Jólahaldið endurspeglaði efnahag

Gerður Eygló Róbertsdóttir.
Gerður Eygló Róbertsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerður Eygló Róbertsdóttir, verkefnastjóri munavörslu Árbæjarsafnsins, segir jólahefðir Íslendinga tiltölulega lítið hafa breyst síðustu 100 ár, þótt siðir og venjur hafi að sjálfsögðu þróast í takt við breytta tíma. 

„Jólin eru tími hefða, flestir vilja halda í gömlu jólasiðina sem þeir upplifðu í æsku. Á fyrstu áratugum 20. aldar var almenn neysla fólks annars konar en við þekkjum í dag og efnahagur fólks afar misjafn. Fátækt var landlæg fram yfir seinna stríð og vöruúrval takmarkað. Jólahaldið endurspeglaði því efnahag og aðstæður. Þeir sem minna höfðu milli handanna létu sér nægja einfalda umgjörð, kerti og spil, meðan þeir sem bjuggu við betri kjör gátu gert vel við sitt fólk, keypt bæði fínan mat, gjafir og jólaskraut. En allir reyndu að halda hátíðleg jól,“ segir Gerður og bætir við að skraut á alþýðuheimilum hafi fyrst og fremst verið handgert og fólk hafi mikið skreytt með músastigum og spýtujólatrjám.

„Kramarhús voru einnig búin til og fyllt með rúsínum, eða ekki. Flestir keyptu kerti en heimagerð kerti þekktust þó. Þeir sem áttu aura gátu keypt jólatré og glitrandi jólakúlur. Fram yfir 1950 var yfirleitt aðeins stofan skreytt og það þá gert á Þorláksmessu. Með tímanum varð jólaskraut á heimilum landsmanna bæði fjölbreyttara og umfangsmeira. Ljósaskreytingar í glugga fara að sjást um 1970, algengar voru pappírsstjörnur með ljósaperu innan í og seinna komu svo aðventuljósin sem enn eru vinsæl,“ bendir Gerður á, en hvað með dægradvöl og skemmtun, hvernig var slíku háttað yfir hátíðirnar?

„Hér áður fyrr voru jólin mun heilagri hátíð en er í dag, víða var bannað að spila á jóladag og margir eflaust hvíldinni fegnir. Jólin urðu snemma fjölskylduhátíð, jólaboð hafa tíðkast lengi og svo jólaböll og skemmtanir annan dag jóla og eins dagana milli jóla og nýárs.“

Gerður segir einnig að Íslendingar hafi verið mun hófstilltari í gjafakaupum heldur en þekkist í dag.

„Í gamla bændasamfélaginu voru jólin fyrst og fremst haldin hátíðleg með betri mat og hvíld, enginn átti að vinna á jóladag. Sérstakar jólagjafir tíðkuðust varla, fólk fékk þó kerti og nýja flík fyrir jólin. Í þéttbýlinu urðu áhrif frá útlöndum fljótlega augljósari. Þar kepptust kaupmenn við að auglýsa tilvaldar og hentugar jólagjafir af ýmsu tagi. Ungar stúlkur í Reykjavík tóku sig til og bjuggu til jólagjafir handa fátækum heimilum í bænum árið 1876 og héldu einnig jólaskemmtun fyrir börnin í bænum milli jóla og nýárs. Þar fengu börnin gjafir og dansað var í kringum jólatré. Jólabókin varð síðan algeng jólagjöf, sérstaklega á skömmtunarárunum eftir síðari heimsstyrjöld. Sem fyrr fóru jólagjafirnar mikið eftir efnum fólks og aðstæðum, en óhætt er að segja að það jólagjafaflóð sem við þekkjum í dag var nánast óþekkt fyrirbæri fyrir 1960.“

Þrátt fyrir að lítið hafi verið um gjafir í gamla bændasamfélaginu fengu flestir nýja flík fyrir jólin til að forðast jólaköttinn.

„Ný flík gat verið margt, prjónaðir sokkar eða leppar í skóna, kannski ný svunta eða treyja. Jóladress í okkar skilningi komu seinna og yfirleitt átti fólk ekkert sérlega mikið af fötum. Sérstök jólaföt urðu ekki algeng fyrr en eftir 1960, nema kannski á fínustu heimilum.“

Gerður segir einnig að maturinn sem borðaður var á jólunum hafi verið fremur ólíkur því sem við eigum að venjast í dag, þótt boðið hafi verið upp á það besta sem til var á heimilinu hverju sinni.

„Matur á jólum var ætíð það besta sem hægt var að bjóða á hverjum tíma. Stundum var soðið kindakjöt sett í askana, sem var þá kærkomin tilbreyting frá súrmeti og graut. Með batnandi efnahag, aukinni verslun og frystingu matvæla breyttust siðir landsmanna. Um 1960 var lambakjöt víða á borðum landsmanna um jólin, kótelettur, læri eða hryggur. Þá urðu rjúpur einnig vinsæll jólamatur. Meðlætið var brúnaðar kartöflur, grænar baunir og rauðkál, og svo náttúrlega malt og appelsín. Með fjölbreyttari matvælaframleiðslu varð fjölbreytnin meiri, hamborgarhryggurinn varð vinsæll og meðlætið fjölbreyttara.“

En hvaða hefðir höldum við enn í án þess hugsanlega að átta okkur á því að þær eru gamlar?

„Sá siður að fara til kirkju á aðfangadag er gamall og var mjög ríkjandi langt fram eftir 20. öldinni og enn í dag eru allar kirkjur landsins fullar út úr dyrum á aðfangadagskvöld. Svo er náttúrlega laufabrauðsskurðurinn afar gamall og skemmtilegur siður sem enn er ómissandi í jólaundirbúningi margra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »