða aðeins út af vananum. Fara aðeins út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Það gæti verið að það kæmi skemmtilega á óvart.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »